15. október 2018
Styrkur til að bæta kennslu í raunvísindatengdum greinum
Þann 8. október afhentu Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls og Michelle O‘Neill framkvæmdastjóri hjá Alcoa Corp. styrk frá Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) til Fljótsdalshéraðs. Styrkurinn, sem nemur 80 þúsundum dollara, er varið í að auka og bæta kennslu í leik- og grunnskólum í sveitarfélaginu á sviðum vísinda, tækni, verk- og stærðfræði (e. STEM). Þau Sæbjört Vala Ægisdóttir og Pétur Örn Ólafsson nemendur í leikskólanum Hádegishöfða í Fellabæ tóku við styrknum ásamt Birni Ingimarssyni bæjarstjóra. Þá voru þær Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri og Guðmunda Vala Jónasardóttir leikskólastjóri einnig viðstaddar.
Verkefnið á Fljótsdalshéraði er byggt á sambærilegu verkefni sem fór af stað í Fjarðabyggð fyrir nokkrum árum og var einnig styrkt af Alcoa Foundation. Markmiðið er að auka áhuga barna og ungmenna á raunvísindagreinum og er það gert með margvíslegum hætti. Meðal þess sem þegar hefur verið gert á Fljótsdalshéraði er að fjárfesta í búnaði til að nýta í verklega kennslu, til dæmis í útikennslustofum sveitarfélagsins og einnig hefur verið keyptur búnaður til að nota í leikskólunum til að auka þekkingu og færni yngstu barnanna í stærðfræði og forritun.
Það verður áhugavert að fylgjast áfram með verkefninu vaxa og dafna og vonandi elur það af sér áhugasama nemendur sem síðar velja nám á sviðum svokallaðra STEM greina en skortur er í samfélaginu á fólki sem menntar sig í iðn- og tæknitengdum greinum.
Þess má geta að Michelle O’Neill fór m.a. á fund með bæjarstjóra Fjarðabyggðar og forseta bæjarstjórnar. Þá hitti hún einnig iðnaðarráðherra í Reykjavík áður en hún hélt af landi brott.
Frá afhendingu styrksins á leikskólanum Hádegishöfða.
Michelle á fundi með forstjóra Fjarðaáls, forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra. T.f.v.: Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls, Michelle O‘Neill framkvæmdastjóri hjá Alcoa Corp., Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.