18. maí 2016
Innlend útgjöld álvera á Íslandi námu um 92 milljörðum
Grunnstoð í efnahagslífinu var yfirskrift ársfundar Samáls sem haldinn var í Kaldalóni í Hörpu í morgun, 18. maí. Á fundinum var farið yfir málefni áliðnaðarins í erindum sem flutt voru af Magnúsi Þór Ásmundssyni, stjórnarformanni Samáls, Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra, Kelly Driscoll, sérfræðingi hjá greiningarfyrirtækinu CRU, og Gunnari Tryggvasyni hjá KPMG.
Innlend útgjöld álvera á Íslandi námu um 92 milljörðum eða rúmum 250 milljónum á dag árið 2015. Þrátt fyrir lægra álverð eru útgjöldin 10 milljörðum hærri en í fyrra. Kaup álveranna þriggja á vörum og þjónustu, greiðslu opinberra gjalda, launa og samfélagsstyrkja á árinu 2015 er sambærileg tala og áætlað er að kosti að byggja nýjan Landspítala. Þetta kom fram í máli Magnúsar Þórs Ásmundssonar stjórnarformanns Samáls á ársfundi Samáls í morgun.
Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa og stjórnarformaður Samáls, ávarpaði gesti.
Alls fluttu álverin út tæp 860 þúsund tonn af áli og álafurðum í fyrra og námu útflutningstekjurnar 237 milljörðum eða um 38% af vöruútflutningi þjóðarinnar.
Samanlögð raforkukaup álvera á Íslandi námu um 41 milljarði árið 2015 og er þá miðað við meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju. „Það undirstrikar mikilvægi álsins, að á grunni samninga íslenskra orkufyrirtækja við áliðnaðinn hefur byggst upp eitt öflugasta raforkukerfi í heiminum, þrátt fyrir að Íslendingar séu fámenn þjóð í stóru og harðbýlu landi,“ sagði Magnús.
Starfsmenn álvera á Íslandi voru um 1.452 árið 2015, en auk þess voru fastir starfsmenn verktaka inni á álverssvæðunum um 530. „Það hefur skapað fyrirtækjum í heimabyggð margvísleg tækifæri þegar álver úthýsa þeirri starfsemi, sem heyrir ekki til kjarnarekstrar þeirra,“ sagði Magnús. „Þetta er samfélagslega ábyrg stefna sem stuðlar að uppbyggingu þjónustu í nærsamfélaginu og skapar tækifæri fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki til að vaxa. Hagfræðistofnun mat það svo í sinni skýrslu frá 2009 að störf í áliðnaði ásamt afleiddum störfum væru um 5.000 á Íslandi.“
Laun og launatengd gjöld námu í fyrra um 16 milljörðum, en kjarakannanir hafa ítrekað sýnt að álfyrirtækin greiða umtalsvert hærri laun en meðallaun eru á almennum vinnumarkaði. Skattar og opinber gjöld álfyrirtækjanna námu um 6 milljörðum árið 2015.
Álver á Íslandi greiddu tæpa 30 milljarða fyrir kaup á vörum og þjónustu af hundruðum fyrirtækja árið 2015 og eru raforkukaup þá undanskilin. „Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi álframleiðslu á Íslandi fyrir þessi fyrirtæki, en þrátt fyrir að álverð hafi verið lágt síðasta árið er gróskan mikil í íslenskum áliðnaði,“ sagði Magnús. „Til marks um það má nefna að nýfjárfestingar námu rúmum 4 milljörðum króna og er ljóst er að áhugi fyrirtækjanna stendur til að fjárfesta frekar í sínum rekstri á Íslandi á næstu árum.“
Hann rifjaði upp að í skýrslu Hagfræðistofnunar frá því í fyrra kemur fram að heildarframlag álklasans til landsframleiðslu nam nálægt 6,8% á árunum 2011 og 2012, en það samsvarar um 120 milljörðum árið 2012. Ef einnig er horft til eftirspurnaráhrifa var framlagið tæp 9% árið 2012 eða um 160 milljarðar.
Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á vefsíðu Samáls.