11. ágúst 2017

Tvö vel heppnuð sjálfboðaliðaverkefni starfsmanna Alcoa í júlí

Alcoa Fjarðaál stendur reglulega fyrir sjálfboðaliðaverkefnum á Mið-Austurlandi sem telst vera áhrifasvæði fyrirtækisins. Fyrirtækið leggur mikið upp úr því að sem flestir starfsmenn taki þátt í einhverju slíku verkefni á ári hverju. Til þess að sýna starfsmönnum hversu vel Alcoa kann að meta vinnuframlag þeirra, leggur fyrirtækið fé með sjálfboðaliðunum, og greiðir 3.000 bandaríkjadali ef 8 starfsmenn eða fleiri taka þátt. Starfsmenn eru hvattir til þess að taka með sér maka og börn í verkefnin, og einnig vinna aðilar frá viðkomandi félagi eða stofnun með þeim. Þessi verkefni eru farin að festa sig í sessi á Mið-Austurlandi og þátttakan í þeim eykst jafnt og þétt.

Sjálfboðaliðar Alcoa ásamt hjálparmönnum hafa skilið eftir sig slóð um allt Austurland, m.a. útikennslustofur á þremur stöðum, útiblakvelli á Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað, vel hirta íþróttavelli, betri aðstöðu fyrir björgunarsveitir, skautaaðstöðu, bætt skíðasvæði í Stafdal og Oddsskarði, og svo mætti lengi upp telja. Í fyrra var alls ráðist í 21 verkefni sem skilaði tæpum 6,5 milljónum til félagasamtaka á Austurlandi.

Fyrstu tvö verkefnin af sex árið 2017 voru unnin í júlí og var góð þátttaka í þeim báðum. Hið fyrra var fimmtudaginn 20. júlí en það var í þágu Félags eldri borgara á Reyðarfirði. Félagið hafði gert ráð fyrir aðstöðu fyrir minigolf við húsnæði þess að Melgerði 13 en hefur ekki haft fjármagn eða mannafla til þess. Heiðrún Arnþórsdóttir, starfsmaður Fjarðaáls, smalaði saman tólf starfsmönnum sem unnu ásamt öðrum sjálfboðaliðum við að líma gervigras á völlinn og ganga frá honum, þannig að nú geta íbúar notið þess að vera úti við og spila minigolf við barnabörnin. Styrkurinn dugði einnig til kaupa á kylfum, boltum o.fl. sem munu nýtast félaginu vel.

Seinna verkefnið var unnið þann 26. júlí fyrir Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar. Hilmir Ásbjörnsson starfsmaður Fjarðaáls kom sér upp tíu manna einvalaliði hjálpsamra starfsmanna sem byggðu pall í þeirri hæð að góð yfirsýn fáist yfir knattspyrnuvöll félagsins á Eskifirði. Þá er hægt að taka upp leiki sem nýtist vel fyrir þjálfun leikmanna. Einnig smíðuðu þeir tvo minni palla til þess að byrgja vatnsbrunna sem annars gætu verið slysagildra. Eftir að verkefninu var lokið er aðstaða til íþróttaiðkana á vellinum orðin betri og öruggari.

Nú eru fjögur verkefni eftir, en þau eru að bæta aðgengi fatlaðra að Hjaltalundi, aðstoða björgunarsveitina Gerpi við flutninga, útbúa æfingarhúsnæði fyrir ungt fólk í tónlist á Egilsstöðum og síðan verður gengið, í svokölluðu hreyfiverkefni, í Hallormsstaðaskógi til styrktar Hollvinasamtökum fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað en sjúkrahúsið fagnar 60 ára afmæli í ár.

MYNDIR FRÁ VERKEFNINU Á REYÐARFIRÐI:

Reydarfjordur_1

Reydarfjordur_3

Reydarfjordur_2

 

MYNDIR FRÁ ESKIFIRÐI:

Eskifjordur_1

Eskifjordur_2

Eskifjordur_3

Eskifjordur_6