Áfram

2. maí 2012
Um 100 manns ráðin til sumarafleysinga

Liðlega 450 manns sóttu um sumarstörf hjá Alcoa Fjarðaáli og hafa rúmlega eitt hundrað manns verið ráðin úr þeim hópi. Það er svipaður fjöldi og undanfarin ár.

Guðný Björg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Fjarðaáli, segir að um 40% þeirra sem ráðin voru hafi áður starfað í sumarafleysingum hjá fyrirtækinu. Hún segir ennfremur að í kringum 60% þeirra sem sæki um sumarstörf séu að austan eða eigi nákomna ættingja þar. „Um 30% koma af höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og 10% koma að norðan,“ segir Guðný.
 
Hjá Fjarðaáli verða sumarstarfsmenn að hafa bílpróf, vera orðnir 18 ára og hafa staðið sig vel í vinnu til þessa.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Námskeið fyrir sumarstarfsfólk


Líkt og allir aðrir starfsmenn Fjarðaáls þurfa sumarstarfsmenn að sækja námskeið þar sem þeir fá m.a. fræðslu um starfsemi fyrirtækisins og mikil áhersla er lögð á öryggismál. Myndin sýnir nokkra sumarstarfsmenn á námskeiði í fyrra. Enda þótt þar sjáist eingöngu karlmenn er hópurinn skipaður bæði konum og körlum.