21. febrúar 2018

Einstakt tækifæri fyrir 16-18 ára ævintýraþyrsta nemendur að upplifa stórkostlega náttúru í þjóðgarði í Bandaríkjunum


Alcoa Fjarðaál hvetur 16-18 ára unglinga sem eru hrifnir af náttúru og vísindum til að sækja um þátttöku í leiðangri um Yosemite þjóðgarðinn í Kaliforníu eða Shenandoah þjóðgarðinn í Virginíu á vegum NatureBridge-samtakanna í tvær vikur í sumar ásamt öðrum unglingum á sama aldri. Samfélagssjóður Alcoa greiðir allan ferða- og dvalarkostnað. Umsóknarfrestur rennur út þann 5. mars nk.

Árið 2014 hóf Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) samstarf við NatureBridge sem eru samtök sem bjóða upp á staðbundið nám fyrir börn og unglinga í þjóðgörðum í Bandaríkjunum. Samfélagssjóðurinn styrkti í upphafi alls 24 nemendur á aldrinum 16-18 ára frá tólf samfélögum þar sem Alcoa er með starfsstöð til þess að ferðast til Yosemite þjóðgarðsins í Kaliforníu og verja þar tíu dögum í gönguferðir, fræðslu og skemmtun. Síðar var dvölin lengd í tvær vikur og Shenandoah þjóðgarðinum bætt við.

Tveir þjóðgarðar í boði: Yosemite og Shenandoah

Í ár verða 55 nemendur frá samfélögum þar sem Alcoa starfar víðs vegar um heim valdir til þess að taka þátt í leiðangri sem tekur tvær vikur. Hér er um einstakt tækifæri að ræða fyrir ungmenni sem hafa áhuga á umhverfi og náttúru, útivist og ferðalögum. Þetta verður ógleymanlegt ævintýri í hópi jafnaldra undir leiðsögn vísindamanna og reyndra leiðsögumanna. Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) greiðir allan ferða- og dvalarkostnað, frá Austurlandi og heim aftur.

Nemendur geta valið um tvo staði, Shenandoah þjóðgarðinn í Virginíu eða Yosemite-þjóðgarðinn í Kaliforníu, en geta líka sleppt því að tiltaka stað og látið lukkuna ráða. Ferðalagið til Shenandoah stendur frá 16.-29. júlí þannig að umsækjandi verður að geta ferðast á þeim tíma. Þessi stórkostlegi þjóðgarður er skammt frá Washington DC, í fjallahéraði í Virginíu. Auk þess að fara í bakpokaferðalag um dali og fjöll verða merkilegir sögustaðir heimsóttir, þ.á.m. í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington. Ferðalagið til Yosemite-þjóðgarðsins í Kaliforníu stendur frá 5.–18. ágúst. Gist verður skálum í Crane Flat búðunum en þaðan verður farið í bakpokaferðalag um þjóðgarðinn.

Hvað er innifalið?

Styrkirnir frá Samfélagssjóði Alcoa verða veittir annars vegar á grundvelli umsókna frá nemandanum og hins vegar meðmæla með honum. Innifaldar eru ferðir fram og til baka til Íslands, alla leið til þjóðgarðsins, allur þátttökukostnaður í verkefninu (gisting, matur, fræðsla, o.fl.), kostnaður vegna vegabréfs ef það er ekki fyrir hendi og kostnaður vegna vegabréfsáritunar, ef þarf.

Hópur sérvaldra ábyrgðarmanna fer með unglingunum, og m.a. er tiltækt hjúkrunarfólk ef eitthvað kemur upp á, þannig að foreldrar þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim. Þátttakendur verða að búa yfir mjög góðri enskukunnáttu.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á:  https://naturebridge.org/alcoascholars. Þar er m.a. umsóknareyðublað sem hægt er að hlaða niður í PDF og vista, eyðublað fyrir meðmælabréf (t.d. kennara, þjálfara, formanns björgunarsveitar o.s.frv.). Skráningarblað þátttakanda, sem foreldri eða forsjármaður fyllir út, heilsuvottorð og samningur við nemandann er að finna á síðunni. Ef spurningar vakna er ykkur velkomið að hafa samband við Önnu Heiðu, fulltrúa verkefnisins á Íslandi, með tölvupósti, anna.palsdottir-hjá-alcoa.com.

Ellefu íslenskir nemendur á fjórum árum

Fyrsta árið sem boðið var upp á þjóðgarðsheimsóknina var einn íslenskur nemandi valinn, Rebekka Karlsdóttir. Næsta ár, 2015, lentu tveir í lukkupottinum, Atli Berg Kárason og Ásgerður Hlín Þrastardóttir og 2016 voru þeir þrír, Eggert Már Eggertsson, Mikael Arnarsson og Ólafur Tryggvi Þorsteinsson. Í fyrra voru fimm Íslendingar svo heppnir að hljóta ævintýradvölina, Björgvin Ægir Elísson, Daði Þór Jóhannsson, Eysteinn Einarsson,  Kristvin Þór Gautasson og Jóna María Aradóttir.

