22. janúar 2020

„Það verður líklegast ekkert úr þessum dreng!“

Ingólfur T. Helgason er nýtekinn við starfi framkvæmdastjóra álframleiðslu hjá Fjarðaáli og er yngsti framkvæmdastjóri Fjarðaáls frá upphafi. Með einungis 33 ár að baki sér og þar af tíu erfið grunnskólaár og falleinkunn á samræmdu prófunum, er hann eins og fönix sem rís upp úr djúpinu með verðlaunað lokaverkefni við HR og glæstan starfsferil hjá Alcoa, innanlands og -utan.

Þetta viðtal við Ingólf birtist í Fjarðaálsfréttum sem dreift var á hvert heimili á Austurlandi fyrir síðustu jól. 

Starf framkvæmdastjóra álframleiðslu

Í hverju felst starfið þitt? „Ef ég á að lýsa starfinu mínu þá er það öðru vísi en ég hélt. Það snýst fyrst og fremst um að virkja fólk, setja væntingar og markmið og svo að fylgja því eftir. Það er ekki hægt að gera þetta einn. Þessi starfssemi er unnin af fólki. Maður verður að gefa sér gríðarlega mikinn tíma til að vinna með fólkinu og virkja það, sjá til þess að fólkið geri það sem þarf að gera og fá það besta út úr öllum. Starfið er í raun ekki alveg nýtt fyrir mér þótt ég hafi tekið við þessu formlega fyrir mánuði síðan.“

Hvað kemur þér mest á óvart? „Hvað mikinn tíma maður þarf að gefa sér með starfsmönnunum. Ég næ mínum besta árangri þegar ég er í raun bara að tala við fólkið mitt og hlusta á vandamál og hjálpa við að leysa úr þeim. Ég þarf að passa upp á að þegar við göngum út af fundi eða samtali séu allir sáttir og með skýra sýn á það hvert skal stefna. Þá næst mesti árangurinn. Þetta er aðeins öðruvísi starf en ég bjóst við. Ég hélt að það snérist mest um tölur, sem eru náttúrulega stór og mikilvægur hluti en þetta snýst mest um fólk.“

Erfið reynsla af grunnskóla en blómstraði í framhaldsskóla

Ingólfur ólst upp í Breiðholti og segist vera stoltur Breiðhyltingur. Faðir hans er vörubílstjóri og móðir hans vinnur í mötuneyti. Hver var leið þín í gegnum menntakerfið? „Hún var ekki góð, reyndar bara mjög slæm. Ég var  afar slakur námsmaður og átti mjög erfitt með lærdóm, alla vega framan af. Ég átti erfitt með að læra, örugglega lesblindur, sem ég hef bara lært að vinna með – ég fann ekki fyrir neinum áhuga þótt ég hafi mætt í alla tíma. Svo féll ég á samræmdu prófunum. Eini skólinn sem gat tekið við mér var Borgarholtsskóli sem hleypti mér inn í vélvirkjun, þótt ég hefði svona lélega útkomu úr samræmdu prófunum. Þá gerðust hlutirnir. Ég breytti um umhverfi og þá fór þetta einhvern veginn að snúast. Ég hafði allt í einu áhuga á náminu sem ég var að fást við.“

Fannst þér þá gott að vinna með höndunum? „Já, ég hef alltaf verið ágætur þar. Þetta fór allt að ganga vel og ég útskrifaðist frá Borgarholtsskóla með frábærar einkunnir. Þaðan lá leiðin á frumgreinasvið hjá Háskólanum í Reykjavík. Allt í einu gat ég bara lært. Það var mögnuð tilfinning. Ég áttaði mig ekki á því hvað þetta var magnað fyrr en eftir á. Þegar ég heyri í dag sögur af fólki sem telur sig ekki geta lært, þá finnst mér líklegt að skortur sé á áhuga. Það er eitthvað sem veldur því að þú hafir ekki beinan áhuga á því að læra. Grunnskólagangan mín var skelfileg og skólayfirvöld dæmdu mig. Mamma fór til dæmis á fund með skólasálfræðingi þar sem ég var bara afskrifaður og henni sagt beint að líklegast yrði ekkert úr þessum dreng.“

Merkilegt! Það getur verið hvatning fyrir marga að heyra um einhvern sem er kominn á þennan stað sem þú ert kominn á í dag. „Já, eflaust. Mamma og pabbi  eru ekki menntafólk. Ég fékk ekki stuðning, þannig séð, í menntamálunum. En ég fékk annars konar stuðning og ekki síður mikilvægan, til dæmis aga og vinnusemi.“ Hvernig leið þér á þessum tíma? „Ég tók þessu einhvern veginn sem gríni, eða lét það líta þannig út, en ég fann samt alveg að það var ekkert gaman að fá prófin alveg útfyllt af rauðum pennastrikum og kroti og vera alltaf neðstur í öllu í grunnskóla. Það var erfitt.“

