08. apríl 2016
Lið Alcoa Fjarðaáls safnaði hæstu upphæðinni í Mottumars 2016
Skeggprúðir karlmenn hafa sett svip á starfssvæði Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði í mars á síðastliðnum sex árum og með mottunni hafa þeir safnað fé til stuðnings rannsóknum á krabbameini hjá karlmönnum. Oft hefur liðið verið nálægt sigri en í ár, síðasta árið sem keppnin er haldin, bar liðið sigur úr býtum.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, framkvæmdastjóri málmvinnslu hjá Alcoa Fjarðaáli, tekur á móti viðurkenninguKrabbameinsfélagsins.
Lið Fjarðaáls hefur tekið þátt í Mottumars síðan árið 2011 og hefur gengið mjög vel, þar sem fyrirtækið hefur ávallt lagt því lið með góðu framlagi. Á þessum sex árum hefur liðið þrisvar sinnum lent í öðru sæti, einu sinni í því þriðja og einu sinni í því fjórða. En í ár hafnaði liðið loks í fyrsta sæti. Alls safnaði liðið 668 þúsund krónum.
Í heild söfnuðust 6,2 milljónir í átakinu í ár.
Samkvæmt Krabbameinsfélaginu fær einn af hverjum þremur karlmönnum krabbamein á lífsleiðinni en ef við þekkjum einkennin og hugum að heilsunni getum við komið í veg fyrir þriðjung krabbameina. Mottumars hefur skipt sköpum í þá átt á síðastliðnum árum. Peningarnir sem hafa safnast í átakinu eru notaðir í forvarnir, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknir.
Miklu munaði um framlag Alcoa Fjarðaáls í ár, sem nam 600.000 krónum. Má segja að framlagið hafi komið frá starfsmönnum fyrirtækisins en í stað þess að gefa starfsmönnum páskaegg, lagði Fjarðaál andvirði páskaeggjanna í söfnunina.
Starfsmenn Fjarðaáls höfðu sett sér það markmið að safna einni milljón króna í ár til baráttunnar gegn krabbameini hjá karlmönnum. Óðinn Ólafsson, vélvirki hjá Fjarðaáli sagði í viðtali við Austurfrétt: „Ég sagði það í upphafi keppni að nú ætlaði ég okkur að vinna og stóð við það.“
Óðinn hefur verið aðalhvatamaður keppninnar innan fyrirtækisins frá upphafi og segir: „Ég vil þakka fyrir stuðninginn frá starfsmönnum og fyrirtækinu í öll þessi ár.“
Óðinn Ólafsson er óneitanlega glæsilegur með mottuna sína.