22. mars 2017

Verðmætur menningararfur gerður aðgengilegur almenningi

Alcoa Fjarðaál veitir samfélagsstyrki tvisvar á ári, að vori og að hausti, samtals um þrettán milljónir króna. Í vorúthlutun 2016 rann stærsti styrkurinn til Héraðsskjalasafns Austfirðinga fyrir stafræna afritun á hljóð- og myndefni um héraðs- og menningarsögu Austurlands.

Styrkurinn sem Héraðsskjalasafnið hlaut nam einni milljón króna. Þar sem verkefninu er nú lokið er fróðlegt að heyra hvað var gert og hvernig það tókst. Bára Stefánsdóttir, héraðsskjalavörður segir um tilgang verkefnisins: „Í vörslu Héraðsskjalasafnsins eru um 90 titlar af hljóð- og myndupptökum á kvikmyndafilmum, myndböndum, hljóðböndum og snældum. Þar er margt merkilegt efni að finna sem ekki hefur verið aðgengilegt almenningi hingað til, meðal annars af þeirri ástæðu að safnið hefur ekki yfir að ráða tækjabúnaði til að geta spilað efni á svo margvíslegu formi.“

 

Hreindyr-gamalt

Þessi tarfur varð á vegi leiðangursmanna sem voru að rannsaka og veiða hreindýr á Brúaröræfum. Ljósmyndari er Eðvarð Sigurgeirsson sem gerði ferðinni einnig skil í kvikmyndinni Á hreindýraslóðum.

 

Þrjár kvikmyndir afritaðar
Kvikmyndasafn Íslands tók að sér að afrita þrjár kvikmyndir af filmum. Austurland eftir Eðvarð Sigurgeirsson sem var tekin fyrir Austfirðingafélagið á Akureyri á árunum 1960-1966. Aftast á filmunni er hluti af myndinni Á hreindýraslóðum sem sýnir leiðangur í Kringilsárrana á Brúaröræfum á árunum 1939-1944. Frá Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands voru afritaðar tvær filmur: 13. landsmót UMFÍ Eiðum 1968 og Sumarhátíð UMFÍ Eiðum 1979.

Auk þess var samið um að filmurnar þrjár yrðu framvegis geymdar í frystigeymslu Kvikmyndasafnsins sem eru betri varðveisluskilyrði fyrir filmur en skjalageymsla. Skjalasafnið fékk afrit á dvd-diskum.

 

Myndbönd, hljóðbönd og snældur
Myndbandavinnslan tók að sér að sjá um afritun á myndböndum, hljóðböndum og snældum. Meðal þess efnis sem fyrirtækið yfirfærði voru hljóðupptökur frá héraðsvökum á vegum Menningarsamtaka Héraðsbúa á árunum 1968-1986, kvikmynd frá 60 ára afmæli Neskaupstaðar 1989 og heimildamynd um sögu byggðar á Seyðisfirði. Eftir afritun var stafræna efnið afhent til Héraðsskjalasafnsins á flakkara og öryggisafrit er vistað á diskastöð á safninu.

Að lokum segir Bára: „Með því að afrita ofangreint hljóð- og myndefni á stafrænt form er upprunalega geymslumiðlinum, það er filmu, bandi eða spólu, ekki hent heldur er innihaldið afritað á nútímalegra form þannig að um aukaeintak er að ræða. En aðgengi að efninu er nú miklu betra í gegnum tölvu þar sem hluti af upprunalega útgáfuforminu er orðið úrelt og tæki til afspilunar liggja ekki á lausu.“