13. maí 2020

Tekið á móti sumarstarfsmönnum í vefheimum

Allt frá því rekstur Alcoa Fjarðaáls hófst hefur fyrirtækið treyst á sumarstarfsmenn til þess að leysa af starfsmenn sem eru í orlofi. Flestir farfuglanna eru menntaskóla- eða háskólanemar og margir þeirra hafa ílenst eftir að námi lýkur. Rúmlega 100 sumarstarfsmenn voru ráðnir í ár og þar af hafa um 40 starfað hjá fyrirtækinu áður. Þetta árið hefur móttaka sumarstarfsmanna verið með afar óhefðbundnum hætti vegna varúðarráðstafana tengdum COVID-19. Yfirleitt felst móttakan í fjölbreyttum námskeiðum í kennslustofu ásamt skoðunarferðum og kynningu á hverju svæði fyrir sig, en þegar gripið var til víðtækra sóttvarnarráðstafana vegna kórónaveirunnar var ljóst að hugsa þurfti út fyrir kassann og færa sér tæknina í nyt.

Niðurstaðan var sú að halda öryggisnámskeið og allar kynningar í gegnum samskiptaforritið Teams frá Microsoft. Nemendur eru þá heima hjá sér og það sama gildir yfirleitt um leiðbeinendur. Vinnuvélanámskeiðin, sem haldin eru af Vinnueftirliti ríkisins, þar sem námskeiðið er að miklu leyti verklegt, eru haldin utan svæðis og tveggja metra reglan er höfð að leiðarljósi.

Nú í upphafi maímánaðar hefur ein móttaka sumarstarfsmanna farið fram og önnur er nýhafin. Þótt þetta séu ekki kjöraðstæður fyrir nýliðamóttöku hefur allt gengið hnökralaust fyrir sig og samkvæmt áætlun. Mikil áhersla er lögð á að taka vel á móti sumarstarfsmönnunum þegar þeir mæta á vaktirnar og að þeir fái góða kynningu á starfsstöð sinni og öryggismálum hvers svæðis.

 

Fræðslustjórinn er bjartsýnn

Sigrún Birna Björnsdóttir, fræðslustjóri Fjarðaáls, segir aðspurð um helstu breytingar í ár: „Stærsta breytingin hjá mér er að hitta ekki samstarfsfólkið og nýliðana og ég sakna þeirra samskipta afar mikið. Þótt tæknin sé frábær kemur hún engan veginn í staðinn fyrir það að hitta fólk. Einnig skiptir máli að öllum öðrum námskeiðum hefur verið frestað á meðan á þessu ástandi stendur. Yfirleitt eru alls konar námskeið í gangi hjá okkur á þessum árstíma. En þetta lagast vonandi allt í haust.“

Sigrún Birna telur að nýliðarnir í undirbúningi sumarstarfa taki breytingunum vel. „Það eru margir sumarstarfsmenn menntaskólanemar sem hafa undanfarið stundað námið sitt í fjarkennslu,“ segir hún. „Svo eru ófáir Íslendingar komnir inn á Teams eða Zoom eða hvað þetta heitir nú allt, þannig að flestir eru búnir að venjast þessum samskiptamáta á mjög skömmum tíma. Ég verð líka að nefna að kennararnir, starfsmenn Fjarðaáls, hafa aðlagast þessu hratt og vel og staðið sig stórkostlega í að takast á við þessa nýju áskorun.“

Hvað varðar Sigrúnu Birnu sjálfa, hvernig hefur henni tekist að aðlagast breyttum aðstæðum í vinnunni? Hún segir að það hafi tekist vel en hún saknar þó samstarfsfólksins. „Það fylgja þessu samt kostir, ég gríp oft í heklunálina þegar ég er á símafundum, sem mér þykir afar róandi og næ betri einbeitingu fyrir vikið. Ég tel mig vera mjög jákvæða manneskju, en ég verð að játa að það hafa komið tímabil þar sem ég hef séð allt svart við þetta ástand. Þessi tímabil hafa þó varað stutt. Þetta er bara verkefni og ég ber mikla virðingu fyrir þeim fjölmörgu sem þurfa að takast á við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður, víðsvegar í samfélaginu. Ég er mjög stolt af því hvernig vinnustaðurinn minn hefur tekist á við þetta verkefni og eiga stjórnendur og starfsmenn Fjarðaáls hrós skilið fyrir viðbrögð sín og aðlögunarhæfni,“ segir Sigrún Birna að lokum. 

 

Sigrun_Birna_700px

Sigrún Birna Björnsdóttir, fræðslustjóri Fjarðaáls, situr hér við skrifborðið heima hjá sér að undirbúa móttöku sumarstarfsmanna á Teams ásamt Elísabetu Sveinsdóttur sem sést á tölvuskjánum.