Svo finnurðu þína fjöl? „Já. Ég var eini úr grunnskólanum mínum sem fór í Borgarholtsskóla og var því algerlega einn á nýjum stað. En þá eignaðist ég nýja félaga og fór að blómstra í námi. Það var svolítið spes hópur sem var þarna, kannski ekki mestu töffararnir. Kennararnir voru rosalega góðir og mér fannst frábært að geta til dæmis eytt heilum degi á rennibekknum.“

Hvaða námi laukstu? „Ég lauk vélvirkjun frá Borgó og kláraði frumgreinasviðið í HR sem var mjög gott nám, brú frá iðnmenntun yfir í háskólanám, svona hraðferð í stað stúdentsprófsins. Ég tók svo stúdentsprófið með hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti áður en ég fór í véla- og orkutæknifræði í HR og útskrifaðist þaðan í janúar 2011.“

Leiðin frá HR til Fjarðaáls

Hvenær lágu leiðir þínar og Fjarðaáls saman? „Ég kom hingað í maí 2010, þá voru auglýst sumarstörf fyrir háskólanema. Ég og konan mín, Ingibjörg Karlsdóttir, komum hingað og fengum bæði starf, ég í tækniteymi kerskálans og hún fór í skautsmiðjuna nýbúin að ljúka við BS-gráðu í rekstrarverkfræði.“

Hvar kynntust þið? „Við kynntumst í HR þar sem við byrjuðum bæði árið 2007. Hún er úr Grafarvogi. Ég átti eftir að klára lokaverkefnið þegar við komum í sumarstarf hingað en hún var búin. Tæknifræðin er hálfu ári lengri en rekstrarverkfræðin. Okkur leið strax vel hérna. Þetta var erfitt í fyrstu en spennandi. Árið 2010 vildi enginn fá nýútskrifaða tækni- eða verkfræðinga í vinnu,  það var allt frosið á Íslandi. Nema Fjarðaál, það var eini staðurinn sem óskaði eftir fólki. Mér fannst frábært að vinna í kerskálanum og var boðið verkefni sem ég gat nýtt sem lokaverkefnið mitt og svo bara áframhaldandi starf. Ég vann lokaverkefnið með vinnu í samstarfi við Fjarðaál, fékk fulla einkunn fyrir það verkefni og viðurkenningu frá Tæknifræðingafélaginu fyrir gott verkefni. Verkefnið hefur skilað Fjarðaáli töluvert miklu.“

Um hvað snýst verkefnið? „Í stuttu og einfölduðu máli snýst það um greiningu á vandamálum í  svokölluðum brjótum í kerunum. Ég gerði mikið af tilraunum og reyndi að finna út af hverju brjótarnir væru að bila svona mikið og svo finna lausnir á því. Ég vann með góðu fólki hér innanhúss að verkefninu. Stærsti ávinningur var tengdur því að gera við bilaðan bjót í kerinu í stað þess að taka hann úr og fara með hann á verkstæði. Áður fyrr var öllu skipt út. Þetta sparaði gríðarlega peninga og tíma, og er ennþá gert í dag.“

Þegar þú útskrifaðist varstu kominn með starf í álverinu? „Já, ég gekk að starfinu eftir útskrift. Mér fannst starfið í kerskálanum strax hrikalega skemmtilegt. Ég viðurkenni samt að það voru viðbrigði að flytja frá Reykjavík til Reyðarfjarðar. Ég á að vísu ættingja á Fáskrúðsfirði, amma býr þar og pabbi er þaðan, þannig að ég á smá fjölskyldu hérna. Flestir ættingjarnir eru þó fyrir sunnan. Það sem kannski hjálpaði er að það var svo lélegt ástand í Reykjavík fyrir nýútskrifaða tæknifræðinga. Við vorum ellefu í bekknum mínum og þegar mest var voru sex úr bekknum að vinna fyrir Fjarðaál á einhvern hátt. Þannig að það myndaðist ákveðin stemming. Nú eru við eftir þrír hérna: ég hjá Fjarðaáli og tveir að vinna fyrir Launafl. Þessi stemming hjálpaði okkur að festast fyrstu árin. Við Ingibjörg vorum bara í leiguhúsnæði og ætluðum í fyrstu ekki að vera hérna í langan tíma.“

