08. mars 2018

Alcoa Fjarðaál styrkti nýtt hjól fyrir þolpróf á endurhæfingardeild FSN


Frá því Alcoa Fjarðaál var stofnað hefur fyrirtækið á ýmsan hátt stutt við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað (FSN), aðallega gegnum Hollvinasamtök FSN. Samtökin eru mjög virk og gefa fyrirtækjum á Austurlandi vísbendingu um ef sárlega vantar einhvern útbúnað á FSN sem ekki hefur fengist opinber fjárveiting til.

Árið 2007 gaf Fjarðaál þolprófsbúnað til FSN í tilefni þess að endurhæfingardeild sjúkrahússins flutti í nýtt húsnæði. Þolprófsbúnaðurinn reyndist mikilvægur til greininga á hjartasjúkdómum og til þess að fylgjast með heilsufari skjólstæðinga stofnunarinnar.  Tíu árum síðar bilaði hjólið við búnaðinn og Hollvinasamtökin leituðu til Fjarðaáls eftir styrk til kaupa á nýju hjóli.

Anna Þóra Árnadóttir, yfirsjúkraþjálfari FSN sagði í umsókninni:.„Það er gífurlega mikilvægt að geta tekið þolpróf hér fyrir austan. Nú þegar hjólið er úr leik er búnaðurinn ónothæfur og ekki mögulegt að taka þolpróf á Austurlandi öllu. Gizur Gottskálsson hjartalæknir kemur reglulega til okkar og framkvæmir nokkur þolpróf með okkur í hvert sinn er hann kemur. Aðrir læknar hjá FSN, til dæmis Björn Magnússon lungnalæknir og Jaroslaw Kaczmarek lyflæknir hafa líka þjálfun til þess að framkvæma þolprófin.“

Alcoa veitti styrk á haustmánuðum 2017 til kaupa á þolprófshjólinu og nú er það komið í notkun hjá FSN.

 

Þrekhjól
Gizur Gottskálksson, hjartalæknir með fyrsta einstaklinginn á nýja þolprófshjólinu.