25. janúar 2021

Umfangsmiklum steypuskálaverkefnum hjá Fjarðaáli lokið

Síðustu vikurnar fyrir jól var mikið fjör í steypuskálanum hjá Fjarðaáli í kringum HDC steypuvélina þó svo að ekki væri verið að framleiða neitt á henni. Margra mánaða undirbúningur að þessum niðritíma hafði átt sér stað. Þegar heil steypulína er tekin úr rekstri hefur það samstundis töluverð áhrif á málmflæðið frá kerskála til steypuskála, en fjórðungur af heildarframleiðslu Fjarðaáls fer í gegnum HDC. Til þess að ráða við málmflæðið var sett upp handvirk steypa í kerfóðrun og samhliða framleiðsla aukin á barrasteypuvélinni. Heildarkostnaður fyrir ofnana og steypufæriböndin var um hálfur milljarður króna.

Umfang verkefnanna

Hlöðver Hlöðversson, verkefnastjóri, segir að stóru verkefnin á HDC hafi snúist um að endurfóðra ofnana, endurnýja öll element og endurnýja steypufæriband, undirstöður og „stöflunarróbotinn”. Við HDC eru tveir 100 tonna ofnar þar sem álinu frá kerskála er hellt úr deiglum og blandað við það ýmiss konar íblöndunarefnum eftir óskum kaupenda til þess að ná fram ólíkum eiginleikum álsins. Endurfóðrun ofnana var tímafrekasti þáttur alls verkefnisins og réð tímalínu heildarverksins. Allir aðrir þættir þurftu því að klárast innan þess tíma sem endurfóðrun tekur.

Hlöðver segir: „Við höfum aldrei endurfóðrað ofnana okkar, en líftími einangrunar innan Alcoa er almennt í kringum átta ár. Þessar fóðringar hafa enst í rúm þrettán ár, sem er með því besta sem gerist innan Alcoa. Ástæða þess er sú að umhirða ofnana á ofnasvæðinu og natni starfsmanna að fara vel með ofnana ásamt því að bestu fóðringarefnin voru notuð í upphafi.“

Enginn dýrmætur tími til spillis

„Heildarverkefnið var rúmar fimm vikur í framkvæmd,“ segir Hlöðver, „og allt skipulag miðaðist við öruggt verklag og að hvergi færi tími til spillis í þeim verkþætti sem réð tímalengdinni, það er ofnunum. Unnið var allan sólarhringinn, alla daga og allt skipulagt niður á hvern einasta klukkutíma. Á HDC línunni sjálfri var pressan ekki eins mikil og kallaði ekki á sólarhringsvinnu alla daga vikunnar, en þurfti hins vegar að passa mjög vel að allt væri gert í réttri röð til þess að hámarka afköstin hjá öllum þeim sem komu að endurnýjun og umbótum þeim megin. Þar voru undirstöður og útskipti á færibandinu við steypuvélina stærsti einstaki verkþátturinn ásamt því að nýji stöflunarróbotinn var settur inn til þess að leysa þann gamla af hólmi.“

HDC línan var tekin úr rekstri að morgni 9. nóvember og fyrsta steypa eftir að fyrri ofninn var tilbúinn fór fram 10. desember. Mikilvægt var að nota tímann vel og taka prufusteypur til þess að lagfæra þau vandamál sem upp komu á framleiðslulínunni eftir svo langt stopp. Seinni ofninn var tilbúinn þann 13. desember. „Það má búast við einhverjum truflunum fyrstu dagana á meðan allur búnaðurinn sem búinn er að vera hreyfingarlaus í svo margar vikur er að liðkast til, en það hefst allt um síðir,“ segir Hlöðver. „Við gerðum nokkrar hönnurbreytingar á ofnunum. Umfang þeirra var aukið úr 100 tonnum í 110 tonn og ný tegund af einangrun notuð, sem ætti að tryggja okkur aftur mjög langan endingartíma.“

Allir tóku virkan þátt í breytingunum

Verkefnið í heild sinni var afar skemmtilegt að sögn Hlöðvers en mjög miklar áskoranir í kringum það, til dæmis þættir sem þurfti að samtvinna og sníða inn í COVID umhverfið. Að verkefninu komu hátt í hundrað manns og margir verktakar og flestir starfsmenn steypuskála og úr fleiri deildum. Stuðningur fræðsluseturs Alcoa (CoE) var mikill en þaðan komu Jake Whitsitt og Gabriela Bruno og voru allan tímann á staðnum. Að verkefninu komu erlendir sérfræðingar frá USA, UK, Austurríki, Dubai, Suður-Afríku, Belgíu og Akranesi.

Hlöðver segir að lokum: „Þegar maður lítur yfir öxl er þakklæti það sem fyrst kemur upp í hugann. Engin slys á fólki og allt saman stóðst áætlun. Dugnaðurinn og krafturinn í fólkinu okkar sem kom að þessu öllu saman var gríðarlegur og útsjónarsemin mikil. Sú staðreynd að allir sem einn lögðust á árarnar og réru í takti frá upphafi til enda skilaði okkur frábærum árangri og fullnaðarsigri. Margir starfsmenn hafa unnið langa daga og sumir þurft að þola ýmsar tímabundar breytingar. Þegar við stöndum öll saman þá eru okkur allir vegir færir.“

IMG_7544
IMG_7544