Áfram


Prentvæn útgáfa
go

17. október 2013
Fjölskylduganga á sunnudaginn í þágu krabbameinssjúkra

Á sunnudaginn, þann 20. október, munu starfsmenn Fjarðaáls ásamt fjölskyldum sínum ganga hina vinsælu gönguleið að Hengifossi, og styrkja um leið Þjónustumiðstöð krabbameinssjúkra á Austurlandi. Allir eru velkomnir til þess að taka þátt í göngunni en þátttakan er ókeypis. Tilvalið er fyrir einstaklinga og fjölskyldur að slást í hópinn og styrkja um leið gott málefni.

Starfsmannafélag Fjarðaáls, Sómi ásamt heilsueflingarnefnd fyrirtækisins standa fyrir gönguferðinni en hún er liður í framtaki sem nefnist á ensku „Alcoans in Motion“ (AiM). Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) setti það framtak á laggirnar, sem felst í því að starfsmenn Alcoa víðs vegar um heiminn ásamt öðrum einstaklingum í samfélaginu sínu efla eigin heilsu með því að hreyfa sig og safna um leið fé í þágu góðgerðasamtaka.

Í fyrra tóku starfsmenn Fjarðaáls þátt í átakinu „Gengið til góðs“ undir merkjum AiM og öfluðu með því rúmlega 300 þúsund kr. frá Samfélagssjóði Alcoa fyrir Krabbameinsfélag Austfjarða.

Nú í ár var ákveðið að ráðast í tvö verkefni.

Hið fyrra var í júnímánuði þegar um 60 starfsmenn Fjarðaáls, ásamt mörgum öðrum þátttakendum, gengu á Grænafell. Með göngunni í blíðviðrinu söfnuðu göngugarparnir, ungir sem aldnir, um 300 þúsund krónum fyrir lífstílsnámskeið Fjórðungssjúkrahússins á Norðfirði en þessi námskeið hafa bjargað lífi og heilsu fjölmargra Austfirðinga.
Seinna AiM verkefnið árið 2013 verður á sunnudaginn, þann 20. október.

Gönguleiðin að Hengifossi getur veitt ómetanlega upplifun fyrir þátttakendur sem munu um leið safna fé fyrir Þjónustumiðstöð krabbameinssjúkra á Austurlandi. Hengifoss í Fljótsdal er þriðji hæsti foss á Íslandi, um 128 metra hár, og stuðlabergið í kringum hann er sérstaklega eftirtektarvert. Gönguleiðin er tiltölulega létt og hentar því bæði börnum og fullorðnum, og reyndur leiðsögumaður mun leiða hópinn.

Mikilvægt er að sem flestir mæti til þess að fullur styrkur (um 300 þúsund krónur) verði veittur til Þjónustumiðstöðvarinnar. Áhugasamir mæti vel klæddir, í góðum skóm og með göngustafi á bílastæðið við Hengifossá kl. 12:00 á sunnudaginn. Eftir gönguna býður starfsmannafélagið Sómi upp á kaffihlaðborð. Einnig fá allir þátttakendur bol frá Samfélagssjóði Alcoa til minningar um skemmtilega samverustund og útiveru.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Tignarlegur foss


Hengifoss er óneitanlega tignarlegur og stuðlabergið er einstakt. Myndin er frá Wikimedia en hana tók Dariusz Freliga (Burras).Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Leiðin að fossinum


Á vefsíðunni Land og saga er að finna ýmsar upplýsingar um gönguleiðir á Austurlandi, m.a. þetta kort, en Hengifoss er nr. 9 á myndinni.
Landogsaga.is