22. mars 2018

Álklasar Íslands og Kanada taka upp formlegt samstarf


Álklasar Íslands og Kanada hafa gert með sér samning um aukið samstarf milli klasanna. Líkt og hérlendis er stærstur hluti kanadískrar álframleiðslu drifinn áfram af endurnýjanlegri orku og því er mikill samhljómur milli þessara landa varðandi mikilvægi umhverfisvænnar álframleiðslu. Með samningnum er lögð áhersla á að efla samstarf á sviði viðskiptatengsla, rannsókna og fræðslu.

Samningurinn var undirritaður miðvikudaginn 21. mars við hátíðlega athöfn  í Listasafni Reykjavíkur. Guðbjörg Óskarsdóttir framkvæmdarstjóri Álklasans, Normand Bergeron stjórnarformaður AluQuebec klasans og Malika Cherry framkvæmdastjóri Aluminium Valley Society klasans í Saguenay undirrituðu samstarfssamninginn.  Viðstaddir undirritunina voru meðal annara Anne-Tamara Lorre sendiherra Kanada á Íslandi, Ingvi Már Pálsson skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og John Anthony Coleman skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu Quebec í London.

Hér á landi er um þessar mundir kanadísk sendinefnd með fulltrúum frá kanadíska áliðnaðinum, sem heimsækir íslensk álver og iðnfyrirtæki. Er það til marks um vaxandi samstarf milli ríkjanna á sviði áliðnaðar. Nýverið voru fulltrúar REGAL rannsóknarklasans og Laval-háskóla fyrirlesarar á Nýsköpunarmóti Álklasans í Háskólanum í Reykjavík, en að því standa ásamt Álklasanum og HR, Háskóli Íslands, Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samál. Við það tilefni var undirstrikaður vilji til að efla rannsóknarsamstarf á sviði áliðnaðar, en HR og Laval-háskóli standa þegar saman að doktorsverkefni sem nýtur styrks frá Alcoa. Þá sóttu fulltrúar Álklasans og Samáls heim álklasann í Saguenay í fyrravor og fluttu erindi þar á fjölmennri álráðstefnu.

Álklasinn á Íslandi var stofnaður í júní árið 2015 og eru í klasanum hátt í 40 fyrirtæki og stofnanir. Nánar má fræðast um Álklasann á vefnum www.alklasinn.is.

 

KRI_samal_180321_023

Kanadíski og íslenski hópurinn við undirrritun samningsins í Listasafni Reykjavíkur


KRI_samal_180321_023

Undirritun samstarfssamnings, Malaika Cherry framkvæmdarstjóri Aluminum Valley Society, Guðbjörg Óskarsdóttir framkvæmdarstjóri Álklasans, Normand Bergeron, stjórnarformaður AluQuébec.


KRI_samal_180321_023

John A. Coleman, Mailikia Cherry, Guðbjörg Óskarsdóttir, Nomand Bergeron, Anne-Tamara Lorre sendiherra Kanada á Íslandi