22. júlí 2016

Dúx Menntaskólans á Egilsstöðum hlaut námsstyrk frá Samfélagssjóði Alcoa

Stefán Asp­ar Stef­áns­son er dúx Mennta­skól­ans á Eg­ils­stöðum 2016 og út­skrifaðist með meðal­ein­kunn­ina 9,37. Dúxinn stefnir á lögfræði í Háskólanum á Akureyri en hann hlaut nýlega styrk að upphæð 4.000 Bandaríkjadalir frá Samfélagssjóði Alcoa.

2016_07_stefan1_large

Stefán Aspar tók formlega á móti styrknum við athöfn í mötuneyti Fjarðaáls þann 1. júlí. T.f.v. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Stefán Aspar Stefánsson, Stefán Eðvald Stefánsson, faðir Stefáns, og Geir Sigurpáll Hlöðversson, framkvæmdastjóri málmvinnslu hjá Fjarðaáli.

Árlega býður Alcoa Foundation (Samfélagssjóður Alcoa) börnum starfsmanna fyrirtækisins um allan heim að sækja um skólastyrk til háskólanáms, en hann kallast „Sons and Daughters“ styrkur. Skilyrði fyrir styrknum er að einstaklingurinn sé að útskrifast úr framhaldsskóla eða því námi sem samsvarar „high school“ í Bandaríkjunum. Valið er úr umsóknum skv. námsárangri, leiðtogahæfni, manngerð, vinnusögu, samfélagsþjónustu og ritgerð á ensku sem þarf að senda með umsókninni.
 
Styrkurinn nemur 4.000 Bandaríkjadölum, eða um hálfri milljón króna og greiðist út á fjórum árum ef námsframvinda er samkvæmt áætlun.
 
Árið 2014 hlaut nemandi Mennta­skól­ans á Eg­ils­stöðum, Marteinn Gauti, sonur Kára Jónassonar, umsjónarmanns kerræsinga hjá Fjarðaáli, styrkinn en hann leggur stund á viðskiptafræði. Nú í ár var Stefán Aspar Stefánsson sonur Stefáns Eðvalds Stefánssonar, starfsmanns í steypuskála Fjarðaáls, valinn úr stórum hópi umsækjenda.
 
Skömmu eftir að Stefán fékk að vita að hann hafi hlotið styrkinn frá Samfélagssjóði Alcoa, útskrifaðist hann með stúdentspróf frá ME. Árangur hans sýnir að valnefnd Samfélagssjóðsins hafi ekki veðjað á rangan hest, þar sem Stefán Aspar var dúxinn í ár með meðal­ein­kunn­ina 9,37 en hann hlaut m.a. verðlaun fyr­ir góðan ár­ang­ur í fé­lags­grein­um og tungu­mál­um.
 
Í fyrrasumar starfaði Stefán Aspar í kerskála Fjarðaáls og í vetur var hann íhlaupamaður hjá fyrirtækinu. „Ég kom þegar ég gat,“ segir hann, „sem var því miður ekki oft.“ Skiljanlega hefur það ekki verið átakalaust að ná þessum frábæra námsárangri. Í sumar hefur Stefán Aspar unnið í steypuskála Fjarðaáls. Þeir feðgarnir, sem einnig eru nafnar, eru þó ekki á sama stað í steypuskálanum: faðirinn er í deiglustöð og sonurinn á víravélinni.
 
Í haust mun Stefán Aspar hefja nám í lög­fræði við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri. Hann segir: „Ég er afar þakklátur fyrir að hafa hlotið skólastyrk Alcoa og veit að hann mun koma að góðum notum við lögfræðinámið á Akureyri í vetur. Mig langar að ítreka mikilvægi foreldra minna í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég er þeim afar þakklátur.“ Því má bæta við að móðir hans vinnur á leikskólanum í Breiðdalsvík, þar sem fjölskyldan býr.
 
Alcoa Fjarðaál óskar Stefáni Aspari alls hins besta í náminu.