03. júní 2016
Þjálfun og vitundarvakning starfsmanna Fjarðaáls skilar góðum árangri í umhverfismálum
Á hverju ári skilar Alcoa Fjarðaál inn grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar, ásamt skýrslu sem Náttúrustofa Austurlands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands vinna fyrir fyrirtækið. Þessar skýrslur vegna ársins 2015 eru nú aðgengilegar á vef Fjarðaáls.
Alcoa setur sér mjög strangar kröfur í umhverfismálum og umhverfisvernd er þungamiðja í starfsemi fyrirtækisins um allan heim. Fyrirtækið vinnur að stöðugum umbótum og er meðvitað um þá ábyrgð að lágmarka þau áhrif sem starfsemin hefur á umhverfið.
Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls, segir m.a. í ávarpi sínu í Grænu bókhaldi: „Á árinu 2015 var mikil áhersla lögð á þjálfun og vitundarvakningu starfsmanna í umhverfismálum. Lagður var metnaður í að meta mælibreytur út frá mismunandi hliðum, innan starfseminnar sem og ytri áhrifaþætti í umhverfinu. Lögð var áhersla á þátttöku allra starfsmanna með reglulegri upplýsingamiðlun um ávinning af bættu verklagi.“
Magnús Þór leggur segir að þessi aukna áhersla hafi borið góðan árangur, sem sást m.a. í umtalsverðri lækkun á flúor í grasi og lækkuðum flúorgildum í kjálkabeinum sauðfés, en flúor mældist þar svipaður og viðmiðunarárið 2006, áður en álframleiðsla hófst.
Margþættar aðgerðir til að draga úr losun
Hjá Fjarðaáli er stöðugt er verið að leita leiða til úrbóta. Endurnýjun kerloka í kerskála og afsogsaukning til reykhreinsivirkis stuðluðu að minni losun frá starfsemi Alcoa Fjarðaáls á árinu 2015. Þá var einnig sett í gang stórt fjárfestingarverkefni sem miðar að því að auka stöðugleika í rekstri kerskála og minnka ristíma en þessir þættir eru mikilvægir varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.
Fyrirmyndar meðhöndlun úrgangs
Magnús Þór bendir á að stefna Alcoa sé að árið 2030 fari enginn úrgangur til urðunar. „Það er ánægjuefni,“ segir hann, „að þar er Alcoa Fjarðaál er fremst í flokki innan Alcoa samstæðunnar.“ Einungis 0,38% af heildarmagni úrgangs fór til urðunar árið 2015, sem samanstóð að mestu leyti af lífrænum úrgangi. Það er Fjarðaáli mikið metnaðarmál að tryggja lágmörkun, endurvinnslu og endurnýtingu eins og hægt er í samræmi við háleit umhverfismarkmið. Allar aukaafurðir og spilliefni, þar með talin skautleifar og kerbrot eru flutt utan til endurvinnslu og endurnýtingar.
Menntun starfsmanna mikilvæg
Á árinu 2015 stunduðu 52 starfsmenn nám í Stóriðjuskóla Alcoa Fjarðaáls, en hann er samstarfsverkefni Austurbrúar, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjarðaáls. Magnús Þór segir: „Stóriðjuskólinn gegnir mikilvægu hlutverki í kennslu og tileinkun strangra gilda Alcoa í umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismálum sem krefjast þess að unnið sé í samræmi við gildandi verkferla á hverri starfsstöð.“ Skólinn gefur starfsmönnum færi á að eflast og þróast í starfi og þar sem námið er metið til eininga í framhaldsskóla getur það orðið hvati að áframhaldandi námi.
Í lok ávarps síns segir Magnús Þór að Alcoa Fjarðaál hafi tekið út mikinn þroska á þeim tíma sem fyrirtækið hefur starfað. „Vitund starfsfólks um umhverfis-, heilsu- og öryggismálefni fer stigvaxandi og mikill áhugi hefur verið fyrir að taka virkan þátt í endurbótum á þessum sviðum. Almennur góður árangur hefur náðst undanfarin ár og það er enginn vafi á því að þessi virka þátttaka allra starfsmanna er lykilþáttur. Góðri vinnu ársins 2015 verður framhaldið og við horfum því með bjartsýni fram á veginn,“ segir Magnús Þór Ásmundsson að lokum.
Hér má sjá Grænt bókhald og umhverfisskýrslur Alcoa Fjarðaáls frá upphafi.