15. mars 2024

Baráttudagur kvenna: áhersla lögð á bætta vinnuferla hjá Alcoa

Rebekka Rán Egilsdóttir

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var haldinn hátíðlegur 8. mars síðastliðinn. Hjá Alcoa var deginum fagnað með sameiginlegri útsendingu í öllum verksmiðjum samsteypunnar. Áhersla var lögð á að kynna annars vegar Alcoa Women´s Network sem eru samtök kvenna hjá fyrirtækinu og hins vegar verkefni sem kallast Good Work Design og miðar að betri hönnun starfa. Við fengum Rebekku Rán Egilsdóttur til að segja frá Alcoa Women´s Network og Maríu Ósk Kristmundsdóttur til að fræða okkur um Good Work Design.

 Rebekka Rán Egilsdóttir hefur unnið hjá Alcoa í næstum 17 ár. „Ég byrjaði sem framleiðslustarfsmaður hjá Alcoa Fjarðaáli og hef sinnt nokkrum hlutverkum og mörgum verkefnum í gegnum tíðina. Ég er núna í teymi sem er yfir eignum og viðhaldsmálum Alcoa í Evrópu og ber þar ábyrgð á yfirsýn verktakaþjónustu og innleiðingu ferla allt frá útboði til verkloka.“

Rebekka Rán er jafnframt í forsvari fyrir Tengslanet kvenna hjá Alcoa (Alcoa Women’s Network) á heimsvísu ásamt Talitha Santini sem starfar hjá Alcoa í Ástralíu. „Við viljum að Alcoa sé eftirsóttur vinnustaður fyrir konur og því mikilvægt að vera fyrirmyndir þegar kemur að jafnrétti og góðri vinnustaðarmenningu. Við erum þessa dagana að fara yfir stöðuna, gera áætlun og setja niður aðgerðir fyrir næstu tvö árin. Nú verða markmið AWN sett inn í frammistöðumat fyrirtækisins og þannig tryggjum við þátttöku og skuldbindingu stjórnenda.“

Líkamsburðir séu ekki fyrirstaða
„Staða kvenna innan Alcoa er mjög misjöfn á milli svæða og helst nokkuð í hendur við stöðuna á vinnumörkuðum almennt. Áliðnaðurinn er enn frekar karllægur og fyrir því eru ýmsar ástæður, þeirra á meðal vaktavinna og líkamlegt erfiði. Alcoa vinnur stöðugt að umbótum þess efnis að auðvelda vinnuna þannig að líkamsburðir séu ekki fyrirstaða. Markmiðið er líka að fjölga konum í stjórnendastöðum. Í þeim tilgangi hefur AWN boðið konum upp á stjórnendanám í samstarfi við Stanford háskóla og tvær konur frá Fjarðaáli eru núna í því námi. Við þurfum að efla sjálfstraust kvenna sem hafa áhuga á að taka að sér aukna ábyrgð svo þær vilji stíga upp.“

Rebekka Rán segir að AWN varði ekki bara konur innan Alcoa. „Markmið AWN er að styrkja og styðja konur ásamt því að stuðla að jafnrétti kynja. Karlmenn vinna með okkur hjá AWN ásamt öðrum kynjum og það er nauðsynlegt til þess að ná markmiðum okkar. Þess má geta að ábyrgðaraðili AWN í Evrópu er Júlíus Brynjarsson, framkvæmdastjóri hjá Fjarðaáli. Fjölbreyttur vinnustaður er ekki bara skemmtilegri fyrir okkur öll heldur leiðin að velgengni fyrirtækisins og betra samfélagi.“

Auðvelda framleiðslustörf til að nýta þess að kraftana
María Ósk Kristmundsdóttir hefur líka unnið hjá Alcoa í næstum 17 ár. „Ég er með starfsheitið Knowledge Delivery Manager og starfa hjá Alcoa Centre of Excellence sem er teymi um 100 sérfræðinga í móðurfélaginu. Teymið hefur þann tilgang að vera tæknilegt bakland og stuðningur fyrir framleiðslu í öllum verksmiðjum Alcoa. Mitt aðalhlutverk felst í því að hjálpa þessum sérfræðingum að koma þekkingu sinni á framfæri. Verkefnin snúast annars vegar um að deila besta mögulega verklagi á milli verksmiðja og hins vegar um tæknilega þjálfun fyrir starfsfólk í verksmiðjum Alcoa. Auk þess hef ég tekið að mér að leiða Good Work Design verkefni Alcoa.“


„Good Work Design byrjaði árið 2021 og ég hef leitt verkefnið í nærri tvö ár“, segir María Ósk. „Verkefnið snýst um að gera framleiðslustörf auðveldari til að minnka álagstengd meiðsl og slys og einnig til að gera störfin aðgengilegri fyrir fjölbreyttan hóp fólks. Við mælum árangur verkefnisins með verkfæri sem var hannað og þróað innan Alcoa og heitir Physical Role Score (PRS). Það hjálpar okkur að útrýma líkamlega erfiðum hlutverkum með því að meta vinnuvistfræðilega þætti og gefa þeim einkunn. Við forgangsröðum verkefnum eftir því hversu mikil áhrif við gætum haft á hlutverkin í heild og einnig eftir fjölda þeirra sem eru í hlutverkunum. Þannig getum við nýtt krafta okkar og fjármagn sem best.“

Hafa fækkað líkamlega erfiðum verkum um 33%
María Ósk segir að ávinningurinn af Good Work Design hafi verið vonum framar. „Við höfum metið 343 hlutverk með PRS, þar af voru 116 hlutverk metin mjög líkamlega erfið. Nú þegar hefur okkur tekist að fækka þessum líkamlega erfiðu hlutverkum niður í 77 eða um heil 33%. Það má þakka mikilli vinnu og hugmyndauðgi starfsfólks við að finna betri lausnir. Fjarðaál hefur náð mjög góðum árangri og hefur tekist að fækka líkamlega erfiðum hlutverkum úr 11 niður í 8. Lausnirnar hafa verið af ýmsum toga svo sem hönnun og smíði sérhæfðra verkfæra, stillanleg borð og vinnupallar sem gera starfsmönnum kleift að halda réttri líkamsbeitingu við framkvæmd starfa óháð hæð þeirra sjálfra og uppsetning á rafmagnstalíum sem auðvelda starfsmönnum að færa til þunga hluti. Allt er þetta gert til þess að starfsmaðurinn þurfi ekki að aðlaga sig að starfinu heldur að starfið sé aðlagað að starfsmanninum. Ávinningurinn er færri slys og minni álagsmeiðsli ásamt minni starfsmannaveltu og aukinni fjölbreytni á meðal starfsfólks, þar með talið fjölgun kvenna.“