16. ágúst 2019

Útskriftarverkefni í Stóriðjuskóla Fjarðaáls: Rofar í stað lykla í lyfturum

Alcoa Fjarðaál býður starfsmönnum sem uppfylla vissar kröfur að stunda nám við Stóriðjuskóla Fjarðaáls en námið skiptist í grunnnám og framhaldsnám. Samtals hafa 125 starfsmenn lokið grunnnámi síðan skólinn tók til starfa haustið 2011. Við útskriftarathöfnina í maí sl. kynntu útskriftarnemar verkefni sín sem eru hvert öðru áhugaverðara. Stjórnendur Fjarðaáls telja að öll verkefnin séu þess eðlis að hægt sé að vinna með þau áfram og nú hefur fyrirtækið þegar innleitt hugmynd sem tveir nemendur kynntu til sögunnar í verkefni sem kallast „Rofar í stað lykla.“

Vandamálið: lyklar brotnuðu og framleiðsla tafðist

Höfundar verkefnisins eru Lilja Sigurðardóttir og Elís Pétursson. Lilja hóf störf hjá Fjarðaáli í mars árið 2007 og hefur starfað í UHÖ-teymi en lengst af í steypuskála þar sem hún vinnur nú við víravél. Elís hefur unnið í steypuskála Fjarðaáls frá árinu 2009 og gegnt þar ýmsum störfum. Vegna vinnu sinnar og þekkingar á starfsumhverfi álversins vissu Elís og Lilja af viðvarandi vandamáli varðandi lyftara í álverinu.

Vandamálið var að oft kom fyrir að lyklar brotnuðu í kveikjulási lyftara og jafnvel annarra farartækja. Ef lykill brotnar í lásnum er ekki hægt að ræsa viðkomandi farartæki og að sjálfsögðu ekki hægt að aka því á aðalverkstæði til viðgerðar. Því þurftu starfsmenn í viðhaldi að sækja farartækið og í það fór töluverður tími ásamt því að skipta um kveikjulás. Ekki bætti úr skák ef farartækið var þannig staðsett að það stöðvaði framleiðsluferlið. Einnig áttu lyklar það til að týnast og þá þurfti nýjan kveikjulás. Að meðaltali þurfti að skipta um tvo kveikjulása á mánuði, með tilheyrandi vinnu, framleiðslutapi og kostnaði.

Lausnin: rofar í stað lykla

Miðað við þann kostnað sem felst í að skipta um tvo kveikjulása á mánuði, myndi það taka þrjú ár að jafna út kostnaðinn vegna skiptanna í 30 farartækjum. Þá er eingöngu tekið tillit til beins kostnaðar við varahluti og vinnu, en ekki til tímasparnaðar, framleiðslutafa og annars sem lýtur að starfsemi fyrirtækisins.

Eins og áður sagði hefur Fjarðaál nú nýtt þessa hugmynd Elíss og Lilju. Högni Páll Harðarson, rekstrarstjóri viðhalds segir: „Hugmynd þeirra varð til þess að koma málinu af stað. Við fengum til prufu búnað sem er ætlaður til þessara nota frá Linde sem er framleiðandi lyftaranna. Það kemur vel út og búnaðurinn verður settur í alla H50 lyftarana, sem er minni gerðin af lyfturum. Við eigum síðan á leiðinni sambærilegan búnað í stærri lyftarana, H80, sem ég er nokkuð öruggur um að við getum innleitt líka ef hann stenst prófanir.“

 

X1C1A7587AB

Útskriftarhópurinn í maí 2019:

Standandi frá vinstri: Jón Baldvinsson, Birgir Guðmundsson, Elís PéturssonAsarawut Treechinapong, Guðmundur Hinrik Gústavsson, Ársæll Örn Heiðberg, Sigurður M. Kristjánsson, Kristján Sigtryggsson, Roman Svec, Betúel Ingólfsson, Roman Rymon – Lipinski, Baldur Reginn Jóhannsson, Matthías Tim Sigurðarson Rühl, Hafrún Sól Valsdóttir, Fjóla Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Georg Kemp Helgason.

Sitjandi frá vinstri: Lilja Sigurðardóttir, Jenný Heimisdóttir, Hrafnhildur Eiríksdóttir, Ester Tómasdóttir, Marcin Lukasz Pabisiak, Stefán Arason.