25. september 2020

Alcoa hefur bætt EcoSource við umhverfisvænu vörulínuna Sustana - fyrsta súrálsvörumerkið með lágu kolefnisfótspori

Fyrr í þessari viku kynnti Alcoa nýja viðbót við hina svokölluðu Sustana™ vörulínu fyrirtækisins. Um er að ræða nýja tegund af súráli sem kallast EcoSourceTM en það er fyrsta kolefnislága súrálið sem ætlað er til notkunar í álframleiðslu.

EcoSource er framleitt með eingöngu 0,6 tonnum af kolefnisígildum á hvert tonn af súráli, sem er helmingi lægra en meðaltalslosun í iðnaðinum, en það eru 1,2 tonn af CO2. Mælingar Alcoa byggjast á beinni losun frá báxítnámum og súrálsframleiðslu fyrirtækisins ásamt óbeinni losun vegna orkunnar sem notuð er í framleiðsluferlinu.

Alcoa er stærsta þriðja-aðila súrálsframleiðslufyrirtæki í heimi og súrálsframleiðsla fyrirtækisins er með lægsta kolefnisfótsporið í þeim iðnaði. Meðal kolefnislosun hreinsunarstöðvanna sem framleiða EcoSource súrálið er minni en hjá 90% annarra súrálsframleiðenda sem nú eru í rekstri.

„Sustana vörulína Alcoa getur veitt viðskiptavinum sem vilja draga úr umhverfisáhrifum síns fyrirtækis ákveðið forskot,“ segir Roy Harvey, forstjóri og stjórnarformaður Alcoa.  „Forysta okkar í sjálfbærnimálum felur í sér að fylgjast með losun frá öllum stigum framleiðslunnar. Ál er ekki alls staðar framleitt á sama hátt og sú aðferð okkar að líta á ferlið frá námugreftri til álframleiðslu skiptir meginmáli.“

EcoSource er viðbót við Sustana vörulínu fyrirtækisins sem samanstendur af þessum vörum, auk EcoSource:

  • EcoLumTM lágkolefna ál sem er framleitt með losun minna en 4 tonna af CO2 á hvert tonn af áli, þ.m.t. bæði bein og óbein losun vegna báxítnámuvinnslu, súrálsframleiðslu, álframleiðslu og álsteypu. Þessi frammistaða telst u.þ.b. 3,5 sinnum betri en meðaltalið í iðnaðinum og fyrirtækið býður upp á ýmsar frumframleiðsluvörur í vörulínunni, svo sem álstangir, melmisstangir, barra, óblandað hágæðaál og P1020.
  • EcoDuraTM ál er framleitt úr blöndu sem inniheldur a.m.k. 50% endurunnins áls. Þessi framleiðsluvara getur reynst mjög vel fyrir viðskiptavini í byggingariðnaði með tilliti til LEED® vistvottunarferlis.

 Allar Sustana vörur koma frá starfsstöðvum Alcoa sem hafa hlotið vottun  staðlaráðsins ASI (Aluminium Stewardship Initiative) en það eru alþjóðleg samtök um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu. Alcoa er með starfsstöðvar á öllum stigum framleiðslunnar sem hafa hlotið vottun hjá ASI og hafa einnig öðlast rekjanleikavottun (Chain of Custody) samtakanna en hún staðfestir rekjanleika ábyrgrar framleiðslu, aðfanga og stjórnunar.

Nánari upplýsingar um Sustana vörulínuna er að finna á vefsíðunni www.alcoa.com/sustana.

Sustana