05. júlí 2018

Vel fylgst með styrk flúors í grasi yfir sumartímann í Reyðarfirði


Eins og undanfarin sumur, eða frá því álver Fjarðaáls í Reyðarfirði hóf rekstur, hefur Náttúrustofa Austurlands (NA) mælt flúormagn í grasi yfir sumarmánuðina víðsvegar í nágrenni álversins. Alls eru gerðar sex mælingar en að hausti er tekið meðaltal allra sýna og fundið meðaltal sumarsins. Nú hefur NA skilað niðurstöðum mælinga vegna júnímánaðar og því er vert að rifja upp nokkur atriði varðandi flúor og vægi einstakra mælinga yfir sumartímann.

Hvernig verður flúor til?

Við framleiðslu áls þarf að nota svokallaða raflausn í rafgreiningarkerum sem inniheldur meðal annars flúor. Óhjákvæmilega losnar eitthvað af flúornum úr raflausninni í framleiðsluferlinu og þrátt fyrir að megnið af honum sé fangað í hreinsikerfum álversins og endurnýtt í framleiðsluferlinu er alltaf lítill hluti hans sem sleppur út í andrúmsloftið. Öll losun frá álverinu er vöktuð og mikið lagt í að lágmarka hana.

Synataka i Reydarfirdi 150Starfsmaður NA við sýnatöku í Reyðarfirði.

Mælingar Náttúrustofu Austurlands

Starfsfólk Náttúrustofu Austurlands sér um eftirfylgni vöktunaráætlunar fyrir Fjarðaál en sú áætlun var gerð í samstarfi við Umhverfisstofnun. Samkvæmt áætluninni tekur NA sýni sex sinnum yfir sumarið á 34 stöðum í Reyðarfirði, þ.e. tvisvar í mánuði í júní, júlí og ágúst. Sýnin eru ávallt tekin á sama stað og með sömu aðferð svo þau séu samanburðarhæf.

Ýmsir þættir, svo sem veður, geta haft áhrif á mæliniðurstöðurnar og geta þær því verið mjög breytilegar á milli mælinga. Þess vegna eru tekin mörg sýni og svo metið út frá meðaltali þeirra hver styrkurinn hefur verið í gróðri yfir sumarið. Niðurstöður einnar sýnatöku og einstakir sýnatökustaðir segja okkur því afar takmarkaða sögu um hve hár eða lágur styrkurinn er.

Af hverju er mælt?

Til að tryggja sem best heilbrigði grasbíta í Reyðarfirði er fylgst vel með styrk flúors í grasi yfir sumartímann. Meðaltal allra sýnanna segir til um hvort meiri eftirfylgni og rannsókna sé þörf til að tryggja heilbrigði dýranna.

Fari meðaltal sumarsins yfir 40 µg F/g í grasi kallar það á auknar rannsóknir og eftirlit með sauðfé. Mörkin fyrir hross eru mun hærri eða 150 µg F/g í grasi. Mikilvægt er að draga ekki ályktanir um stöðuna fyrr en allar niðurstöður sumarsins liggja fyrir skv. grein Alan Davison sem vísað er til hér fyrir neðan.

Fyrstu sýnatökurnar sumarið 2018

Nú liggja niðurstöður úr tveimur sýnatökum júnímánaðar fyrir og því miður er meðaltal þessara tveggja sýnataka yfir viðmiðunarmörkunum eða 46,1 µg F/g í grasi. Þetta þarf ekki að koma á óvart þar sem veðurfar hefur mikil áhrif á mæliniðurstöður en það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að sumarið var snemma á ferðinni á Austurlandi í ár. Um leið og við fögnum góða veðrinu þá fylgja því einnig áskoranir þegar kemur að flúormælingum í grasi. Í Reyðarfirði hafa verið miklar stillur og hátt hitastig sem orsaka svokölluð hitahvörf í firðinum og það er einn þáttur sem hefur áhrif á mæliniðurstöður.

Hvað þýða þessar niðurstöður?

