12. apríl 2016
Alcoa styrkir uppbyggingu náms í efnisfræði og málmfræði
Á málstofu sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík (HR) fimmtudaginn 7. apríl, afhenti Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls skólanum styrk til áframhaldandi eflingar rannsókna og kennslu í efnisverkfræði og málmfræði á háskólastigi. Umfjöllunarefni málstofunnar var efnisverkfræði í sjálfbærri álframleiðslu. Hún var önnur í röð fjögurra málstofa í HR sem fjalla um lífstoðefni, ál, efni sem notuð eru við orkuskipti og áskoranir á sviði jarðhita.
Styrkurinn afhentur. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls (t.v.) og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Alcoa vill efla háskólamenntun á Íslandi
Magnús Þór sagði Samfélagssjóð Alcoa veita fé til verkefna sem tengjast umhverfi, menntun og fræðslu og samfélagsþátttöku starfsfólks. „Samfélagssjóður Alcoa, (Alcoa Foundation) hefur frá árinu 1952 veitt um 590 milljónir dollara til ýmissa verkefna. Það er okkar hlutverk hjá Fjarðaáli að sýna fram á tækifærin á Íslandi og hafa jákvæð samfélagsáhrif en það hefur tekist vel því sjóðurinn hefur komið að fjölmörgum áhugaverðum verkefnum hér. Því til viðbótar veitir Alcoa Fjarðaál samfélagsstyrki á hverju ári fyrir um 140 milljónir króna, þar sem stærsta framlagið á hverju ári hefur verið til Vina Vatnajökuls sem styður við verkefni um rannsóknir og fræðslu á áhrifasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.
Áhugavert framhaldsnám sem sinni þörfum áliðnaðar
Magnús Þór sagði að áliðnaðurinn væri aðlaðandi fyrir nýútskrifaða verkfræðinga og því þyrfti að halda á lofti. „Hjá Fjarðaáli starfa í dag um 90 háskólamenntaðir einstaklingar. Auk þess kaupir fyrirtækið stöðugt þjónustu af fjölda verkfræðifyrirtækja og verktaka með tækniþekkingu. Þó að áliðnaður teljist til grunnatvinnuvegar á Íslandi hafa nemendur þurft að sækja framhaldsmenntun á sviðinu til útlanda. Það er gott að víkka sjóndeildarhringinn en það er engu að síður mín von að hér sé að verða til vísir að áhugaverðu framhaldsnámi sem sinnir þörfum áliðnaðar og verður að lokum sjálfbært og eftirsótt af nemendum."
Magnús Þór benti á að HR hafi sýnt mikið frumkvæði í málinu og færði skólanum þakkir fyrir það. Þá tók hann fram að Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar, hafi fylgt málinu sérstaklega vel eftir. Jafnframt sagði hann: „Það má líka geta þess að Rauan Meirbekova sem nú er í hlutverki verkefnisstjóra hjá HR meðal annars við uppbyggingu þessa náms varði doktorsverkefni sitt á síðasta ári um áhrif óhreininda á straumnýtni í rafgreiningu en doktorsverkefnið var unnið í samvinnu við og styrkt af Fjarðaáli. Það er því með mikilli ánægju sem að ég veiti skólanum núna styrk frá Samfélagssjóði Alcoa upp á 100 þúsund dollara til að byggja undir framhaldsnám á sviði efnis- og málmvísinda.“ Þess má geta að 100 þúsund dollarar eru um 12,4 milljónir króna á núverandi gengi.
Hlutverk HR að efla samkeppnishæfni
Það var Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sem veitti styrknum viðtöku. Hann sagði ál- og málmiðnað vera eina af grunnstoðum efnahagslífsins. „Við höfum rætt það hér meðal okkar innanhúss og með fyrirtækjum að efling menntunar og rannsókna á þessu sviði sé verkefni sem skiptir máli. HR er stærsti tækniháskóli landsins, og er líka háskóli atvinnulífsins. Það er því okkar hlutverk að efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með nýsköpun, samstarfi og rannsóknum. Við þökkum kærlega fyrir þennan stuðning í verki og fyrir þá framsýni að fjárfesta í uppbyggingu menntunar á háskólastigi og hlökkum til samstarfsins á næstu árum.“
Efnisverkfræði kemur við sögu í flestum tækninýjungum
Verið er að auka veg efnisverkfræði sem fræðasviðs við Háskólann í Reykjavík. Þetta svið verkfræðinnar er tengt málmfræði og þéttefnisfræði og hefur áhrif á flestar tækninýjungar. Ísland er að mörgu leyti ákjósanlegur staður til kennslu og rannsókna í efnisverkfræði enda eru framleidd hér á landi meira en 800.000 tonn af áli á hverju ári og kísilframleiðsla eykst hratt. Þrátt fyrir að þessi iðnaður sé afar mikilvægur atvinnulífinu, hefur lítið verið um rannsóknir á þessu sviði á Íslandi.