28. nóvember 2017

Alcoa Fjarðaál úthlutaði 18,3 milljónum í samfélags- og íþróttastyrkjum

Í gær, mánudaginn 27. nóvember, úthlutaði Alcoa Fjarðaál styrkjum úr styrktarsjóði og úr íþróttasjóðnum Spretti. Samtals var úthlutað 16 milljónum úr styrktarsjóðnum til margvíslegra samfélagsverkefna á Austurlandi. Þá var úthlutað 2,3 milljónum úr íþrótta- og afrekssjóðnum Spretti sem Fjarðaál styrkir árlega en ÚÍA heldur utan um.

Hæstu styrkina frá Fjarðaáli árið 2017 hlaut annars vegar Félag áhugafólks um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði en þar er unnið að því að grafa upp skála frá því snemma á 9. öld og þykir það afar merkilegur fornleifafundur. Nokkuð af gripum hefur fundist í rústunum sem varpa ljósi á lifnaðarhætti þessa tíma. Styrkurinn var ein milljón króna og forsvarsmaður félagsins, Björgvin Guðmundsson greindi stuttlega frá verkefninu þegar hann tók við styrknum.

Hins vegar hlutu Hollvinasamtök Hússtjórnarskólans á Hallormsstað eina milljón króna í styrk til að hanna og sauma refil sem mun segja sögu Hrafnkels Freysgoða og er því vísun í menningararf Austurlands. Refillinn verður 20–30 metra langur og reiknað er með að vinnan spanni um átta ár. Það var Ásta Sigfúsardóttir formaður hollvinasamtakanna sem veitti styrknum viðtöku og greindi um leið stuttlega frá verkefninu. Hún sagði meðal annars að vinna væri hafin við hönnun refilsins í samvinnu við Myndlistaskólann í Reykjavík.

Alls hlutu um 50 félög á Austurlandi styrki vegna hinna ýmsu verkefna og ljóst að mörg þeirra hefðu ekki orðið að veruleika ef ekki væri fyrir styrkinn frá Fjarðaáli. Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri álframleiðslu og staðgengill forstjóra sagði í opnunarávarpi sínu á athöfninni: „Við lítum svo á að það sé einn angi af okkar samfélagsábyrgð að veita styrki til góðra og þarfra verkefna í heimabyggð en þetta er þó langt frá því að vera eini þátturinn í samfélagsábyrgð okkar. Það sem við leggjum af mörkum til samfélagsins í gegnum efnahagslegt mikilvægi, umbætur í umhverfismálum og áherslur okkar í jafnréttismálum eru gífurlega mikilvægir þættir en styrkjahlutinn er kannski sýnilegasti þátturinn.“

Hér með eru þó ekki upptaldir allir styrkirnir sem Alcoa Fjarðaál veitir árið 2017 en samtals veitir Fjarðaáls styrki fyrir um 130 milljónir króna árlega. Stærsti styrkurinn hvert ár rennur til Vina Vatnajökuls og er hann yfir 50 milljónir. Þá eru ótaldir styrkir frá Alcoa Foundation sem styrkir eintök verkefni, fyrst og fremst á sviði umhverfis- og menntamála.

Yfirlit allra styrkja úr styrktarsjóði Fjarðaáls árið 2017:

Umsækjandi

Verkefni

Edrúfélag Verkmenntaskóla Austurlands (EVA)

 

Styrkurinn er veittur til að efla starf félagsins svo það geti stuðlað að heilbrigðri og vímuefnalausri skemmtun fyrir ungmenni.

East Wellness Vikings

 

Styrkurinn er veittur vegna uppbyggingar á götuþríþraut á Eskifirði.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs

 

Annars vegar styrkur til að kaupa öryggisbúnað fyrir Sigurðarskála í Kverkfjöllum og hins vegar endurnýjun á bæklingi um 22 heiðabýli á Jökuldals- og Vopnafjarðarheiði

Lionsfélag Eskifjarðar

 

Lionsfélagið ætlar að bjóða upp á ýmsa afþreyingu fyrir vistmenn Hulduhlíðar og hlaut til þess styrkinn.

