12. júlí 2019

Alcoa fagnar ákvörðun Unesco um að setja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá

Þann 5. júlí var sú ákvörðun tekin á heims­minjaráðstefnu Unesco í Bakú í Aser­baíd­sj­an að setja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá. Alcoa fagnar þessari niðurstöðu enda hefur fyrirtækið lengi borið hagsmuni þjóðgarðsins fyrir brjósti.

 

Viljayfirlýsing 2002

Árið 2002, þegar Alcoa var að stíga sín fyrstu skref á Íslandi var undirrituð viljayfirlýsing um undirbúning þjóðgarðs á milli Alcoa, Landsvirkjunar og stjórnvalda. Af því tilefni gaf Alcoa út yfirlýsingu: „Það er Alcoa mikil ánægja að íslensk stjórnvöld hafi falið nefnd að kanna hvernig best verður staðið að verndun hálendisins á Austurlandi, á sama tíma og framkvæmdir eru hafnar á svæðinu. Við hjá Alcoa viljum starfa með ríkisstjórninni, bæjarfélögum og umhverfisverndarsamtökum svo hægt sé að tryggja að ókomnar kynslóðir fái notið óbyggða Íslands um aldur og ævi.“

 

Styrkur til undirbúnings Vatnajökulsþjóðgarðs

Í maímánuði árið 2006, þegar undirbúningur þjóðgarðsins var kominn lengra, veitti Alcoa styrk sem þáverandi umhverfisráðherra tók við. Við afhendingu styrksins sagði Bernt Reitan m.a.: „Alcoa hefur fylgst með undirbúningi umhverfisráðherra að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim metnaðarfullu hugmyndum um þjóðgarð sem liggja þar að baki. Alcoa lýsti því yfir á sínum tíma að fyrirtækið myndi styðja við stofnun þjóðgarðsins og þó formleg stofnun hans hafi ekki farið fram viljum við sýna hug okkar í verki og veita þennan stuðning til uppbyggingar á svæðum sem verða munu innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Heimurinn þarf á því að halda að varðveitt séu til framtíðar sérstök svæði  ósnortinnar náttúru í almannaþágu. Þannig tökum við afgerandi skref í átt til sjálfbærrar framtíðar.” Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008 en hann er á meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu.

 

640 milljónir til Vina Vatnajökuls sl. áratug

Samtökin Vinir Vatnajökuls voru stofnuð 2009.  Þá hafði undirbúningur staðið um nokkurt skeið en vegna efnahagshrunsins í október 2008 seinkaði formlegri stofnun samtakanna. Þrátt fyrir heimskreppuna og hrun álverðs á heimsmarkaði ákvað Alcoa á Íslandi að standa við gefin fyrirheit um stuðning við Vatnajökulsþjóðgarð og veitti 89 milljón króna stofnstyrk til samtakanna.

Ástæða þess að Alcoa ákvað að veita Vinum Vatnajökuls styrkinn, en ekki Vatnajökulsþjóðgarði, er sú að það er stefna fyrirtækisins að styrkja fyrst og fremst frjáls félagasamtök og/eða sjálfseignarstofnanir. „Það er okkur mikil heiður og ánægja að geta staðið við gefin loforð á erfiðum tímum,“ sagði Tómas Már Sigurðsson, þáverandi forstjóri Alcoa á Íslandi, af þessu tilefni. „Við munum gera okkar besta til að tryggja þjóðgarðinum stuðning á næstu árum, enda mikilvægt að kenna bæði Íslendingum og útlendingum að meta þessa þjóðargersemi sem Vatnajökulsþjóðgarður er.“

Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem styrkja rannsóknir, kynningu og fræðslu sem stuðlar að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs. Frá stofnun samtakanna hefur Alcoa Fjarðaál greitt um 640 milljónir króna í styrki til þeirra.

 

Umfangsmikill stuðningur við Vatnajökulsþjóðgarð

Í byrjun júlí var haldið upp á tíu ára afmæli Vina Vatnajökuls nýlega með opnun ljósmyndasýningar og fræðslustígs við Jökulsárlón. Þá flutti Theodór Blöndal, formaður samtakanna, ávarp og sagði m.a.: „Alcoa á Íslandi hefur verið stærsti bakhjarl Vinanna frá stofnun samtakanna og árið 2010 bauð fyrirtækið framkvæmdastjóra þjóðgarðsins og Vina Vatnajökuls til Bandaríkjanna, til að heimsækja þjóðgarða og kynna sér rekstrarmódel þeirra. Það var síðan American-Scandinavian Foundation með fjárstyrk frá Alcoa Foundation sem bauð 15 starfsmönnum þjóðgarða og verndaðra svæða á Íslandi til Bandaríkjanna til tveggja vikna fræðsluferðar þeim að kostnaðarlausu.“

Þess má geta að samtökin Vinir Vatnajökuls greiddu þriðjung af kostnaði þjóðgarðsins vegna umsóknar um heimsminjaskrána. Alcoa er stolt af þeim stuðningi sem fyrirtækið hefur veitt þjóðgarðinum allt frá árinu 2002 þegar fyrstu hugmyndir um verndun friðlandsins urðu til.

 

Myndir frá 10 ára afmæli Vina Vatnajökuls fyrr í júlí:



Vinir_Dagmar_2d
Umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, klippir á borða til að opna formlega ljósmyndasýninguna. Theodór Blöndal heldur í hinn endann.

 

Vinir_Dagmar_2d
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Fjarðaáli (t.v.) og Kristbjörg Stella Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Vina Vatnajökuls. 


Vinir_Dagmar_2d

Theodór Blöndal, formaður Vina Vatnajökuls, ávarpar gesti.

Vinir_Dagmar_2d

Umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, flutti ávarp.