Áfram

31. maí 2013
Konur 40% sumarstarfsmanna

Alcoa Fjarðaál hefur ráðið 96 manns til afleysingastarfa í sumar, 39 konur og 57 karla. Flest þeirra sem ráðin voru, eða 87, munu ganga vaktir við framleiðslustörf í kerskálum, en einnig er um að ræða störf við ýmis sérhæfð verkefni fyrir sérfræðinga hjá álverinu.

Fjöldi sumarstarfsmanna í ár verður svipaður og verið hefur undanfarin ár, en alls sóttu rúmlega 600 manns um starf. Þau sem ráðin voru eru langflest á aldrinum 19 til 24 ára, hafa áður verið við sumarstörf hjá álverinu og eiga rætur að rekja til svæðisins.
 
Valgerður Vilhelmsdóttir í mannauðsteymi Alcoa Fjarðaáls, segir að um 30% þeirra sem ráðin voru hafi áður starfað í sumarafleysingum hjá fyrirtækinu. „Um það bil 70 prósent þeirra sem sóttu um eru héðan að austan eða eiga rætur hingað, 20 prósent koma af höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og um 10 prósent eru að norðan,“ segir Valgerður.
 
Hjá Fjarðaáli verða sumarstarfsmenn að hafa bílpróf, vera orðnir 18 ára og hafa staðið sig vel í vinnu til þessa.