Áfram

9. júní 2012
Ný kersmiðja Alcoa Fjarðaáls tekin til starfa

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra og Janne Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls opnuðu formlega nýja kersmiðju Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði í dag að viðstöddum þingmönnum, sveitarstjórnarmönnumog fleiri góðum gestum. Fjöldi starfsmanna Alcoa Fjarðaáls var einnig við athöfnina. Í kjölfarið hóf smiðjan starfsemi og lauk þar með endanlega byggingu álversins, sem hófst árið 2004.

Kostnaður við nýju kersmiðjuna nemur 36 milljónum dollara, eða sem svarar til 4,6 milljarða íslenskra króna miðað við gengi í dag. Fyrsta skóflustungan var tekin að byggingunni í nóvember árið 2010 og var hún eitt og hálft ár í byggingu. Fulltrúi kanadísku verkfræðistofunnar HATCH afhenti starfsmönnum Fjarðaáls lykil að kermiðjunni við opnunina, en HATCH hafði umsjón með byggingunni í samstarfi við HRV. Um 100 manns unnu við bygginguna þegar mest var.
 
Starfsemi kersmiðjunnar hefur verið boðin út og hefur Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar tekið að sér að reka hana í samræmi við þær ströngu kröfur sem Alcoa gerir í umhverfis- og öryggismálum. VHE hefur ráðið um 50-60 manns til að sinna kerfóðrun og kerviðgerðum. Starfsemin fer fram í nýju kersmiðjunni og að hluta í smiðju VHE á álverssvæðinu.
 
Við þetta tækifæri sagði ráðherra m.a.: „Það er mikið fagnaðarefni fyrir mig að vera með ykkur hér á þessum tímamótum. Ég fagna því sem iðnaðarráðherra að hér er fjöldi nýrra starfa að skapast og ég fagna verksmiðjunni sem fjármálaráðherra auknum umsvifum og auknum tekjum í ríkiskassann. Álverið á Reyðarfirði hefur verið mikil lyftistöng fyrir Austurland. Íbúum hér á Austurlandi hefur fjölgað um 1.000 síðan álverið tók til starfa."Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Klippt á borðann


Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls (t.v.) og Oddný Harðardóttir, iðnaðarráðherra, klipptu á borðann og opnuðu formlega kersmiðjuna.