Litla ljóða hámerin

 

Hlýtur styrk til að halda Litlu ljóðahátíðina í Norðausturríki og Ljóðagöngu í skógi en báðir viðburðir hafa farið fram og heppnuðust með ágætum

Stafkrókur - Ritsmiðja Austurlands

 

Bjóða upp á ritlistarnámskeið fyrir 10-16 ára börn í samstarfi við grunnskólana á Austurlandi

Tónlistarstundir

 

Sumartónleikaröð í Vallaneskirkju og Egilsstaðakirkju.

UMF Neisti

 

Styrkur til að bjóða upp á forvarnarstarfið: Edrúlífið fyrir alla

UMF Hrafnkell Freysgoði

Setja upp verkið Gísli á Uppsölum í Frystihúsinu

Breiðdalssetur

Ljúka við og gefa út jarðfræðikort Austurlands

Félag um minningarreit við Sleðbrjótskirkju

Styrkur veittur til að ljúka við útilistaverk við kirkjuna.

Ferðaklúbburinn 4x4 á Austurlandi

 

Setja upp kamar við bjálkahús að Vöðlum á Smjörvatnsheiði og hins vegar til að fara í jeppaferð með skjólstæðinga félagsþjónustunnar á Héraði og í Fjarðabyggð. Farið var í Vöðlavík fyrr í haust og ferðalangarnir komu við hjá okkur í Alcoa á heimleiðinni í kaffi.

Hollvinasamtök Hjaltalundar

 

Fyrr í þessum mánuði fór fram málþingið: Í fótspor Jóns lærða á Úthéraði en samtökin hlutu styrk frá okkur til að halda þingið.

Söguslóðir Austurlands

 

Hljóta styrk til að halda ráðstefnuna „Með öræfin í bakgarðinum“ sem fram mun fara á næsta ári.

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum

 

Uppsetning á leikritinu „Wake me up....before you gogo.“

Tengslanet austfirskra kvenna (TAK)

 

Styrkurinn er veittur vegna viðburða á vegum félagsins, meðal annars ráðstefnunnar Auður Austurlands með Höllu Tómasdóttur sem fram fer í byrjun desember.

Tónlistarmiðstöð Austurlands Fjórir austfirskir listamenn

 

Hlýtur styrk vegna verkefnisins Fjórir austfirskir listamenn en þeir hyggjast standa fyrir nýárstónleikum í janúar 2018 en þar verður boðið upp á vínarvalsa og léttar óperuaríur. 

Menningarfélagið Tær

 

Sýningarferð um Austurland með dansverkið Macho Man.

Foreldrafélag leikskólans Tjarnarskógar

 

Til kaupa á 45 barnabílstólum til að nota í rútuferðum á vegum leikskólans.

Hljómsveitin Dægurlagadraumar

 

Hlutu styrk til að halda tónlistarskemmtanir víða um Austurland síðasta sumar.

Sveitin samanstendur af sjö tónlistarmönnum frá Austurlandi frá Neskaupstað, Eskifirði og Djúpavogi.

Þau hafa vakið athygli síðustu ár fyrir flutning  dægurlagaperla og tekst vel að fanga með tíðaranda 6. og 7. áratugarins.  

Leikfélagið Djúpið (Verkmenntask. Austurlands)

 

Leikfélagið setti fyrr á árinu upp söngleikinn „We will rock you“ og þá ætla þau einnig að bjóða upp á leiklistarnámskeið fyrir nemendur VA þetta skólaárið.

Miðstöð menningarfræða

 

Hlýtur styrk til að skrásetja menningarsögu Seyðisfjarðar frá 1880 fram til dagsins í dag.

Bláa Kirkjan

 

Styrkur til að halda sumartónleikaröð í Seyðisfjarðarkirkju síðastliðið sumar, en þetta var í 20. skiptið sem þessi tónleikaröð fer fram.