Á þessum tímapunkti er ekki hægt að draga ályktanir um það hver niðurstaðan verður í lok sumars. Fjarðaál er með lægstu flúorlosun af álverunum innan Alcoasamsteypunnar og eitt þeirra lægstu í heiminum. En þrátt fyrir lága losun eru ytri aðstæður sem valda því að flúor getur mælst yfir viðmiðunarmörkum í gróðri. Rekstur álversins hefur gengið vel í sumar og útblástur hefur verið innan markmiða. Starfsfólk álversins vinnur að stöðugum umbótum á tækjabúnaði og vinnuferlum til að lágmarka útblástur og áhrif á umhverfið. Á þessu ári hefur m.a. verið unnið í stóru fjárfestingarverkefni þar sem síupokum í reykhreinsivirki er skipt út fyrir nýja gerð með meira yfirborð og betri hreinsun. Flúorlosun álversins er langt undir starfsleyfismörkum það sem af er ári. Þá er rétt að geta þess að starfsleyfismörk eiga eingöngu við um losun frá álverinu en mörk fyrir gróður eru viðmiðunarmörk sem sett eru í vöktunaráætlun álversins.

Er ástæða til þess að hafa áhyggjur?

Vert er að minna á að fólki á svæðinu stafar ekki hætta af útblæstri flúors frá álverinu miðað við núverandi ástand enda er hann með því lægsta sem þekkist. Ástæðan fyrir eftirlitinu er að við viljum fylgjast með og meta umhverfisáhrif af starfsemi álversins í firðinum. Einn þáttur í þessari vöktun er að fylgjast með hvort flúor í gróðri hafi áhrif á grasbíta. Hann hefur ekki áhrif á grasbíta nema þeir nærist í langan tíma á grasi og heyi sem er yfir viðmiðunarmörkum en þau mörk miða við ársneyslu. Þess vegna fylgjumst við með innihaldi flúors í grasi og heyi. Heilsársfóður hefur aldrei farið yfir þessi mörk hjá þó svo að eitt sumar, 2012, hafi flúor í grasi farið yfir viðmiðunarmörk vöktunaráætlunar fyrir sauðfé. Vetrarheyið var ekki yfir þessum mörkum svo ljóst er að ærnar neyttu ekki flúors yfir viðmiðunarmörkum allt það ár.

Einn mikilvægasti hluti vöktunaráætlunarinnar er skoðun dýralækna á bæði sauðfé og hrossum í Reyðarfirði. Samkvæmt þessum skoðunum hafa til þessa engar vísbendingar komið fram sem gefa til kynna að flúor í Reyðarfirði hafi haft áhrif á grasbíta. Fjarðaál á enn fremur í góðu sambandi við bændur á svæðinu og það eru í raun þeir sem eru best til þess fallnir að fylgjast með og meta hvort dýrin sýni merki um áhrif eða ekki.

Alan_DavisonDr. Alan Davison, prófessor

Fræðsla um áhrif flúors á menn

Dr. Alan Davison, sem var prófessor við Newcastle háskóla í Englandi, eyddi megninu af starfsævi sinni í að rannsaka áhrif flúors á gróður og dýr og veitti Fjarðáli og Náttúrustofu Austurlands mikilvæga ráðgjöf á meðan hann lifði. Hann lagði áherslu á að tekin væru mörg sýni og áætlað út frá meðaltali þeirra en ekki einblínt á niðurstöður einstakra sýna. Dr. Davison skrifaði einnig bækling fyrir Fjarðaál sem var dreift til Reyðfirðinga árið 2015 og gott er að rifja upp en bæklingurinn er aðgengilegur á heimasíðu Fjarðaáls hér.

Fjarðaál mun áfram sinna vöktun umhverfis í Reyðarfirði skv. vöktunaráætlun og upplýsa um niðurstöðurnar. Niðurstöður hverrar mælingar eru birtar á vef Umhverfisstofnunar.

Fjardaal_smelter_with_wildflowers