24. janúar 2018

Fyrirmyndarfyrirtæki Viðskiptablaðsins: Magnús Þór Ásmundsson hjá Fjarðaáli telur samfélagslega ábyrgð góðan „bisness“


Nýlega kom út fylgirit Viðskiptablaðsins vegna vals fyrirmyndarfyrirtækja í rekstri árið 2017. Alcoa Fjarðaál lenti í 22. sæti meðal stærri fyrirtækja og af því tilefni var viðtal við Magnús Þór Ásmundsson, forstjóra Alcoa á Íslandi.

Í pistli ritsjóra blaðsins, Trausta Hafliðasonar, kemur fram að í heildina komast ríflega 850 fyrirtæki á listann eða um 2% fyrirtækja landsins. „Til þess að komast á listann þurfa fyrirtæki að hafa skilað ársreikningi og uppfylla ströng skilyrði. Fyrirtækin þurfa að hafa skilað jákvæðri afkomu á rekstrarárinu. Tekjur þurfa að hafa verið umfram 30 milljónir króna, eignir yfir 80 milljónum og eiginfjárhlutfallið þarf að hafa verið yfir 20%. Auk þessa er tekið tillit til annarra þátta, sem metnir eru af Viðskiptablaðinu og Keldunni.“

Tekið er fram að listinn nú byggi á ársreikningum fyrir árið 2016 og að það ár hafi verið að mörgu leyti mjög gott fyrir íslenskt atvinnulíf.

Þá segir í pistli ritstjóra að blaðið fjalli sérstaklega um þau fyrirtæki sem standa upp úr á Íslandi og eru þar með öðrum til fyrirmyndar í rekstri. Í blaðinu er m.a. rætt við stjórnendur fjölda fyrirtækja sem voru ofarlega á listanum, meðal annars Magnús Þór Ásmundsson, forstjóra Alcoa á Íslandi.

  Magnús í Viðskiptablaðinu
Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi.
VB MYND/HAG

Í viðtalinu segir Magnús Þór fyrirtækið vera stolt af árangri síðustu ára. Hann er bjartsýnn fyrir komandi tíð og segir: „Við höfum lagt áherslu á að auka framleiðni hjá okkur, með því að þróa okkar starfsfólk, með því að efla mannauðinn, vinnustaðamenningu, öryggi og umhverfismál.“

Þá ræðir Magnús Þór samkeppnishæfni Alcoa Fjarðaáls. „Þetta snýst allt um að halda samkeppnishæfninni. Það er núna ýmislegt framundan. Bæta á ferla til þess að auka skilvirkni og framleiðni. Í fyrra hækkuðum við til að mynda straum. Það var vandasamt verkefni.“

Magnús Þór segir ennfremur: „Árlega fer fram endurskoðun á okkar vinnuferlum. Við viljum gera enn betur. Mér finnst við hafa sýnt það að það er góður bisness að bæta öryggi, jafnrétti, umhverfi og fyrirtækjabrag. Það hefur skilað okkur árangri í framleiðni.“

Viðskiptablaðið tekur fram í lok umfjöllunarinnar að Alcoa Fjarðaál hafi hlotið fjölda viðurkenninga á síðasta ári, til að mynda Menntaverðlaun Samtaka atvinnulífsins. Einnig var Alcoa Fjarðaál fyrsta stórfyrirtækið til þess að fara í gegnum jafnlaunavottun.

Fylgirit Viðskiptablaðsins má skoða í heild sinni á vefnum vb.is