Áfram

9. nóvember 2012
Flúor undir mörkum

Eins og komið hefur fram tilkynnti Fjarðaál þann 5. október um niðurstöður úr árlegum sýnatökum á grasi í nágrenni Alcoa Fjarðaáls. Þær sýndu að styrkur flúors í grasinu var hærri á þessu ári en hann hefur verið undanfarin ár. Þá þegar var Umhverfisstofnun tilkynnt um málið jafnframt því sem ítarleg vinna hófst við greinigu á orsökum vandamálsins. Jafnframt fól Fjarðaál Náttúrustofu Austurlands að taka sýni úr heyfeng sumarsins á svæðinu til að greina ástand fóðursins.

Í öllum tilfellum undir hámarksgildum
Niðurstöður Náttúrustofu bárust Fjarðaáli 19. október og voru þá þegar sendar Matvælastofnun. Safnað var sýnum af túnum í Reyðarfirði og sýna niðurstöður mælinga að magn flúors var í öllum tilfellum undir hámarksgildum (<50 mg/kg). Í tveimur mælingum reyndist magn flúors yfir mörkum fyrir mjólkandi dýr (>30 mg/kg eftir endurútreikning miðað við 88% þurrefni fóðurs). Í báðum tilfellum var um að ræða tún sem hestamenn í Reyðarfirði heyja fyrir hross en mælingarnar eru vel undir hámarksgildum fyrir fóður sem ætlað er hrossum.
 
Ekki ástæða til að óttast
Á vef Matvælastofnunar segir m.a. af þessu tilefni: „Niðurstöður mælinga á heyi gefa ekki tilefni til breyttrar afstöðu Matvælastofnunar. Ekki er tilefni til að ætla að fólki stafi hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta af svæðinu og telur stofnunin ekki ástæðu fyrir bændur að breyta búháttum sínum, fóðrun eða beitarvenjum. Hins vegar er mikilvægt að fyrirbyggja uppsöfnun flúors í lífríkinu og að fyrirtæki viðhaldi viðeigandi vöktunaráætlun og tækjabúnaði til að halda mengandi starfsemi innan þeirra marka sem starfsleyfi frá Umhverfisstofnun kveða á um.“
 
Íbúafundur
Fjarðaál hélt íbúafund á Reyðarfirði sunnudaginn 21. október. Um 50 manns mættu til fundarins, sem tókst vel í alla staði. Á fundinum skýrðu Geir Sigurpáll Hlöðversson, framkvæmdastjóri umhverfismála, heilsu og öryggis, ástæður flúoraukningarinnar. Að loknu erindi Geirs var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal.
 
Samverkandi þættir
Í máli Geirs kom m.a. fram að nokkrir samverkandi þættir skýra ástæðu hækkunarinnar, en þær eru lekir síupokar í þurrhreinsivirki, bilun í tæknibúnaði og einn súrálsfarmur, sem Fjarðaáli barst og innihélt of hátt hlutfall fínefna. Einnig má rekja ástæðuna til ytri aðstæðna, svo sem óvenju lítillar úrkomu í sumar, en rigning skolar gróður af ryki, staðbundinnar austlægrar áttar og síðan óvenju hlýs ágústmánuðar sem olli auknu álagi í kerskálum.
 
Umhverfismál Alcoa
Alcoa Fjarðaál tekur umhverfsimál mjög alvarlega og setur sér ströng markmið í þeim efnum. Sú bilun sem gerði að verkum að við sáum ekki tafarlaust þegar aukningin hófst olli miklum vonbrigðum og vinna við úrbætur til að tryggja sem kostur er að slíkt gerist ekki aftur stendur yfir.
 
Ýmsar aðgerðir standa yfir
Nú þegar hefur verið gripið til margvíslegra ráðstafana í því skyni að draga sem kostur er úr líkum á frávikum sem þeim sem urðu í sumar. Þær felast meðal annars í fjölgun nema til að unnt sé að bregðast hraðar við frávikum auk þess sem teknar hafa verið upp handvirkar mælingar sem eins konar aukaeftirlit ofan á sjálfvirkt tölvustýrt eftirlit.