Sádi-Arabíu-ævintýrið 2012-2014

Hvernig kom það til að þú fórst til Sádi-Arabíu að vinna fyrir Alcoa? „Það var einhver ævintýraþrá – sumarið 2012 þá fór þetta Maa’den verkefni í Sádi-Arabíu í gang. Ég vissi af Helga Einarssyni sem var að fara út þarna um vorið og ég asnaðist til þess að segja honum að ef þá vantaði menn, þá væri ég alveg til! Ég var búinn að vera með Sádunum sem komu hingað til Fjarðaáls í þjálfun og fannst spennandi að taka þátt í að byggja upp álver alveg frá grunni. Svo fékk ég símhringingu í sumarfríinu mínu 2012 frá Helga og hann spurði hvort ég væri til í að koma. Ég skoraðist ekki undan því og var mættur þarna út í nóvember, bara einn. Ég tók þátt í að ræsa þetta risastóra álver, fékk frábært tækifæri, 26 ára gamall. Mörg þúsund manns unnu á svæðinu, fæstir frá Evrópu. Þeir sem unnu í kringum mig voru t.a.m. frá 26 löndum, flestir frá Asíu og Afríku. Ég var með fjórtán manna teymi sem sá um að undirbúa kerin fyrir ræsingu og taka síðan við þeim eftir ræsingu. Við ræstum fjögur ker á dag, alla daga vikunnar. Allt var á vöktum, þetta var risa batterí, og ég var með eina vakt. Samtals hef ég tekið þátt í að ræsa um 1.000 ker en því miður þurftum við að ræsa kerlínu 1 tvisvar sinnum.“

„Þegar við vorum að klára að ræsa kerlínu 1 á ný, fékk ég annað tækifæri. Samningurinn minn var að renna út en ég fékk framlengingu og var boðið að taka við yfirmannsstarfi fyrir línu eitt. Í því fólst að ég var með eina vakt sem sá algerlega um reksturinn á henni. Þetta var risastórt. Ég rak þetta í um það bil hálft ár og þjálfaði Sáda sem tók við.“

Þú ert þá búinn að byggja upp gífurlega þekkingu og reynslu af kerrekstri? „Já, ég sá um alls konar þjálfun og komst vel inn í þetta. Ingibjörg kom þarna út líka og var hjá mér sex síðustu mánuðina.“ Hvernig fannst þér að vera einn svona lengi í Sádi-Arabíu? „Það var dálítið skrýtið sko. Ég er mikil flökkukind þannig að ég fílaði þetta alveg. Mér fannst vinnan vera frábær og vann með frábærum mönnum sem enn eru vinir mínir í dag en landið er erfitt. Álverið er staðsett í miðri eyðimörk og næsti smábær í 1klst akstursfjarlægð. En einhvern veginn var maður bara svo upptekinn af vinnunni að ég var ekki mikið að hugsa um umhverfið sem ég var í.“

En varstu eitthvað að skoða þig um eða heimsækja einhverja staði? „Já, ég er búinn að ferðast um öll Persaflóa-ríkin. Það var áhugavert að skoða þessi opnari ríki. Maður ferðast ekki mikið um Sádi-Arabíu.“ Lentirðu í einhverjum uppákomum? „Já! Ég festist til dæmis á landamærunum milli Kúveit og Sádi um miðja nótt. Við félagarnir fórum í smáferð til Kúveit. Svo þegar við komum til baka þekktu þeir ekki íslenska vegabréfið og héldu að það væri einhver tilbúningur. Ég lenti í röð með ýmsum flóttamönnum og fólki sem hafði engin skilríki og ég var þar dálítið lengi þar til en ég  var loksins tekinn eitthvað til hliðar og svo var þetta ekkert mál. En þetta var óþægileg tilfinning.“

„Svo var annað atvik á Ramadan-hátíðinni en þá hafði rekstrarplaninu verið breytt því Sádarnir máttu ekki drekka neitt eða njóta matar á daginn. Þetta var um mitt sumar, þannig að hitinn var svona um 50 gráður. Það var í raun ekki hægt að bjóða starfsmönnum í kerskála að vera á heilli dagvakt, svo þeim var skipt. Þeir þurftu þá að mæta í vinnuna um miðja nótt og vera eitthvað fram á daginn. Þá þurfti ég að ferðast um miðja nótt í vinnuna frá borginni sem við Ingibjörg bjuggum þá í en hún var í um það bil tveggja tíma akstursfjarlægð frá álverinu. Á leiðinni til vinnu var ég tekinn af herlögreglunni um miðja nótt. Þeir náttúrulega skildu ekki orð í ensku og ég var einn þarna í miðri eyðimörkinni með vopnaða menn allt í kringum mig og á endanum þá var ég búinn að afhenda öll hugsanleg skilríki sem ég gat mögulega látið varðstjórann hafa en hann var mjög reiður yfir þessu skilningsleysi mínu. Ég lét hann á endanum hafa íslenska ökuskírteinið mitt og hann spurði hvort það væri frá Bandaríkjunum. Ég sagði „Evrópu” og þá sagði hann „ókei“ og hleypti mér áfram.“

