17. ágúst 2018

Sendiráð Póllands á Reyðarfirði

Laugardaginn 23. júní síðastliðinn var pólska sendiráðið með afgreiðslu í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Gerard  Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, og Jakub Pilch, sendiráðsritari, afgreiddu þar ýmis erindi Pólverja sem búa á Austurlandi. Meðal annars fengu nokkrar fjölskyldur vegabréf sín endurnýjuð og spöruðu sér þannig ferðalag til Reykjavíkur. Áður hafði pólska sendiráðið verið með sams konar þjónustu á Ísafirði og Akureyri.

Gerard  Pokruszyński segir að viðtökurnar hafi verið vonum framar og allar líkur séu á að þetta verði fastur liður í starfsemi sendiráðsins. Meira en 14.000 pólskir ríkisborgarar búa vítt og breitt um Ísland. Sendiherrann segir mikilvægt að sendiráðið þekki hagi þeirra og komi sem best til móts við þarfir þeirra.

Polska_sendirad_Gerard

Gerard Pokruszyński, sendiherra Pólands á Íslandi, afgreiðir umsóknir um endurnýjun vegabréfa í álverinu á Reyðarfirði.

Gerard  Pokruszyński og Jakub Pilch notuðu tækifærið og skoðuðu álverið og ræddu við pólska starfsmenn í leiðinni. Sendiherrann segir að hljóðið í samlöndum hans hafi almennt verið mjög gott. Flestir hafi aðlagast vel íslensku samfélagi og sumir séu að ala upp aðra eða jafnvel þriðja kynslóð Pólverja á Íslandi. Tungumálið geti þó vissulega verið hindrun og mikilvægt sé að bjóða upp á íslenskunám fyrir Pólverja á vinnumarkaðnum.

Gerard segist þekkja af eigin raun að íslenskan sé ekki auðveld viðureignar. Hann tók við starfinu í janúar á þessu ári og leggur hart að sér í íslenskunámi. En Gerard segir einnig æskilegt að boðið sé upp á pólskukennslu fyrir börn af pólskum uppruna í grunnskólum á Íslandi. Þannig haldi þau betri tengslum við Pólland og eigi auðveldara með að fara þangað síðar í nám.