24. maí 2016
Sundkappar á Mið-Austurlandi öfluðu tæpum 1,6 milljónum í þágu aldraðra
Laugardaginn 21. maí efndi heilsueflingarnefnd Alcoa Fjarðaáls í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað til skemmtilegrar keppni milli sundkappa í sundlaugunum í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Egilsstöðum og Seyðisfirði. Alls 257 sjálfboðaliðar syntu samtals 144 km og öfluðu með því tæpum 1,6 milljónum króna sem renna til hjúkrunarheimila á svæðinu.
Heilsueflingarnefnd Fjarðaáls hefur á undanförnum árum staðið fyrir viðburðum til heilsueflingar undir merkjum „Alcoans in Motion” en það er alþjóðlegt átak á vegum Samfélagssjóðs Alcoa í Bandaríkjunum. Það snýst um að a.m.k. fimm manns taki sig saman, safni fleira fólki og hlaupi, syndi, gangi eða hreyfi sig á annan hátt í sameiginlegu átaki. Samfélagssjóðurinn styrkir átakið með 2.500 Bandaríkjadölum, eða um 312.000 krónum sem renna til góðs málefnis.
Á árinu 2016 gafst heilsueflingarteyminu tækifæri til þess að efna til tíu viðburða í stað tveggja. Þeir tíu viðburðir afla samtals 3,1 milljón til góðgerðarmála á Mið-Austurlandi.
Skíðahelgi í apríl
Átakið hófst með tveimur skíðaviðburðum í Stafdal og Oddsskarði snemma í apríl. Þátttakendur gátu farið í samhliða svigbrautir og fengið kennslu í skíðaíþróttum. Í Stafdal söfnuðust 312.000 krónur sem runnu til starfsbrautar Menntaskólans á Egilsstöðum, og í Oddsskarði sama upphæð sem rann til starfsbrautar Verkmenntaskóla Austurlands. Starfsbrautir eru námsbrautir fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika, röskun eða fötlun. Framlagið nýttist unglingunum á starfsbraut til að gera eitthvað skemmtilegt saman.
Tímar í líkamsrækt í maí
Í maíbyrjun var efnt til tveggja annarra viðburða, annars vegar stöðvaþjálfun og þrek hjá Elísabetu Sveinsdóttur og hins vegar jóga og slökun hjá Elínu Einarsdóttur en báðar leiðbeina þær í íþróttahúsinu á Reyðarfirði og gáfu sína krafta í sjálfboðavinnu. Þar söfnuðust 312.000 krónur sem runnu Krabbameinsfélags Austfjarða sem þjónustar íbúa Fjarðabyggðar, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs og aðrar 312.000 krónur sem runnu til Krabbameinsfélags Austurlands, sem þjónustar íbúa Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Borgarfjarðar og Vopnafjarðar.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, framkvæmdastjóri málmvinnslu hjá Fjarðaáli, lagði fram sinn skerf til góðgerðarmála.
„Komdu í sund”
Þann 21. maí efndi heilsueflingarnefndin í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað til keppni milli sundkappa í sundlaugunum í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Egilsstöðum og Seyðisfirði. Á hverjum stað skráðu sjálfboðaliðar sig áður en þeir syntu og gáfu síðan upp vegalengdina sem synt var. Alls tóku 257 manns þátt í þessari skemmtilegu keppni og syntu samtals rúma 144 kílómetra. Styrkirnir fimm, hver að upphæð 312.000 krónur, renna til hjúkrunarheimilanna á stöðunum þar sem synt var, og verða notaðir til þess að lífga upp á tilveru þeirra sem þar dvelja. Staðirnir eru:
• Hjúkrunarheimili FSN í Neskaupstað
• Hulduhlíð á Eskifirði
• Uppsalir á Fáskrúðsfirði
• Dyngjan, Egilsstöðum
• Hjúkrunarheimili Sjúkrahúss Seyðisfjarðar
Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Fjarðaáli er að vonum hæstánægð með afraksturinn. „Við í nefndinni erum algjörlega himinlifandi yfir þátttökunni og stemningunni í sundkeppninni” segir hún. „Það kom upp mikið keppnisskap í stóru sundlaugunum á Eskifirði og Neskaupstað og mjótt var á munum. Að vonum var rólegra í litlu innisundlaugunum á Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði en markmiðið náðist og allir höfðu gaman af. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá hvað krökkunum fannst þetta sniðugt og þau voru hróðug að segja hvað þau syntu mikið.”
Heilsueflingarnefndin lætur ekki deigan síga og efnir til lokaviðburðarins í þessu 2016 átaki þann 11. júní nk. Þá verður farið í 9 kílómetra fjölskyldugöngu í Stapavík. Styrkurinn vegna þess verkefnis mun renna til Mann- og geðræktarmiðstöðvar Ásheima á Egilsstöðum.