28. desember 2016

Laun voru hvergi hærri en í Fjarðabyggð árið 2015

Á aðfangadag birti Viðskiptablaðið niðurstöður úttektar sem blaðið gerði á tekjum og eignum íbúa tíu stærstu sveitarfélaga landsins. Niðurstöðurnar sýndu að íbúar Fjarðabyggðar voru þeir launahæstu á landinu á síðasta ári samkvæmt tölum frá Ríkisskattstjóra.

 

IMG_6677b

Myndin sýnir framkvæmdir við íbúðarhús í Fjarðabyggð.

Að sögn Viðskiptablaðsins voru meðallaun í Fjarðabyggð tæplega 547 þúsund krónur á mann en það þýðir 35,5% raunhækkun frá aldamótum. Samtals voru 2.552 launþegar skráðir á svæðinu. „Meðal helstu vinnuveitenda sveitarfélagsins eru álver Alcoa á Reyðarfirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði og Eskja á Eskifirði. Þess má geta að í tölunum er einnig tekið tillit til fólks í hlutastarfi og má því gera ráð fyrir að laun fólks í fullu starfi séu að meðaltali eitthvað hærri,“ segir í frétt blaðsins.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að „Uppgangurinn hafi verið mikill frá hruni og því sé fyrst og fremst að þakka sterkum útflutningsgreinum.“

Í fréttinni kemur fram að eignarstaða íbúa Fjarðabyggðar hafi styrkst töluvert frá árinu 2000, eða um tæp 40% að raunvirði og blaðið vitnar í Pál sem segir að eftirspurn eftir fasteignum á svæðinu hafi aukist umtalsvert undanfarin ár, sérstaklega á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði.

Frétt Viðskiptablaðsins er eftirtektarverð þar sem hún varpar ljósi á þróun ýmissa mála sem voru talin áhyggjuefni á þeim tíma sem ákvörðun var tekin um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Þá settu Landsvirkjun og Alcoa á laggirnar svokallað Sjálfbærniverkefni til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við virkjunina og álverið á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Fyrirtækin fengu til liðs við sig fulltrúa ýmissa hópa, sem bæði voru með og á móti framkvæmdunum, og myndaður var samráðshópur sem vann að verkefninu.

Hlutverk samráðshópsins var að greina þau málefni sem hver og einn í hópnum taldi mikilvægt að fylgjast með til framtíðar, að þróa vísa (e. indicators) og að finna hugsanlega mælikvarða til að mæla áhrif af starfsemi fyrirtækjanna á sjálfbæra þróun á Austurlandi.

Vísana og mælikvarðana er að finna á heimasíðu Sjálfbærniverkefnisins en ofangreind frétt Viðskiptablaðsins snertir þrjá þeirra: tvo sem varða samfélag og einn varðandi efnahag.

 

Tekjur_ibua
Mynd frá vef Sjálfbærniverkefnisins: Samfélagsvísir 1.14.

Samfélagsvísir 1.14 nefnist „Tekjur íbúa.“ Forsendur fyrir vali á honum voru þessar: „Meðaltekjur eru gagnlegur vísir til að bera saman fjárhagslega velferð á mismunandi svæðum. Fljótsdalsstöð og Fjarðaál eru líkleg til að hafa áhrif á meðaltekjur á Austurlandi. Starfsfólk og fjölskyldur þeirra fá beinar tekjur frá fyrirtækjunum. En áhrif fyrirtækjanna á tekjur á svæðinu verða einnig óbein þar sem fjölmörg afleidd störf skapast innan svæðisins.“ Grunnupplýsingar frá árunum 1999 og 2002 sýndu þá að tekjur á Austurlandi hafi verið nokkuð lægri en á höfuðborgarsvæðinu en nú sýnir þróunin að Fjarðabyggð er komin í efsta sætið.

Samfélagsvísir 1.15 nefnist „Fasteignaverð.“ Forsendur fyrir vali á honum voru þessar: „Framkvæmdirnar á Austurlandi hafa ekki einungis skapað atvinnutækifæri og hækkað tekjur heldur hefur eftirspurn eftir fasteignum, vörum og þjónustu einnig aukist og þetta leiðir til breytinga á verðlagi. Húsnæði er stór þáttur í útgjöldum flestra heimila og þróun húsnæðisverðs gefur góða vísbendingu um kostnað sem fylgir því að búa á ákveðnum svæðum. Fólksflutningar frá Austurlandi um og eftir aldamótin leiddu til stöðnunar á fasteignamarkaði. Einhverja hækkun á húsnæðismarkaði má því túlka sem jákvæða þróun en til lengri tíma litið skiptir máli að þróun fasteignaverðs sé í samræmi við tekjuþróun á svæðinu.“

 

Fjardabyggd-tekjur
Mynd frá vef Sjálfbærniverkefnisins: Efnahagsvísir 3.5

Þá má að lokum nefna efnahagsvísi 3.5 sem kallast „Fjárhagsstaða sveitarfélaga.“ Forsendur hans voru m.a. þessar: „Framkvæmdirnar á Austurlandi munu líklega skila sveitarfélögum auknum tekjum bæði vegna beinna skatttekna af fyrirtækjum sem tengjast framkvæmdum og vegna skatttekna af þeim störfum sem skapast óbeint vegna þeirra. Á móti kemur að kostnaður sveitarfélaga mun einnig aukast þar sem fjölgun íbúa krefst meiri þjónustu.“ Eins og sést á ummælum bæjarstjóra Fjarðabyggðar hefur staða sveitarfélagsins batnað og þróun síðustu ára má sjá á síðu Sjálfbærniverkefnisins.

Þeim sem áhuga hafa á þróun ýmissa þeirra vísa sem valdir voru af samráðshóp Sjálfbærniverkefnisins er bent á síðu verkefnisins www.sjalfbaerni.is en henni er reglulega við haldið og árlega er hver vísir uppfærður með nýjum tölum.