Skaftfell

 

Fræðsluverkefni Skaftfells árið 2017 sem var Listsmiðja fyrir alla nemendur á miðstigi á Austurlandi.

Tónleikafélag Austurlands

 

Uppsetning á viðamiklum tónleikum með það að markmiði að safna peningum til að styrkja geðheilbrigðisstarf á Austurlandi og leyfa ungum og upprennandi listamönnum að njóta sín.

Æskulýðssamband kirkjunnar á Austurlandi (ÆSKA)

 

Farskóli leiðtogaefna á Austurlandi.

Foreldrafélag Grunnskóla Reyðarfjarðar

 

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unglinga.

Björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði

 

Styrkur til að kaupa björgunartækið Rescuerunner fyrir björgun í sjó, vötnum á ám.

Blátt áfram

 

Styrkur til að halda námskeiðið Verndarar barna á Austurlandi.

Hollvinasamtök utanspítalaþjónustu í Fjarðabyggð

Söfnun fyrir endurlífgunardúkku – Sim-Man.

Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði (HHF)

 

Kaup á hjóli til að rjúfa félagslega einangrun og bjóða upp á aukna útiveru vistmanna á Dyngju.

Rauði krossinn á Eskifirði

 

Kaup á hjóli fyrir Hulduhlíð til að rjúfa félagslega einangrun.

Íbúasamtök Fáskrúðsfjarðar

 

Styrkurinn er veittur til að útbúa fjölskyldu- og útivistarsvæði í Skrúðgarðinum á Fáskrúðsfirði.

Íþróttafélagið Höttur

 

Kaup á útiæfingatækjum fyrir heilsustíg í Selskógi.

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs

 

Styrkur fyrir námskeiði í gerð stuttmynda fyrir stelpur á aldrinum 13 – 15 ára.

Skjala- og myndasafn Norðfjarðar

 

Styrkurinn er veittur vegna samstarfsverkefnis safnsins og Héraðsskjalasafns Austurlands um skönnun á gömlum hreppsgögnum.

UMF Súlan, Stöðvarfirði

 

Styrkurinn er veittur vegna hátíðardagskrár í tilefni af 90 ára afmæli félagsins.

Ungmenna - og íþróttasamband Austurlands (UÍA)

 

Styrkurinn er veittur vegna farandþjálfunar árið 2018.

Ungt Austurland

 

Styrkurinn er veittur vegna vel heppnaðrar byggðarráðstefnu ungra Austfirðinga á Borgarfirði eystri en hún fór þar fram í aftakaveðri síðasta vor.

Félagsmiðstöðvar í Fjarðabyggð

 

Styrkurinn er veittur vegna ungmennahátíðarinnar Kuldabola.

Björgunarsveitin Gerpir Neskaupstað

 

Styrkurinn er veittur til endurnýjunar á öryggisbúnaði í björgunarbátnum Glæsi. 

Náttúrustofa Austurlands

 

Styrkurinn er veittur vegna uppstoppunar á hreindýrstarfi fyrir safnið.

Safnastofnun Fjarðabyggðar

 

Styrkurinn er veittur vegna forvörslu gamalla ljósmynda á Austurlandi.

Skólaskrifstofa Austurlands

 

Innleiðing á verkefni Barnaheilla „Vinátta" í leikskólum á Austurlandi en um er að ræða forvarnarverkefni gegn einelti.

Verkmenntaskóli Austurlands

 

Tæknidagur fjölskyldunnar

Frábærlega vel heppnað verkefni sem stækkar með hverju árinu sem líður.

Björgunarsveitin Hérað

 

Styrkurinn er veittur vegna kaupa á búnaði m.a. grjóndýnu, endurnýjunar á klifurbúnaði og kaupa á straumvatnsbáti.

Hollvinasamtök FSN

 

Hljóta styrk vegna búnaðarkaupa fyrir sjúkrahúsið í Neskaupstað, annars vegar til þess að endurnýja þrekhjól sem notað er við þolpróf og hins vegar vegna kaupa á viðbótartæki við nýtt hjartaómskoðunartæki spítalans.

