18. desember 2018

Hreindýrstarfur kominn á Náttúrugripasafnið í Neskaupstað


Vorið 2017 fékk Náttúrustofa Austurlands styrk úr Samfélagssjóði Alcoa til að stoppa upp hreindýrstarf til sýningar á Náttúrugripasafninu í Neskaupstað. Tarfurinn var frumsýndur á upplestrarkvöldi rithöfunda sem haldið var í Safnahúsinu þann 7. desember sl.

„Það er mikill fengur að hafa svo glæsilegt eintak af einu helsta einkennistákni austfirskrar náttúru meðal safngripa,“ segir Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands.

Tarfurinn var veiddur haustið 2017 með sérstöku leyfi umhverfisráðuneytisins. Reimar Ásgeirsson á Egilsstöðum stoppaði hann upp.

Kristín segir: „Tarfurinn hefur ekki fengið nafn, en mögulega fáum við gesti og gangandi á safninu í lið með okkur til að velja á hann nafn með tíð og tíma. Fyrir sumaropnun verður gengið endanlega frá honum í sýninguna í Náttúrugripasafninu og sett upp fræðsluefni tengt tarfinum.“

Að sögn Kristínar standa vonir til að tarfurinn veiti mörgum ánægju og að hann nýtist t.a.m. þeim bekkjum grunnskóla á Austurlandi sem vinna með námsefni um hreindýrin á Íslandi, sem og ferðamönnum sem láta sig dreyma um að sjá hreindýr í Íslandsheimsóknum sínum.

„Náttúrustofa Austurlands þakkar Samfélagssjóði Alcoa fyrir stuðninginn sem gerði okkur kleift að setja upp þessa skemmtilegu viðbót í safnið,“ segir Kristín að lokum.

 

Hreindyr_2

7. desember 2018. Reimar Ásgeirsson uppstoppari kemur með tarfinn á safnið.


Hreindyr_2

Jón Björn Hákonarson formaður Safnanefndar Fjarðabyggðar kynnir tarfinn til leiks á upplestrarkvöldi í Safnahúsinu þann 7. desember 2018.