Áfram

7. september 2012
Íþróttasvæðið á Neskaupstað vinsælasti rúnturinn í bænum eftir snyrtiherferð sjálfboðaliða

Hópur sjálfboðaliða á vegum Fjarðaáls, yfir 70 manns, tók sig saman um síðustu helgi til að vinna að endurbótum á íþróttasvæði Þróttar í Neskaupstað. Allt umhverfi íþróttavallarins var fegrað og snyrt, arfi reittur, veggir og geymslur málaðar og nýjar fánastangir settar upp. Árangurinn lét ekki á sér standa: Vinsælasti rúntur bæjarbúa um kvöldið var að aka framhjá íþróttasvæðinu til virða fyrir sér dagsverkið.

Á hverju ári taka starfsmenn Alcoa Fjarðaáls saman höndum með nágrönnum sínum og vinna hópverkefni fyrir frjáls félagasamtök eða stofnun í sínu samfélagi. Má nú víða sjá merki þess fyrir austan. Verkefnið á Neskaupstað var eitt svokallaðra Actionverkefna sem Samfélagssjóður Alcoa styrkir með fjárframlögum, en mikil áhersla er lögð á virkt sjálfboðastarf starfsmanna hjá fyrirtækinu um allan heim.
 
Mótorcross á Reyðarfirði
Verkefnið á Neskaupstað var ekki eina Actionverkefni síðustu helgar því á Reyðarfirði unnu rúmega 20 starfsmenn Fjarðaáls að viðhaldi á 1.300 metra langri mótorcrossakstursbraut Vélhjólaíþróttaklúbbs Fjarðabyggðar til að gera brautina klára fyrir æfingar og keppnir.
 
Reindalsheiði á morgun, laugardag
Á morgun, laugardag, stendur svo til að endurmerkja gömlu póstleiðina milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdals um Reindalsheiði með félögum í Göngufélagi Suðurfjarða. Reindalsheiði er vörðuð póstleið og var aðalleið milli Breiðdals og Fáskrúðsfjarðar áður en vegasamband komst á. Gönguleiðin er um 9 kílómetrar, bæði falleg og skemmtileg enda ein margra vinsælla gönguleiða ferðamanna um Austfirði.

Þátttakendum verður skipt í tvo hópa en merkja á leiðina frá báðum endastöðum, við Tungu í Fáskrúðsfirði og Gilsá í Breiðdal. Lagt verður af stað klukkan 10 í fyrramálið og er ætlunin að mála eldri stikur og setja nýjar í stað ónýtra.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Veggur tekur stakkaskiptum


Hluti hópsins hreinsaði gamlar málningarflögur af þessum vegg ...Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Þróttarliturinn, auðvitað


... og málaði hann svo gulan.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Þrjár fánastangir


Fjárstyrkurinn sem Samfélagssjóður Alcoa greiddi með verkinu kom sér vel til kaupa á fánastöngum við völlinn. Hér reisa sjállfboðaliðar fánastangirnar.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Fríður hópur


Samtals tóku um 70 manns þátt í verkefninu. Hér er hluti hópsins að loknu verki. Fánar Þróttar og Alcoa blakta við hún á nýju fánastöngunum, með íslenska fánann í miðjunni.