02. febrúar 2017

Alcoa Fjarðaál er menntafyrirtæki ársins 2017

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í morgun menntaverðlaun atvinnulífsins á menntadegi atvinnulífsins sem haldinn var í fjórða sinn á Hilton Reykjavík Nordica.

Fjarðaál á Reyðarfirði er stærsta iðnfyrirtæki landsins en þar vinna um 530 starfsmenn auk fjölda verktaka. Metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks á hverjum degi. Fyrirtækið rekur stóriðjuskóla sem er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands en um 50 nemendur stunda nám við skólann á hverjum tíma.

„Ég er afar stoltur af því að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd starfsfólks Alcoa Fjarðaáls. Innan Fjarðaáls starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks sem eru öll sérfræðingar á sínu sviði. Lykillinn að því að hámarka og viðhalda þekkingu, hæfni og reynslu innan fyrirtækisins er að allt starfsfólk sé reiðubúið að miðla sín á milli í gegnum fræðslustarf og skipulag fyrirtækisins. Ég vil því óska starfsfólki Alcoa Fjarðaáls til hamingju með Menntaverðlaunin og þakka þeim fyrir framlag sitt,“ segir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls.

Alcoa Fjarðaál og sveitarfélagið Fjarðabyggð  hafa á undanförnum árum unnið að því að efla áhuga ungs fólks á Austfjörðum á verk- og tæknimenntun. Kennarar lögðu sitt af mörkum og aðstaða til kennslu var bætt, námsframboð á verklegum valgreinum var aukið og nemendur hvattir til nýsköpunar auk þess sem þeim var boðið að heimsækja Fjarðaál og kynna sér starfsemi fyrirtækisins.  Verkefnið heppnaðist mjög vel en fjöldi þeirra sem völdu verk- og tækninám að loknum grunnskóla tvöfaldaðist á aðeins þremur árum. Eitthvað sem atvinnulífið hefur lengi kallað eftir.

Alcoa Fjarðaál - Menntafyrirtæki ársins 2017
Frá athöfninni. T.f.v. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls og hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

„Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki í iðnaði að beita sér fyrir því að verk- og tækninámi sé haldið á lofti, það eflt og áhersla lögð á mikilvægi þess. Samvinna atvinnulífsins, skólakerfisins og sveitarfélaganna er lykilatriði í því að árangur náist og að orðum fylgi athafnir. Við munum halda áfram að leggja okkar af mörkum til eflingar verk- og tæknináms, sem og efla þekkingu og hæfni innan fyrirtækisins,“ segir Magnús.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.

Í dómnefnd sátu Karen Kjartansdóttir fyrir Samtök atvinnulífsins, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var Menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson sérfræðingur hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var Menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel.

Smelltu á myndina hér fyrir neðan til að spila myndband sem útskýrir hvers vegna Fjarðaál var verðugur viðtakandi menntaverðlaunanna 2017.