17. október 2018

Team Spark heldur neistanum logandi með góðum stuðningi


Árið 2011 hófst þátttaka Team Spark liðs Háskóla Íslands í Formula Student keppninni, með rafknúnum kappakstursbíl. Síðan þá hafa orðið miklar framfarir í hönnun og þróun bílsins, en liðið þarf að hanna eða smíða nýjan bíl á hverju ári. Alcoa Fjarðaál hefur verið einn af bakhjörlum liðsins allt frá árinu 2015.

Team Spark er þróunarverkefni við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Teymið samanstendur af 47 nemendum frá ýmsum sviðum háskólans. Markmið verkefnisins er að þróa, hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl frá grunni. Í lok hvers tímabils keppir liðið á alþjóðlegri hönnunar- og kappaksturskeppni erlendis, Formula Student.

Ein af ástæðum þess að Alcoa Fjarðaál styrkir Team Spark er sú að liðið hefur frá upphafi haft umhverfismál að leiðarljósi. Horft er til umhverfisþátta á öllum stigum framleiðslunnar. Að velja rafmagn sem orkugjafa bílsins spilar þar stórt hlutverk.

Lovísa Rut Tjörvadóttir, einn af liðsmönnum Team Spark, segir: „Nú er starf Team Spark komið á fullt fyrir komandi vetur og erum við strax byrjuð í umbótavinnu og hönnun á nýja bílnum okkar, TS19. Bílnum í fyrra sem hlaut nafnið Garún, gekk mjög vel á keppnum, en þetta var í annað skiptið sem bíll Team Spark keyrir í keppni og erum við mjög stolt af því.

Alcoa Fjarðaál hefur á árunum 2015-2018 styrkt Team Spark samtals um 2,4 milljónir króna. „Við viljum þakka ykkur kærlega fyrir þann ómetanlega stuðning sem þið hafið veitt okkur,” segir Lovísa. „Við erum gríðarlega ánægð með samstarfið og viljum endilega halda því áfram. Án frábæru styrktaraðilanna okkar væri liðið ekki á þeim stað sem það er í dag.”

Alcoa Fjarðaál óskar liðinu góðs gengis í næstu keppni og þakkar því samstarfið.

 

Team_Spark

Garún prufukeyrð á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði (af Facebook-síðu liðsins)