07. maí 2018

Hundraðasti neminn útskrifast frá Stóriðjuskóla Fjarðaáls

Þann 4. maí síðastliðinn útskrifuðust 30 starfsmenn frá Stóriðjuskóla Fjarðaáls. Þau skemmtilegu tímamót urðu í sögu skólans að hundraðasti nemandinn fékk skírteinið sitt í hendurnar, en skólinn hóf göngu sína haustið 2011.

Útskriftarathöfnin fór fram í mötuneyti fyrirtækisins, að loknum kynningum á lokaverkefnum nemenda. Öll verkefni höfðu umbætur að leiðarljósi og fjölluðu meðal annars um umbætur á hönnun skautbakka, skuggatöflur og hönnun kerloka svo dæmi séu tekin. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið hvert öðru glæsilegra og borið nemendahópnum frábært vitni.

Að skólanum standa Alcoa Fjarðaál, Austurbrú og Verkmenntaskóli Austurlands og er kennt samkvæmt námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífisns, Nám í stóriðju. Hægt er að fá metið til eininga á framhaldsskólastigi. Verkmenntaskóli Austurlands hefur samþykkt að meta grunnnámið til allt að 18 eininga og framhaldsnámið til allt að 20 eininga. Samtals er því hægt að fá metnar 38 einingar hjá VA ljúki nemendur bæði grunn- og framhaldsnámi, en hvort tveggja er þrjár annir að lengd.

 

X1C1A7447

Útskriftarhópurinn ásamt Kjartani Glúmi Kjartanssyni umsjónarmanni námsins hjá Austurbrú. Efri röð frá vinstri: Ólafur Jón Jónsson, Damian Staniszewski, Bjarki Ingason, Guðrún Ásdís Eysteinsdóttir, Jónas Vilhjálmsson, Dorota Ewa Goralczyk, Baldur Örn Kristmundsson, Sigurður Svavar Svavarsson, Alfreð Hjörtur Samúelsson, Hafsteinn Hafsteinsson, Einar Ben Þorsteinsson, Einar Tómas Björnsson, Gunnar Lárus Karlsson, Ýmir Guðmundsson, Aðalsteinn Ingi Magnússon, Daníel Gíslason, Jón Þór Tryggvason, Bjarni Hjálmþórsson, Kjartan Glúmur Kjartansson, Guðmundur Andri Guttormsson og Ægir Kristinn Sævarsson. Fremri röð frá vinstri: Andrzej Turin, Bergur Óskar Ólafsson, Hlynur Víðisson, Guðbergur Sigurbjörnsson, Aníta Linda Jónsdóttir, Gunnþór Jónsson, Kjartan Freyr Stefánsson og Sigurjón Friðriksson.

 


X1C1A7447

Guðrún Ásdís Eysteinsdóttir fjallar um tækifæri í endurvinnslu og minni sóun. Daníel Gíslason horfir íbygginn, en auk þeirra voru þeir Bjarki Ingason og Hlynur Víðisson í hópnum. Öll eru þau starfsmenn kerskála.

 


X1C1A7447

Jón Þór Tryggvason, starfsmaður í steypuskála, fer yfir það hvernig hægt er að tæma veltikör í ofna með öruggari hætti.

 

X1C1A7447

Ýmir Guðmundsson og Sigurjón Friðriksson, starfsmenn kerskála, voru með afar áhugavert verkefni um breytingu á hönnun á kerlokum og þríhyrningum á kerum í kerskála.



X1C1A7447

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls ræddi meðal annars um mikilvægi skólans í tengslum við helgun og starfsánægju, en hátt hlutfall útskrifaðra nema skólans starfa við fjölbreytt störf í fyrirtækinu.

 

X1C1A7447

Guðbergur Sigurbjörnsson, starfsmaður í steypuskála, hélt erindi fyrir hönd útskriftarnema. Guðbergur fjallaði meðal annars um fjölbreytni í náminu og hafði orð á því hversu kennsla í ABS, Alcoa Business System, hefði verið athyglisverð og fræðandi.


X1C1A7447

Kjartan Freyr Stefánsson, starfsmaður í vatnshreinsivirki, tekur við skírteini sínu úr hendi Sigrúnar Birnu Björnsdóttur, fræðslustjóra Alcoa Fjarðaáls.

 

X1C1A7447

Bjarni Hjálmþórsson, starfsmaður steypuskála tekur í hönd Valgerðar Vilhelmsdóttur, sérfræðings í mannauðsteymi. Þess má geta að dóttir Bjarna sést brosmild í bakgrunninum.

 


X1C1A7447

Einar Tómas Björnsson tekur við blómum kampakátur. Einar Tómas hefur bæði starfað í kerskála og steypuskála.

 

 


X1C1A7447

Dorota Ewa Goralczyk, starfsmaður í kerskála, var ein þriggja kvenna sem útskrifaðist að þessu sinni. Þess má geta að í nýjum grunnhópi er hlutfall kvenna í takti við fjölda kvenna í fyrirtækinu, eða í kringum 25%.