21. ágúst 2019

Framkvæmdir hafnar við byggingu rannsókna- og þróunarmiðstöðvar ELYSIS í Saguenay í Kanada

ELYSIS tilkynnti í síðustu viku að byggingaframkvæmdir vegna rannsókna- og þróunarmiðstöðvar fyrirtækisins í Saguenay í Québec í Kanada séu hafnar. Þar munu sérfræðingar vinna að rannsóknum á tímamótatækni sem mun væntanlega útrýma allri beinni losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu.

Fulltrúar stjórnvalda í Québec og Kanada ásamt forsvarsmönnum ELYSIS, Alcoa og Rio Tinto voru viðstaddir formlega athöfn á staðnum þar sem byggingin verður reist. Reiknað er með að framkvæmdinni, sem áætlað er að kosti um 50 milljónir Kanadadollara (um 4,7 milljarða króna), muni ljúka síðla árs 2020. Um 25 sérfræðingar munu starfa við rannsóknir í miðstöðinni.  

Samstarf tveggja leiðandi fyrirtækja í áliðnaði á heimsvísu, Rio Tinto og Alcoa, um stofnun ELYSIS er einstakt í sinni röð og mun að öllum líkindum leiða til nýrrar og byltingakenndrar aðferðar við framleiðslu áls. Þetta framleiðsluferli, sem unnið er í samstarfi við Apple, mun útrýma allri beinni losun gróðurhúsalofttegunda frá hinu hefðbundna ferli og losa þess í stað hreint súrefni. Þannig getur ELYSIS-tæknin mögulega dregið umtalsvert úr umhverfisfótspori áliðnaðarins.

ELYSIS mun starfa áfram í náinni samvinnu við hönnunarteymi Rio Tinto í Frakklandi og tæknisetur Alcoa (ATC) skammt frá Pittsburgh í Bandaríkjunum en þaðan á þessi tækninýjung rætur sínar að rekja. Alcoa hefur frá árinu 2009 brætt ál í rannsóknarskyni í ATC með framleiðsluaðferð sem hefur engan kolefnisútblástur í för með sér.

Tæknisetur Alcoa styður við ELYSIS með því að útvega efnin sem notuð eru til að framleiða réttindavarin efni í nýju forskautin og bakskautin sem ELYSIS™ aðferðin byggist á. Á hinn bóginn vinnur tækniteymi Rio Tinto í Frakklandi að hönnun markaðsvæns búnaðar fyrir ELYSIS™ tæknina þannig að hægt sé að innleiða hana í álver sem þegar eru í rekstri eða í ný álver.

Tæknin í stuttu máli 

  • ELYSIS™ tæknin er í takt við þá viðleitni að framleiða vörur með minna kolefnisfótspor, allt frá farsímum til bíla, flugvéla og byggingarefnis.
  • Nýja framleiðsluferlið mun draga úr kostnaði við rekstur álvera og jafnframt auka framleiðslugetu þeirra. Hana er hægt að innleiða í nýjum álverum og einnig þeim sem þegar eru fyrir hendi.
  • Ef eingöngu er litið til Kanada getur ELYSIS™ tæknin dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 7 milljónir tonna, sem samsvarar því að fjarlægja 1,8 milljón bíla af vegum landsins.
  • ELYSIS hefur einkaleyfi til þess að selja efnin sem notuð eru í hin nýju, byltingarkenndu forskaut og bakskaut, en þau munu endast 30 sinnum lengur en hin hefðbundnu.

 

Elysis-groundbreaking
Frá athöfninni í síðustu viku (mynd: Elysis)