11. desember 2018

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, hlýtur Ásu Wright verðlaunin


Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, hlaut þann 9. desember sl. heiðurverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright. Alcoa Fjarðaál er annar hollvina sjóðsins en verðlaunafjárhæðin er 3 milljónir króna.

Verðlaunin eru veitt fyrir brautryðjendastarf í rannsóknum í vist- og hagfræði, sjálfbærni, þróun orkukerfa og á sviði loftslagsmála. Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem afhenti Brynhildi verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu í dag. Verðlaun úr sjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.

Rannsóknir Brynhildar hafa verið þverfaglegar í líffræði og hagfræði og tengjast þær umhverfis-, loftslags- og orkumálum auk sjálfbærni. Brynhildur hefur rannsakað samspil umhverfis og lífríkis og áhrif okkar mannanna á hvort tveggja. Hún hefur fléttað saman rannsóknir í visthagfræði og verkfræði og sýnt með líkönum hvaða áhrif hagþróun hefur á umhverfi og auðlindir jarðar.

Brynhildur hefur hlotið styrki til margvíslegra og mikilvægra rannsókna sem tengjast mjög fjölbreyttum áskorunum, m.a. rafvæðingu bílaflotans, endurnýjanlegum orkugjöfum framtíðarinnar, umhverfisáhrifum jarðhitavirkjana, áhrifum veðurfarsbreytinga á fiskistofna Norður-Atlantshafsins og hvernig sjávarútvegur getur stuðlað að vistvænum rekstri og takmarkað losun gróðurhúsalofttegunda. Þá hefur Brynhildur rannsakað hvaða áhrif breytt veðurfar á Norðurlöndum hefur á orkukerfi og landnýtingu.  Hún hefur einnig gert mat á efnahagslegu mikilvægi þjónustu vistkerfa auk mats á vistkerfum jarðvegs og sjálfbærni í landnýtingu. Hér er fátt eitt talið.

Þessi fjölbreyttu verkefni hafa notið stuðnings frá ýmsum aðilum svo sem Rannís, Nordforsk, Evrópusambandinu og fjölmörgum smærri aðilum.

Brynhildur hefur ritstýrt bókum, ritrýnt handrit bóka og greinar fyrir fjölda tímarita auk þess að birta sjálf mikinn fjölda vísindagreina í virtum tímaritum.  Auk rannsóknastarfa hefur Brynhildur gegnt fjölbreyttum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og setið í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera.   

Brynhildur hefur kennt fjölda framhaldsnema við háskóla í rannsóknarnámi og flutt fyrirlestra bæði innan lands og utan um fræði sín og rannsóknir. Hún hefur verið virk í evrópsku samstarfi og alþjóðlegu starfi á sviði rannsókna á loftslagsbreytingum og áhrifum manna á umhverfi sitt.  

Brynhildur Davíðsdóttir er fædd 29. júlí 1968. Hún lauk B.S.-prófi í líffræði og undirbúningsnámi til meistaranáms í hagfræði árin 1990 og 1992. Hún lauk enn fremur tvöföldu meistaranámi í alþjóðasamskiptum og auðlinda- og umhverfisstjórnun frá Boston-háskóla árið 1995 og doktorsprófi í orku- og umhverfisfræðum árið 2002 frá sama skóla. Eiginmaður Brynhildar er Einar Örn Sigurdórsson og eiga þau tvær dætur.

-----

Ása Guðmundsdóttir Wright, stofnandi sjóðsins, fæddist að Laugardælum í Árnessýslu hinn 12. apríl 1892. Hún var dóttir Guðmundar læknis Guðmundssonar og Arndísar Jónsdóttur. Ása lifði viðburðarríkri ævi en hún hélt utan og lagði stund á hjúkrunar- og ljósmóðurnám í Lundúnum. Dvaldi hún hjá Lord Buckmaster sem var stallari konungs og fékk hún því að ganga fyrir konung. Á siglingu heim úr námi kynntist hún enskum lögmanni, dr. Henry Newcomb Wright, sem varð síðar eiginmaður hennar. Ása og Henry settust að á Trínidad í Vestur-Indíum, sem þá var bresk nýlenda. Þar ráku þau hjón plantekru í fögru landsvæði í Arimadal. Ása og Henry voru barnlaus og ráðstafaði Ása jarðeign sinni til félags fuglaskoðara og stofnaði fuglafriðland. Búgarðurinn, Spring Hill, heitir nú Asa Wright Nature Centre.

Andvirði bújarðarinnar í dollurum varði Ása meðal annars til stofnunar sjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga, sem undanfarin 50 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland. Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga, nafn þiggjanda og ártal er grafið í jaðarinn. Þá fylgir í ár þriggja milljóna króna peningagjöf frá hollvinum sjóðsins, Alcoa Fjarðaáli og HB Granda, sem eru ein veglegustu verðlaun sem veitt eru vísindamönnum hér á landi. Þakkar sjóðstjórnin hollvinum sjóðsins kærlega fyrir stuðninginn.

2018_Asa_Wright_Brynhildur_og_Gudni_Th

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhendir Brynhildi verðlaunin.