15. nóvember 2018

FLOW VR sigraði Gulleggið 2018


Viðskiptahugmyndin FLOW VR sigraði Gulleggið 2018, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Jón Atli Benediktsson afhenti verðlaunagripinn Gulleggið við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands á laugardaginn. Alcoa Fjarðaál er einn af helstu bakhjörlum keppninnar.

1. sæti

Í fyrsta sæti voru FLOW VR sem hlutu að launum 1.000.000 kr. frá Landsbankanum. FLOW VR hlaut jafnframt ráðgjafatíma hjá Marel og kostnaðarlausa þátttöku í Aðallínu-Útlínu verkefni Íslandsstofu í aukaverðlaun. 

Flowvr býður uppá áhrifaríka hugleiðslu í alltumlykjandi sýndarveruleika.

2. sæti

Í öðru sæti var Greiði sem hlutu jafnframt að launum 500.000 kr. frá Landsbankanum 

Greiði er app og markaður fyrir öll möguleg verk sem finnast í samfélagi okkar. Þar geta verkkaupar auðveldlega leitað að fjölbreyttri þjónustu, fundið verktaka í málið, borið saman verð og pantað þjónustu á skilvirkan máta. Vantar þig einhvern til að slá grasið þitt? Passa hundinn í fríinu? Laga pípulagnirnar? Frönskukennslu? Aðstoð við að flytja? Greiðinn getur hjálpað þér við þetta og margt annað.

3. sæti

Í þriðja sæti var Eirium sem hlutu að launum 300.000 kr. frá Landsbankanum 

Eirium þróar dreifðan hugbúnað sem eykur gegnsæi, traust og nýtni í því fjármagni sem lagt er til hjálparstarfs, neyðar- og þróunaraðstoðar um allan heim.

Aukaverðlaun

Advel lögmannastofa veitti 10klst endurgjaldslausa lögfræðiráðgjöf hjá sérfræðingum Advel lögmanna. Þau verðlaun fóru til Ekki banka en þau hjálpa neytendum að leita bestu kjara á lána- og tryggingamarkaði. 

KPMG veitti 20klst í ráðgjöf til Álfur brugghús sem bruggar bjór úr kartöfluskræli og afskorningum sem verða til afgangs í framleiðslu kartöfluvara og fara annars til spillis. Úr verður léttur og auðdrekkanlegur bjór úr úrvals íslensku hráefni sem minnkar sóun matvæla.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins veitti 150.000kr ásamt fjármögnunarráðgjöf til Värk. Teymið þróar vöru sem gerir fólki kleift að endurvinna kaffikorg til þess að rækta ostrusveppi heima hjá sér

Um Gulleggið

Icelandic Startups stendur árlega fyrir Gullegginu en keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd. 120 fyrirtæki hafa hafnað í topp 10 sætunum frá upphafi og eru 76% þeirra fyrirtækja sem stofnuð hafa verið í kjölfar þátttöku í Gullegginu enn starfandi í dag. 

Frá árinu 2015 hefur Icelandic Startups staðið fyrir átaki í tengslum við Gulleggið undir yfirskriftinni #EngarHindranir. Átakið hefur skilað sér í jafnara kynjahlutfalli í verkefnum sem Icelandic Startups stendur fyrir, þar á meðal Gullegginu. Í ár eru kynjahlutföllin hnífjöfn en þátttökuhlutfall kvenna hefur vaxið úr 30% í 50% á þeim þremur árum frá því að átakið hófst.

Gulleggid_2018
Ljósmynd tekin af síðu Gulleggsins, gulleggid.is