Hvernig upplifði konan þín að vera þarna? „Þetta var svolítið skrýtið. Hún var mikið ein, ég kom bara heim í vaktarfríum. Hún fílaði þetta samt í botn til að byrja með, bjó í góðu hverfi, fínt frí og geggjað veður. Hún kynntist öðrum konum og hverfinu og þær dunduðu sér við að versla og hafa það gott. En eftir sex mánuði, þá var hún alveg búin að fá nóg get ég sagt þér!“

Leiðin liggur alltaf aftur heim

En hvað kom til að þú fórst á endanum heim? „Haustið 2014 fékk ég allt í einu símtal frá Janne Sigurðsson, um miðja nótt hjá mér, og hún spurði mig hvort ég vildi koma aftur heim. Þá var ákkúrat komið að þeim tímapunkti! Það voru búin að vera ákveðnar áskoranir í skautsmiðjunni á þessum tíma og ég var beðnin um að koma og sjá um tæknimál þar. Við þessa endurkomu til Reyðarfjarðar fórum við fyrir alvöru að festa rætur hér fyrir austan. Okkur fannst kominn tími á festu eftir tveggja ára flakk. Við keyptum okkur hús hér á Reyðarfirði og gerðum það upp. Ég rak tæknideildina í skautsmiðjunni í rétt rúm tvö ár með góðum árangri og ég er ánægður með starf mitt þar.“

Kerskálinn togaði þó alltaf í þig? „Já, og svo var árið 2017 leitað að rekstrarstjóra í álframleiðslu. Ég ákvað að sækja um það en í því ferli breytust hlutirnir aðeins og ég endaði á að taka við tæknistjórastöðunni í kerskálanum. Ég var í þeirri stöðu til vorsins 2019 og þetta hefur verið erfitt tímabil, erfiður rekstur. Við náðum frábæru ári árið 2017 en svo höfum við haft miklar áskoranir í rekstrinum síðustu mánuði. Það lítur sem betur fer betur út núna. Í sumar urðu svo miklar mannabreytingar hjá okkur og ég tók tímabundið við framkvæmdastjórastarfinu í kerskálanum og skautsmiðjunni og tók svo endanlega við því starfi fyrir nokkrum vikum.“

Og hvernig líður þér í þessu nýja hlutverki? „Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt. Ég var búinn að gleyma því en Ingibjörg minnti mig á það að ég sagði þegar ég byrjaði að þetta væri draumastaðan mín. Þetta er samt erfitt og krefjandi. Ég vil hjálpa fólki að standa sig vel. Mér finnst þetta rosalega gaman þó svo að um leið sé þetta mikil áskorun. Ég vona að okkur takist að halda rekstrinum góðum og við sjáum fram á stöðugleika í framleiðslu hjá Fjarðaáli næstu árin.“

Jólin framundan

Yfir í allt annað. Nú eru jólin að nálgast: ertu mikið jólabarn? „Ég er það, já, svona innst inni, en ég hef lítinn tíma í það núna.“ Hvernig er fjölskyldustaðan hjá ykkur? „Við eigum tvö börn, Þór, sem er tveggja og hálfs árs og Evu Rún sem er tíu mánaða. Þannig að það er nóg að gera! Ingibjörg er í fæðingarorlofi og það hjálpar mikið núna á meðan ég er að komast inn í nýtt starf. Hún sýnir mér mikinn stuðning. Reyndar vinnur hún líka hjá Fjarðaáli, sem sérfræðingur í viðhalds- og áreiðanleikateyminu.“

Er eitthvað sérstakt sem þið fjölskyldan gerið alltaf um jólin? „Nei, við höfum ekki verið með neinar sérstakar hefðir. Það breytist kannski núna með börnunum. Við ætlum að vera með okkar jól núna hérna fyrir austan. Við höldum í þessar týpísku íslensku matarhefðir en  helsta hefðin okkar er kannski sú að vera í náttfötunum allan daginn á jóladag og hreyfa sig sem minnst og horfa á jólamyndir. Ég veit ekki hvernig það tekst með börnin ...“ Er einhver jólamynd í miklu uppáhaldi? „Já, Christmas Vacation!“

Á þessum hressu nótum þökkum við Ingólfi Tómasi fyrir spjallið og óskum honum velfarnaðar í því annasama starfi sem framundan er hjá honum og hans fólki í kerskálanum og skautsmiðjunni.

Ingólfur_a_fundi
Ingólfur (fyrir miðju) ásamt samstarfsmönnum.