Áfram

11. september 2012
Fjarðaálsfréttir tileinkaðar starfsemi í 5 ár

Í nýjasta tölublaði Fjarðaálfrétta, sem nýlega komu út, er aðdragandi og upphaf framkvæmda við byggingu álsvers Alcoa Fjarðaáls rifjuð upp ásamt því sem fjallað er um starfsemi þess fyrstu fimm árin og þau áhrif sem vinnustaðurinn hefur haft á þróun samfélagsins eystra á þessum árum.

Meðal þess sem fram kemur í leiðara forstjóra Fjarðaáls, Janne Sigurðsson, er að á áratugnum áður en framkvæmdir hófust við byggingu álversins, hafi fólki á Mið-Austurlandi fækkað um 1200, sem svari næstum til allra íbúa á Eskifirði. Síðan þá hefur íbúum á sama svæði fjölgað um eitt þúsund.
 
Fjöldi viðtala
Í blaðinu er fjöldi viðtala við þá sem komu að undirbúningi þess að álver risi á Austurlandi. Rætt er við starfsmenn, sem rifja upp hamaganginn í aðdraganda fyrstu álframleiðslunnar í apríl 2007 og íbúa á svæðinu, sem lýsa upplifun sinni á þeim breytingum sem orðið hafa í atvinnumálum svæðisins. Einnig er rætt við bæjarstjóra Fjarðabyggðar og atvinnurekendur, sem eflt hafa starfsemi fyrirtækja sinna á undanförnum árum í tengslum við margvíslega þjónustu við álverið, og fjölmarga aðra.
 
Var að blæða út
Meðal þeirra sem rætt er við er Smári Geirsson, fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í Fjarðabyggð. Smári segir m.a. að staðan hafi verið orðin þannig eftir 1990 að full ástæða hafi verið til að hafa verulegar áhyggjur enda hafi sveitarfélaginu hægt og bítandi verið að blæða út. „Við sáum að það varð að finna ný tækifæri, nýja atvinnugrein sem væri að minnsta kosti jafn mikilvæg og öflug og sjávarútvegurinn.“
 
Fólk fylltist bjartsýni
Smári segir að jafnskjótt og skrifað hafi verið undir samning við Alcoa hafi íbúar á ný fengið trú á því að það væri framtíð í því að búa og starfa á Austurlandi. Hann segir ennfremur að flest þau samfélagslegu áhrif sem spáð hefði verið hafi komið fram. Íbúum hafi fjölgað, meðalaldur á áhrifasvæði álversins lækkað og menntunarstigið farið hækkandi.
 
Erfitt en ánægjulegt
Einnig er rætt við Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra, og Geir H. Haarde, fyrrverandi fjármálaráðherra og síðar forsætisráðherra, en bæði komu þau mikið við sögu er samið var við Alcoa um byggingu álsversins. Valgerður segir að þótt verkefnið hafi verið verulega erfitt á köflum hafi vinnan og niðurstaðan verið ánægjuleg. Geir segir að þegar horft sé til baka sé óhætt að segja að ákvörðun um álverið hafi verið rétt ákvörðun enda blasi við mikilvægur vinnustaður sem hafi verið gríðarleg innspýting í samfélagið og fyrir efnahags þjóðarbúsins í heild.
 
Fjölda annarra viðtala og umfjallana er að finna í nýjum Fjarðaálsfréttum.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Viltu skoða blaðið?


Hægt er að hlaða niður blaðinu til þess að skoða eða prenta út.
skoða blaðið (3,45 Mb)

Skoða eldri blöð


Fjarðaálsfréttir er ríkulega myndskreytt blað sem dreift er til allra heimila á Mið-Austurlandi. Blaðið hefur verið gefið út síðan 2008. Smelltu á slóðina hér fyrir neðan til að skoða eldri blöð.
fara á síðu Fjarðaálsfrétta