22. febrúar 2017

Alcoa Fjarðaál er bakhjarl Gulleggsins sjöunda árið í röð

Alcoa Fjarðaál hefur verið einn af aðalbakhjörlum Gulleggsins frá árinu 2010 og nú hefur samstarfssamningur verið endurnýjaður fyrir árið 2017. Í ár fagnar Gulleggið tíunda afmælisári sínu og því er styrkurinn í ár ríkulegri en áður eða samtals 1,3 milljón króna.

Markmiðið með keppninni er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Þátttakendur öðlast dýrmæta reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda sem og rekstri fyrirtækja og er því góður vettvangur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd á markvissan hátt. Með skráningu býðst þátttakendum fjöldi vinnusmiðja og aðstoð ýmissa sérfræðinga, reyndra frumkvöðla og stjórnenda í íslensku atvinnulífi.

Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls og Edda Konráðsdóttir verkefnastjóri Gulleggsins undirrituðu samstarfssamninginn í húsnæði Icelandic Startups. Alcoa Fjarðaál er stolt af því að vera einn af helstu bakhjörlum Gulleggsins þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að láta ljós sitt skína og njóta framúrskarandi leiðsagnar til að ná markmiðum sínum. Af þeim fyrirtækjum sem hafa verið sett á laggirnar í kjölfar keppninnar má sjá að stuðningur við frumkvöðlastarf er afar mikilvægur til að auka fjölbreytileika fyrirtækja hér á landi.

Keppnin fagnar 10 ára afmæli í ár og til stendur að fagna afmælinu með glæsibrag í Hörpu þann 11. mars næstkomandi. Þar verður farið yfir sögu Gulleggsins og sjónum beint að árangri fyrirtækja sem hafa tekið þátt í keppninni. Auk þess verður gefin út vegleg samantekt um keppnina: fyrrum þátttakendur, bakhjarlar, verkefnastjórnir og áhrif keppninnar á íslenskt samfélag.

Um 2300 hugmyndir hafa farið í gegnum keppnina frá upphafi. Þar af hafa 90 fyrirtæki hafnað í topp 10 sætunum og eru 76% þeirra enn starfandi í dag. Mörg þessara fyrirtækja eru orðin að stórfyrirtækjum í dag. Sem dæmi um fyrri þátttakendur má nefna Meniga, Karolina Fund, Clara, Nude Magazine, Roro - Lulla doll, Pink Iceland og Cooori.

Sigurvegarar Gulleggsins í fyrra voru Pay Analytics, tæknilausn sem veitir stjórnendum fyrirtækja yfirsýn og útrýmir kynbundnum launamun.

Mynd_1
Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls og Edda Konráðsdóttir verkefnastjóri Gulleggsins við undirritun samstarfssamnings.