05. apríl 2019

Lokaverkefni þriggja nemenda í framhaldsnámi í Stóriðjuskóla Fjarðaáls hefur tekið á sig mynd

Meðal útskriftarnema úr framhaldsnámi í Stóriðjuskólanum í desember 2017 voru þeir Tryggvi Þór Sigfússon, rafvirki í steypuskála, Pétur J.B. Sigurðsson vélvirki í skautsmiðju og Jónas Pétur Bjarnason vélvirki á kranaverkstæði. Þeir félagarnir unnu að sameiginlegu lokaverkefni sem snerist um hugmynd sem nú er orðin að veruleika.

Hugmynd þremenninganna flokkast undir umbótaverkefni en vandamálið var geymsla tjakka sem lágu á gólfi í vöruhúsi og söfnuðu óhreinindum og það var vandamál að finna rétta tjakkinn og undirbúa fyrir flutning þegar þess þurfti. Félagarnir teiknuðu tillögur að staflanlegum tjakkarekkum þar sem hægt væri að koma fyrir tjökkum á skipulegan hátt til að auðvelda aðgang að þeim, gera umhverfið snyrtilegra og auðvelda flutning á þeim,

Eftir útskriftina fékk viðhaldsteymi kerskála smíðuð nokkur eintök til prufu fyrir þá tjakka sem fara um þeirra hendur og eru sendir frá þeim. Þegar prufurekkarnir voru komnir í notkun voru starfsmenn og verktakar ekki lengi að sjá kostina við þessa ágætu hönnun. Ákveðið var að láta smíða 30 rekka eftir teikningum félaganna. Brammer var falið að leita tilboða í smíðina. Svo fór að VHE átti besta boðið og nú hefur fyrirtækið afhent 25 af þeim 30 rekkum sem samið var um. Rekkarnir eru bæði notaðir til geymslu á tjökkum og flutnings á þeim frá vöruhúsi að notkunarstað. Einnig eru tjakkar nú fluttir í rekkunum til viðgerðar á verkstæðum VHE og Launafls.

Eins og myndirnar sýna hefur orðið gjörbreyting á umhverfinu í vöruhúsinu þar sem tjakkarnir eru geymdir.

 

Tjakkar1

Tjakkar2