20. janúar 2022

Mannauðurinn er lykillinn að góðum árangri: viðtal við Smára Kristinsson

Smari_2

Smári Kristinsson tók síðsumars 2021 við stöðu framkvæmdastjóra mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli. Smári er búinn að starfa hjá fyrirtækinu síðan í ársbyrjun 2006 og hefur komið víða við. Hann hóf störf sem ferliseigandi álframleiðslu og tók þátt í að undirbúa ræsingu verksmiðjunnar og að þjálfa starfsmenn í það hlutverk. Smári segir að fyrsti vinnudagurinn hans verði ávallt minnisstæður. „Ég hafði verið fararstjóri á skíðamóti á Ítalíu og á mánudegi yfirgaf ég hópinn á flugvellinum í Mílanó. Þau flugu heim en ég til Kanada þar sem fyrsta þjálfun á vegum fyrirtækisins var að hefjast.“

Smári flutti austur þegar hann hóf störf hjá Fjarðaáli en hann bjó fram að því á Akureyri. Hann er kvæntur Birnu Dagbjörtu Þorláksdóttur sem er uppalin í Grímsey og þau eiga saman þrjú börn á aldrinum 16-27 ára. Þá hefur eitt barnabarn bæst í hópinn og segir Smári að þeim hjónum þyki ömmu- og afahlutverkið afar skemmtilegt.

Árið 2008 var Smári ráðinn framkvæmdastjóri málmvinnslu en fluttist árið 2015 í stöðu framkvæmdastjóra álframleiðslu svo hann þekkir mjög vel inn á öll framleiðslusvæði fyrirtækisins. Frá 2019 hefur Smári verið framkvæmdastjóri rekstrarþróunar hjá fyrirtækinu og einnig hefur hann verið staðgengill forstjóra. „Það má því segja að ég hafi komið víða við og í gegnum þessi hlutverk hef ég kynnst afar stórum hluta verksmiðjunnar og miklum fjölda starfsmanna. Ég hef á þessum árum verið mjög lánsamur og er gríðarlega þakklátur fyrirtækinu og stjórnendum þess fyrir þau tækifæri sem mér hafa staðið til boða,“ segir Smári.

En hvernig leggst nýja hlutverkið í hann? „Það leggst mjög vel í mig. Við erum að fást við mörg skemmtileg og krefjandi verkefni tengdum mannauði fyrirtækisins sem verður gaman að takast á við með frábærum hópi sérfræðinga teymisins og starfsmanna fyrirtækisins. Ég tek við góðu búi frá forvera mínum Guðnýju Björgu Hauksdóttur og við stöndum framarlega á mörgum sviðum mannauðsmálanna,“ segir Smári. „En samhliða ýmsum breytingum í þjóðfélaginu, fjórðu iðnbyltingunni, breytingum á vinnumarkaði og í umhverfi okkar eru verkefni næg og áskoranir talsverðar á næstu misserum.“

Það er að mörgu að huga í mannauðsmálum hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki líkt og Alcoa Fjarðaáli og Smári segir að það allra mikilvægasta sem snýr að þessum málaflokki sé velferð og öryggi starfsmanna. „Við leggjum einnig mikla áherslu á jafnrétti og fjölbreytni. Til þess að ná árangri á öllum þessum sviðum gegna þjálfun, fræðsla og starfsþróun mikilvægu hlutverki.“ Hjá Fjarðaáli verður haldið áfram að byggja upp jákvæða vinnustaðarmenningu sem stuðlar að helgun og ánægju starfsmanna og Smári segist vera þess fullviss að með því að leggja áherslu á þessa þætti og tengja þá gildum fyrirtækisins sem eru heilindi, árangur, umhyggja og hugrekki sé grunnurinn lagður að góðum árangri í rekstri Fjarðaáls.

En hvernig skyldi framtíðarsýn Smára vera fyrir fyrirtækið Alcoa Fjarðaál? „Ég sé fyrir mér að Fjarðaál muni eflast og dafna á næstu árum og verða leiðandi á mörgum sviðum.  Við erum komin yfir fermingaraldurinn og ætlum okkur að verða ábyrg, framsýn og skapandi á fullorðinsárunum. Ég sé fyrir mér að við munum auka samkeppnishæfni okkar og ná framúrskarandi árangri þar sem hagsmunir starfsmanna, samfélagsins hér fyrir austan og hagkerfis okkar Íslendinga muni fara saman. Og ekki síst sé ég fyrir mér að mannauður okkar verði lykillinn að þessum árangri og góðri og bjartri framtíð Alcoa Fjarðaáls,“ segir Smári að lokum.

Smari_3

Smára (t.h.) finnst mikilvægt að hitta starfsmenn á sínum starfssvæðum og hér spjallar hann við Daníel Gíslason, starfsmann kerskála.