20. mars 2018

Dansbylting gegn kynbundnu ofbeldi í matsal Alcoa Fjarðaáls


Í hádeginu sl. föstudag, þann 16. mars, glumdi tónlistin í matsal Fjarðaáls og bæði menn og konur dilluðu mjöðmum og stigu dans í takt við tónana. Enda þótt fjörið hafi verið dæmalaust, var tilefnið alvarlegra. Um var að ræða árlegan viðburð á vegum UNWomen í formi dansbyltingar gegn kynbundnu ofbeldi sem var haldinn víða um land á sama tíma. Yfirskrift viðburðarins var „Milljarður rís.“ Fjarðaál lagði söfnun UNWoman lið af þessu tilefni og hvatti alla starfsmenn að gera slíkt hið sama.

Dansað var af krafti um allt land, í Reykjavík, Neskaupstað og Borgarnesi, á Akureyri, Seyðisfirði, Suðurnesjum, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Hvammstanga, og nú einnig í fyrsta skipti í álveri Alcoa Fjarðaáls.

Nánar um viðburðinn

Milljarður rís er dansbylting sem haldin er víða um heim. Með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka. Yfir milljarður karla, kvenna og barna kemur saman til að dansa fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi.

Konur um allan heim þurfa að þola óþolandi ofbeldi. Einn berskjaldaðasti hópur kvenna fyrir ofbeldi í dag eru Róhingjakonur sem flúið hafa Mjanmar til Bangladess til að flýja ofsóknir, hópnauðganir og linnulaust ofbeldi undanfarinna áratuga. Í ljósi þess grimma veruleika sem Róhingjakonur á flótta búa við í Bangladess um þessar mundir hefur UN Women Íslandi efnt til neyðarsöfnunar. Hægt er að senda smsið KONUR í númerið 1900 og leggja þannig söfnuninni lið með 1.900 kr. framlagi.

 

Milljardur_11

T.f.v. Aðalheiður Vilbergsdóttir, Páll Freysteinsson og Hlöðver Hlöðversson í banastuði.


Milljardur_11

Guðný Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála, tók sveifluna


Milljardur_11

Júlíus Brynjarsson sýndi sína bestu takta við góðar undirtektir. Hann stýrir skautsmiðju Fjarðaáls en væri eflaust góður nautabani.


Milljardur_11

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls lét sitt ekki eftir liggja.


Milljardur_11

María Ósk Kristmundsdóttir er með allt á hreinu.


Milljardur_11

Harpa Vilbergsdóttir dansaði af innlifun fyrir gott málefni. Á bak við hana glittir í Dagmar Ýr Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Fjarðaáls.