Björgunarsveitin Ársól

 

Styrkurinn er veittur vegna kaupa á nýjum björgunarbáti.

Félag áhugafólks um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði

 

Uppgröftur skála frá því snemma á 9. öld.

Hollvinasamtök Hússtjórnarskólans á Hallormsstað

 

Styrkurinn er veittur til að hanna og sauma refil með rætur í sögu og menningarf Austurlands. Refillinn verður 20 – 30 metra langur og reiknað er með að vinnan spanni ein 8 ár.

Allir styrkir frá Spretti árið 2017:

Iðkendastyrkur:

Guðjón Berg Stefánsson, blak, Þróttur

Hafdís Guðlaugsdóttir, sund, Höttur

Hlynur Karlsson, blak, Þróttur

Katrín Anna Halldórsdóttir, fimleikar, Höttur

Særún Birta Eiríksdóttir, blak, Þróttur

Tinna Rut Þórarinsdóttir, blak, Þróttur

Valdís Kapitola Þorvarðardóttir, blak, Þróttur

Þorsteinn Ivan Bjarkason, bogfimi, Skaust

Andri Gunnar Axelsson, skíði, Skíðafélag Fjarðabyggðar

Daði Þór Jóhannsson, fótbolti, Leiknir

Bylgja Rún Ólafsdóttir, glíma, UMF Valur

Viktor Páll Magnússon, golf, Golfklúbbur Fjarðabyggðar

Andri Snær Sigurjónsson, blak, Þróttur

Þjálfara- og félagastyrkir:

Körfuknattleiksdeild Fjarðabyggðar

Glímuráð UMF Vals

Fimleikadeild Hattar

Lyftingafélag Austurlands

Sunddeild Austra

Afrekstyrkir árið 2017 – allir sem hlutu afreksstyrki hafa keppt fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum mótum:

María Rún Karlsdóttir, blak, Þróttur

Kristinn Már Hjaltason, fimleikar, Höttur

Mikael Máni Freysson, frísbígolf, UMF Þristur

Heiða Elísabet Gunnarsdóttir, blak, Þróttur

 

Styrkir_hopmynd
Fulltrúar þeirra félaga sem hlutu styrk frá Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls árið 2017 ásamt Dagmar Ýr Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa og Smára Kristinssyni framkvæmdastjóra.

 

Styrkir_sprettur_small
Margir öflugir íþróttamenn voru í hópi þeirra sem hlutu styrk úr Spretti þetta árið. Hér eru þeir ásamt fulltrúum þeirra félaga sem hlutu félaga- og þjálfarastyrki. Á myndinni eru einnig Dagmar Ýr og Gunnar Gunnarsson formaður ÚÍA.

 

BjarniH
Bjarni Haraldsson tók við styrk fyrir hönd Tónleikafélag Austurlands en fyrr á árinu setti félagið upp viðamikla tónleika til styrktar geðheilbrigðismálum á Austurlandi. Bjarni greindi stuttlega frá þessu vel heppnaða verkefni á athöfninni.

 

X1C1A1224._small
Þeir Reynir Zöega og Sveinn Gunnar Guðmundsson tóku við styrk úr höndum Smára Kristinssonar fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Gerpis. Gerpir ætlar að endurnýja tækjabúnað í björgunarbáti sínum.

 

X1C1A1315_small
Annan hæsta styrkinn þetta árið hlutu Hollvinasamtök Hússtjórnarskólans á Hallormsstað til að hefja vinnu við að sauma refil sem vísar í sögu og menningararf Austurlands. Þær Ásta Sigfúsdóttir formaður hollvinasamtakanna og Päivi Vaarula vefnaðar- og textílkennari við skólann tóku á móti styrknum.

 


X1C1A1315_small
Hinn hæsta styrk ársins hlaut Félag áhugafólks um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði og Björgvin Guðmundsson greindi stuttlega frá ganginum í fornleifauppgreftrinum og því markverðasta sem þar hefur fundist.