Fjarðaál hafði samband við einn þeirra, Eysteinn Einarsson, til þess að heyra reynslusögu hans. „Með mér í för til Shenandoah,“ segir hann, „voru Kristvin og Jóna María. Við flugum til Kanada þar sem einn Kanadabúi bættist í hópinn og þaðan til Washington DC. Þar fengum við undirbúningsnámskeið en við þurftum meðal annars að lesa greinar um umhverfisvernd áður en við fórum út. Daginn eftir fórum við til Shenandoah og þar var þátttakendum skipt í tvo hópa, með um sjö manns í hvorum hópi. Við Jóna María lentum saman í hópi og fengum útbúnað til ferðarinnar, bakpoka, svefnpoka, tjöld og aðrar nauðsynjar. Fyrstu dagana voru léttar gönguferðir en svo lengdust þær smám saman.“

Sofið í tjaldi við rennandi læk

Eysteinn kveður ferðina hafa verið mikið ævintýri. „Yfirleitt, eftir gönguferð dagsins tjölduðum við í rjóðri við rennandi læk og komum okkur fyrir. Við gátum baðað okkur í læknum og svo elduðum við kvöldverð á hlóðum. Það var mjög mikilvægt að skilja ekkert umhverfisfótspor eftir okkur, svo við gengum vel frá öllu. Ef ég til dæmis borðaði epli, mátti ég ekki henda kjarnanum frá mér, vegna þess að þá gæti vaxið upp eplatré sem er ekki staðbundin eða innfædd planta í þjóðgarðinum.“

Hin stórkostlega náttúra þjóðgarðsins varð þátttakendum innspýting varðandi mikilvægi náttúruverndar og áhrif manns á náttúru. „Ég hugsa svolítið öðruvísi núna,“ segir Eysteinn. „Líttu til dæmis á eina tegund af eðlum sem er í útrýmingarhættu. Hún er aðalfæði skógarbjarna í þjóðgarðinum. Ef hún fyrirfinnst ekki lengur vegna umhverfisáhrifa, skerðist fæða bjarnarins og hann getur dáið út. Þetta hangir allt saman í einni keðju.“ Aðspurður hvort hann hafi séð skógarbirni, segist Eysteinn hafa séð tveimur þeirra bregða fyrir. „Okkur var kennt að standa upp og veifa handleggjunum ef við sæjum bjarndýr, því þau hræðast menn á þessum stað. Og svo á maður aldrei að lenda á milli bjarnarhúns og birnunnar – það er dauðadómur!“

Farsímarnir skildir eftir – og lifað án tækni

„Maður kynnist fólki alveg rosalega vel á svona ferðalagi,“ segir Eysteinn. „Um leið og við lentum í Washington afhentum við farsímana og fengum þá ekki til baka fyrr en við komum aftur á hótelið eftir tjaldferðalagið. Þess vegna voru mun meiri mannleg samskipti en við höfum yfirleitt frá degi til dags.“ Með hópnum voru tveir leiðsögumenn sem kenndu nemendunum að komast af í villtri náttúru án tækjabúnaðar. „Við gerðum okkur grein fyrir hvað okkar daglega líf er háð tækninni og því gott að sjá hvað maðurinn getur bjargað sér án hennar,“ segir Eysteinn. „Við gengum með allt á bakinu sem við þurftum næstu vikuna.“

Hvaða ráð hefur Eysteinn fyrir önnur ungmenni á Austurlandi sem langar að sækja um ævintýraferðina? „Sækja um! Um að gera að sækja um! Núna! Fólk ætti að leggja áherslu á áhuga sinn á útilífi. Ég nefndi til dæmis veiðiferðir með pabba og fleira. Svo skiptir framlag til samfélagsins miklu máli. Það hjálpaði í mínu tilfelli að segja að ég þjálfi krakka í knattspyrnu. Og ef einhver er virkur í félagslífinu, í skólanum, kannski, þá er það sterkur leikur.“

Eins og áður sagði rennur umsóknarfrestur út þann 5. mars nk. Umsækjendur þurfa ekki að tengjast Fjarðaáli á nokkurn hátt, þannig að allir hafa jafna möguleika.

 

Eysteinn_og_félagar

Hópurinn sem Eyteinn ferðaðist með. Jóna María er neðst t.v. og Eysteinn er annar frá hægri í aftari röð.

Eysteinn_og_félagar_1

Önnur mynd af hópnum.

Mynd fra Eysteini

Þessa fallegu mynd tók Eysteinn á ferðalaginu um þjóðgarðinn.