03. janúar 2018

Karlmaður eða ofur-karlmaður? Danssýningin Macho Man sýnd á fjórum stöðum á Austurlandi


Danshöfundurinn Katrín Gunnarsdóttir og fleiri stóðu fyrir sýningarferðalagi með verðlaunaverkið Macho Man í október 2017.  Dansverkið var sýnt á fjórum stöðum, í Neskaupsstað, á Eskifirði, Seyðisfirði og Egilsstöðum. Verkefnið hlaut m.a. styrk frá samfélagssjóði Alcoa, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð en sýningarferðalagið var unnið í samstarfi við sýningarstaðina á Austurlandi, Menningarmiðstöð Fljótdalshéraðs og Körnu Sigurðardóttur menningarfulltrúa Fjarðabyggðar.

 

Mestur áhugi á Seyðisfirði

Katrín segir að verkið hafi verið vel kynnt, m.a. með Facebook-viðburði og auglýsingu sem dreift var á ýmsa staði á Egilsstöðum og inn á hvert heimili í Neskaupstað, á Eskifirði og Seyðisfirði. Notast var við kassamerkið #machoaust á samfélagsmiðlum. Dansari var Saga Sigurðardóttir og starfsneminn Wilma Seppala aðstoðaði við verkefnið og sýndi stuttan sóló á tveimur sýningarstöðum.

„Sýnt var á fjórum stöðum,“ segir Katrín, „í Egilsbúð á Neskaupsstað, Valhöll á Eskifirði, Herðubreið á Seyðisfirði og Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Áhorfendafjöldi var misjafn eftir stöðum en langflestir mættu á Seyðisfirði, eða um 40 manns. Því miður varð að aflýsa sýningunni á Eskifirði vegna dræmrar aðsóknar.“ Katrín telur að tímasetningin hafi e.t.v. haft nokkur áhrif því að vegna stjórnarslita var boðað til kosninga sömu helgi og sýningarnar voru haldnar.

 

Mikil ánægja og fjörugar umræður

Katrín segir: „Þeir áhorfendur sem mættu lýstu alltaf yfir ánægju sinni yfir því að það væri boðið upp á dansviðburð og einn mætti meira að segja á tvær sýningar. Umræður voru eftir hverja sýningu og voru þær mjög skemmtileg viðbót við sýninguna.“ Í umræðum um verkið komu fram ýmsar spurningar og vangaveltur, til dæmis hver væri munurinn á að vera karlmaður, karlmannlegur og ofur-karlmannlegur (e. male, masculine, macho).

Katrín segist hafa átt góðar viðræður við forstöðukonu menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og menningarfulltrúa Fjarðabyggðar um mögulegar leiðir til að auka þátttöku og aðsókn að dansviðburðum á svæðinu og á öllum sýningarstöðum var vonast eftir því að endurtaka leikinn með einhverjum hætti eða koma aftur með viðburð/námskeið síðar. „Í ljósi þessa þykir okkur verkefnið hafa tekist vel, enda um algjöra tilraun að ræða að koma með dansviðburð sem þennan á Austurland. Vonandi verður hægt að halda samtalinu áfram og koma aftur með annað verkefni á Austurland í framtíðinni,“ segir Katrín að lokum.

 

Macho_2

Egilsbúð tilbúin fyrir sýninguna.


 
Macho_2

Aðstandendur sýningarinnar gistu í Jensenshúsi.

Macho_2

Austurland kvatt að loknu sýningarferðalagi.