15. nóvember 2017

Heimildamyndin Blindrahundur sýnd í Reykjavík og á Seyðisfirði

Nú eru hafnar sýningar á heimildamyndinni Blindrahundur i Bíó Paradís en sýningar verða eingöngu í boði í tvær vikur.  Myndin verður einnig sýnd á Austurlandi laugardaginn 25. nóv kl. 20:00 og sunnudaginn 26. nóv kl. 17:00 í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði. Myndin er með enskum texta og ókeypis inn. Alcoa Fjarðaál er einn af styrktaraðilum myndarinnar.

Saga Birgis Andréssonar

Blindrahundur er ný heimildamynd um myndlistarmanninn Birgir Andrésson (1955-2007) en ævi og ferill Birgis eru rakin í gegnum frásagnir samferðarfólks frá bernsku og þar til hann lést sviplega árið 2007. Handrit, leikstjórn og klipping er í höndum Kristjáns Loðmfjörð og framleiðandi er Tinna Guðmundsdóttir.

Blindrahundur var fyrst sýnd í byrjun júní á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg, Patreksfirði, þar sem hún hlaut góðar viðtökur og vann bæði áhorfenda- og dómaraverðalaun. Myndin byggir á frásögnum fjölskyldu, vina og samstarfsmanna, hæglátu myndmáli í anda myndlistar Birgis og rödd listamannsins sjálfs. Fram koma ýmsir aðilar, m.a. Kristín Ómarsdóttir, skáld sem fylgir áhorfendum og fyllir ýmist í eyður eða eykur á óvissuna um listaverk Birgis sem eru full af leikgleði, opin og margræð í senn.

Báðir foreldrarnir blindir

Tinna Guðmundsdóttir, framleiðandi myndarinnar, segir: „Með báða foreldra blinda ólst Birgir upp sem einkabarn við afar sérstakar aðstæður. Í fjölmennu samfélagi í húsi Blindrafélagsins var Birgir sá eini með fulla sjón og lét gjarnan hafa eftir sér að hann hafi verið augu heimilisins. Þessi óvanalegi bakgrunnur varð kveikjan að djúpstæðum áhuga hans á sambandinu á milli tungumáls og myndmáls, hins sýnilega og ósýnilega.“

Varðandi tengslin við Austurland segir Tinna: „Tengingin er annars vegar sú að framleiðslufélagið er starfrækt á Austurlandi, þar sem við Kristján búum bæði á Seyðisfirði, og hins vegar átti Birgir húsið Hól á Seyðisfirði upp úr aldamótunum og dvaldi þar oft. Hann opnaði sýninguna Fossar í firði, ásamt ljósmyndaranum Magnúsi Reyni í lok árs 2001 í menningarhúsinu Skaftfelli á Seyðisfirði. Svo má bæta við að það er málverkasería eftir hann á barnum í Norrænu, að minnsta kosti tólf stór og vegleg málverk.“

Stikla: http://www.imdb.com/title/tt7390844/

Sjá nánar á vefsíðu Bíó Paradís: www.bioparadis.is

Blindrahundur

Myndlistarmaðurinn Birgir Andrésson.