08. mars 2019

Glamúr og elegans á tónleikum á Eskifirði

Laugardagskvöldið 16. febrúar voru haldnir Nýársglamourgalatónleikar í Tónlistarmiðstöð Austurlands. 75 gestir mættu til að skemmta sér, hlusta á góða tónlist og eiga saman ánægjulega kvöldstund. Alcoa Fjarðaál er einn af styrktaraðilum tónleikanna, auk Fjarðabyggðar og Uppbyggingarsjóðs Austurlands.

Tónleikarnir voru unnir í samstarfi við Tónlistarmiðstöð Austurlands. Að viðburðinum stóðu söngvararnir Erla Dóra Vogler og Þorbjörn Rúnarsson, Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari og Unnar Geir Unnarsson, leikstjóri, sem öll eru uppalin á Austurlandi eða hafa búið þar um tíma og eru tengd þangað.

Að sögn Erlu Dóru tókst viðburðurinn mjög vel. „Áhorfendur og áheyrendur skemmtu sér konunglega.  Tónlistarmiðstöðinni hafði verið breytt í rómantískt kaffihús fyrir tónleikana og fólkið kunni vel að meta það. Borðin voru skreytt rósum og lýst með kertum. Boðið var upp á kaffi, konfekt, sódavatn og síder í freyðivínsglösum. Dagskráin var sett fram á léttum nótum, með sposku hjali á milli, en elegans og glamúr höfð í forgrunni, og tónlistin - frægar aríur og dúettar úr óperettum og söngleikjum - flutt af fagmennsku.“

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá tónleikunum.

Glamur_2


Glamur_2


Glamur_2