06. mars 2019

Vínfræðingur hlaut styrk frá Alcoa Fjarðaáli á nýsveinahátíð IMFR

Glæsileg nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur var haldin laugardaginn 9. febrúar sl. í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Á hátíðinni voru 22 iðnnemar úr 14 iðngreinum frá sjö skólum heiðraðir, ýmist með bronsi eða silfri auk þess sem meistarar þeirra fengu viðurkenningu. Þá fengu 14 nemar styrk til framhaldsnáms frá ýmsum styrktaraðilum.

Alcoa Fjarðaál hefur á undanförnum árum veitt einum nýnema styrk að upphæð kr. 300.000 til framhaldsnáms. Styrkhafinn í ár var Marin G. Guðmundsdóttir Jacobsen sem lauk sveinsprófi í framleiðsluiðn frá Menntaskólanum í Kópavogi í desember sl. Þess má geta að hún fékk verðlaun við útskriftina frá MK fyrir framúrskarandi árangur í vínfræði.

„Já, ég hef mikinn áhuga á vínfræði,“ segir Marin. Með skólanum tók hún einnig Level 2 Award in Wine and Spirits í fjarnámi hjá skólanum WSET (Wine and Spirits Education Trust) í London. Hún fór til London til þess að taka prófið og fékk einkunnarflokkinn „Pass with Distinction“ sem er sá hæsti.

Varðandi hvað næst tekur við segir Marin: „Ég er þegar byrjuð í fjarnámi í Level 3 Award in Wine og fer í apríl út til London í vikulangt prógram þar sem verklegi hlutinn er kenndur. Síðasta daginn tek ég svo próf.“

Marin stefnir enn hærra: „Eftir að ég hef lokið þessu námi ætla ég annaðhvort að taka Level 4 Diploma frá WSET eða taka inntökupróf fyrir Certified Sommelier frá Court of Master Sommeliers.“

Alcoa Fjarðaál óskar Marin alls hins besta í framtíðinni.

 

Wimfr-nysveinar_090219_jsx2660

T.f.v.: Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Marin G. Guðmundsdóttir Jacobsen, nýsveinn og Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Fjarðaáli, en hann veitti Marin styrkinn.