05. júlí 2018

Mikil uppbygging á fjölskyldu-og útivistarsvæði í Skrúðgarðinum á Fáskrúðsfirði


Á undanförnu ári hafa styrktarsjóði Fjarðaáls borist nokkrar umsóknir frá félagasamtökum í nærliggjandi bæjarfélögum fyrir uppsetningu ærslabelgs en sá kostagripur nýtur mikilla vinsælda um land allt. Ærslabelgur veitir ungum sem öldnum tilvalið tækifæri til þess að njóta hollrar hreyfingar í góðum félagsskap.

Mikið hoppað á Fáskrúðsfirði

Haustið 2017 fengu Íbúasamtök Fáskrúðsfjarðar 300.000 króna styrk frá Samfélagssjóði Fjarðaáls til þess að útbúa fjölskyldu- og útivistarsvæði í Skrúðgarðinum fyrir alla aldurshópa.

Hrefna Eyþórsdóttir segir: „Ég vil byrja á að þakka fyrir styrkveitinguna. Í fyrrahaust náðum við með fjáröflun meðal einstaklinga og félagasamtaka að safna fyrir ærslabelg sem var settur upp á fjölskyldusvæðinu. Það var mikil gleði og mikið hoppað en þegar belgurinn kom úr vetrardvala var ákveðið að setja fallvarnarmottur umhverfis belginn og nýttist hluti af styrknum frá Fjarðaáli í kaup á mottunum. Það var því vinnudagur nýlega þar sem nokkrir foreldrar, afar og ömmur komu saman og settu niður motturnar og breyttist umhverfi belgsins til muna. Nú er umhverfið snyrtilegra og öryggi barnanna tryggt.“

Samtökin láta ekki deigan síga. „Verkefnið sem við erum að klára núna er að setja upp frisbígolfvöll og er vinnan við hann er á lokametrunum. Það verður hægt að fara í frisbígolf hér á Fáskrúðsfirði í júní ef allt gengur upp. Það sem eftir var af samfélagsstyrknum fór í að greiða fyrir uppsetningu á vellinum,“ segir Hrefna.

Fleiri ærslabelgir á leiðinni

Í vorúthlutun styrkja frá styrktarsjóði Fjarðaáls 2018 var Foreldrafélagi Grunnskóla Reyðarfjarðar veittur 300.000 kr. styrkur fyrir uppsetningu ærslabelgs, Foreldrafélag Leikskólans Lyngholts fékk 100.000 króna styrk fyrir hönnun á leiksvæði með ærslabelg og Íbúasamtök Eskifjarðar fengu styrk að upphæð 300.000 kr. fyrir ærslabelg sem settur verður á Eskjutúninu.

Skrudgardur_Faskrudsfirdi_mottur

Nokkrir foreldrar, afar og ömmur komu saman á vinnudegi og settu niður fallvarnarmottur hjá ærslabelgnum.

 
Skrudgardur_Faskrudsfirdi_mottur

Umhverfi ærslabelgsins er snyrtilegra og öruggara eftir að mottum var komið upp í kringum hann. Krakkarnir skemmta sér vel í fallegu umhverfi á Fáskrúðsfirði.