14. ágúst 2018

Rótarýklúbbar funduðu í álverinu

Rótarýklúbbarnir á Héraði og í Neskaupstað héldu sameiginlegan fund í álverinu í maí. Áður en fundurinn hófst, skoðuðu fundarmenn kerskála og hreinsivirki álversins og ræddu við Magnús Þór Ásmundsson, forstjóra Fjarðaáls.  

Þess má geta að Rótarýklúbbar vinna samkvæmt göfugum sjónarmiðum. Skv. upplýsingum á heimasíðu Rótarý á Íslandi er markmið klúbbanna að efla og örva þjónustuhugsjónina sem grundvöll heiðarlegs starfs og þó einkum að efla og örva:

  • þróun kunningsskapar, svo að hann veiti tækifæri til þjónustu,
  • háleitar siðgæðiskröfur í viðskiptum og starfi, viðurkenningu á gildi allra nytsamra starfa og viðurkenningu þess að sá, sem innir gott starf af hendi í starfsgrein sinni, sé samfélaginu þarfur þegn.
  • viðleitni hvers rótarýfélaga til að breyta samkvæmt þjónustuhugsjóninni í einkalífi sínu, starfi og félagsmálum.
  • alþjóðlegan skilning, velvild og frið með alheims félagsskap manna í öllum starfsgreinum, sem sameinast í þjónustuhugsjóninni.

Alcoa Fjarðaál þakkar Rótarýklúbbunum skemmtilega samveru. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá heimsókninni.

 

Rotary_group

Fundarmenn stilltu sér upp fyrir framan reykháfinn frá hreinsivirkjunum á milli kerskálanna. Lengst til vinstri á myndinni eru feðginin Jeff Clemmensen og Agnes Fönn Clemmensen sem sýndu gestunum álverið.

Rotary_Stefan

Norðfirðingurinn Stefán Þorleifsson er orðinn 102 ára gamall en tekur enn virkan þátt í starfi Rótarýklúbbs Neskaupstaðar. Vilborg dóttir hans er líka í klúbbnum.

Rotary_Jeff

Jeff Clemmensen, umhverfistæknir, sýnir hér félögum sínum í Rótarý nýju riffluðu síupokana (til vinstri) og gömlu sléttu pokana sem þeir leysa af hólmi. Afgasið frá rafgreiningarkerunum í kerskálunum er sogað í gegnum síupoka áður en það fer út í andrúmsloftið. Nýju síupokarnir eru með tvöfalt meira yfirborð en þeir gömlu og auka verulega afköst hreinsivirkjanna. Pokarnir eru sjö metra langir og inni í þeim eru grindur sem halda þeim í skorðum. Hreinsivirkin eru tvö og í hvoru þeirra eru 11.520 síupokar. Búið er að skipta um pokana í öðru hreinsivirkinu og farið verður í pokaskipti í hinu hreinsivirkinu í haust.

Rotary_grindur

Grindur úr gömlu síupokunum mynduðu þennan skemmtilega skúlptúr þar sem þeir biðu þess að fara í endurvinnslu.