08. september 2021
Þurrt sumar hefur áhrif á gildi flúors í grasi
Frá því álver Fjarðaáls í Reyðarfirði hóf rekstur árið 2007 hefur Náttúrustofa Austurlands mælt flúormagn í grasi yfir sumarmánuðina víðsvegar í nágrenni álversins en sú vöktun er hluti af víðtækri umhverfisvöktun vegna áhrifa álversins á nærumhverfið.
Umfangsmikill hluti þessarar vöktunaráætlunar eru mælingar á flúor í grasi yfir sumartímann með dýraheilbrigði í huga. Gerðar eru sex mælingar, tvær í mánuði í júní, júlí og ágúst. Að hausti er tekið meðaltal allra sýna og þannig fundið meðaltal sumarsins. Sýnin eru ávallt tekin á sama stað og með sömu aðferð svo þau séu samanburðarhæf. Viðmið í vöktunaráætlun Fjarðaáls eru 40 µg F/g í grasi að meðaltali. Að fylgjast vel með magni flúors í gróðri gefur okkur vísbendingu um hvort við þurfum að auka eftirlit með grasbítum í firðinum eða hvort við getum haldið okkur við það eftirlit sem nú þegar er til staðar.
Hlýindi í júlí og ágúst hafa áhrif á gildin
Ýmsir þættir, svo sem veður, geta haft áhrif á mæliniðurstöðurnar og geta þær því verið mjög breytilegar á milli mælinga. Vegna óvenju hás hita og mikilla þurrka í júlí og ágúst þá eru mæliniðurstöður fyrir flúor í grasi þessa mánuði hærri en við eigum að venjast og urðu til þess að meðaltal sumarsins fyrir flúor í grasi var yfir viðmiðum í vöktunaráætlun eða 68,5 µg F/g af grasi. Næstu skref og viðbrögð við þessum niðurstöðum verða ákvörðuð í samvinnu við umhverfisyfirvöld og aðra hagsmunaaðila eins og bændur og hestaeigendur.
Einnig er safnað heysýnum frá túnum bænda og hrossaeigenda í Reyðarfirði og þrátt fyrir að þær niðurstöður séu hærri en við höfum áður séð er talið að þær séu undir þeim mörkum sem sett eru fyrir fóður fyrir ær og vel undir þeim mörkum sem sett eru fyrir hross.
Hvað merkir þetta?
Mikilvægt er að hafa í huga að við erum að skoða þessar mælingar með dýraheilbrigði í huga. Hér er eingöngu verið að skoða gras og því er mönnum ekki hætta búin af þessum niðurstöðum. Á hverju ári eru einnig gerðar mælingar á berjum og grænmeti sem fólk ræktar í görðum en þær hafa ávallt verið lágar þrátt fyrir að grassýni hafi verið há. Það er því ekki bein fylgni þarna á milli þar sem grænmeti og ber taka ekki upp flúor með sama hætti og gras gerir. Matvælastofnun mælir þó ávallt með því að fólk skoli grænmeti og ávexti hvar svo sem á landinu það er ræktað.
Hluti af vöktunaráætluninni er að vakta uppsöfnun flúors í drykkjarvatni og lækjum á svæðinu og eru þær niðurstöður langt innan reglugerðarmarka í ár líkt og fyrri ár. Hægt er að fræðast meira um áhrif flúors á menn í grein sem Dr. Alan Davison sem var fremsti sérfræðingur heims í flúorrannsóknum meðan hann lifði, tók saman fyrir okkur. Greinina má nálgast hér.
Einn mikilvægasti hluti vöktunaráætlunarinnar er skoðun dýralækna á bæði sauðfé og hrossum í Reyðarfirði. Samkvæmt þessum skoðunum hafa til þessa engar vísbendingar komið fram sem gefa til kynna að flúor í Reyðarfirði hafi haft áhrif á grasbíta. Fjarðaál á enn fremur í góðu sambandi við bændur á svæðinu og það eru í raun þeir sem eru best til þess fallnir að fylgjast með og meta hvort dýrin sýni merki um áhrif eða ekki. Þá er vert að taka fram að flúor hefur ekki áhrif á kjötið af dýrunum.
Að lokum
Ástæða er til að ítreka að fólki á svæðinu starfar ekki hætta af útblæstri flúors frá álverinu þrátt fyrir þessar veðuraðstæður. Ástæðan fyrir eftirlitinu er að við viljum fylgjast með og meta umhverfisáhrif af starfsemi álversins í firðinum. Einn þáttur í þessari vöktun er að fylgjast með hvort flúor í gróðri hafi áhrif á grasbíta. Hann hefur ekki áhrif á grasbíta nema þeir nærist í langan tíma á grasi og heyi sem er yfir mörkum en þau miðast við ársneyslu. Þess vegna fylgjumst við með innihaldi flúors í grasi og heyi. Áfram verður fylgst vel með heilsu dýra í firðinum og í ljósi hárra niðurstaðna fyrir flúor í grasi sumarið 2021 verður ákveðið í samstarfi við hagsmunaaðila hvort auka þurfi eftirlit og þá með hvaða hætti það verður gert.