Áfram

23. maí 2012
Bongóblíðu spáð á samfélagsdegi á Austurlandi á laugardag

Laugardaginn 26. maí nk. taka sveitarfélögin á Mið-Austurlandi og starfsmenn Alcoa Fjarðaáls saman höndum ásamt íbúum landshlutans og láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins.

Um árabil hefur Fjarðaál staðið fyrir sjálfboðaliðaverkefnum á svæðinu sem hafa bætt möguleika íbúa svæðisins til útiveru, íþrótta og samveru, t.d. með gerð útiskólastofa á Egilsstöðum og Reyðarfirði, gerð göngustíga, aðhlynningu íþróttasvæða, bættri aðstöðu björgunarsveita og fleira. Þá hafa sveitarfélögin hvatt íbúa sína til þess að bretta upp ermarnar og fegra umhverfi sitt á vorin sem og á öðrum árstímum.
 
Í ár þótti tilvalið að slá þessum verkefnum saman og halda stóran „samfélagsdag” þar sem bæði starfsmenn Fjarðaáls og aðrir íbúar vinna á ákveðnum stöðum og koma svo saman að verki loknu til þess að njóta grillveislu.
 
„Ég hvet alla, hvar sem þeir eru, til að bretta upp ermarnar og taka þátt,” segir Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls. „Það er tilvalið að taka börnin, pabba og mömmu, afa og ömmu með í skemmtilega samverustund og láta gott af sér leiða.”
 
„Veðurspáin er líka svo góð!” segir Janne, en Veðurstofan hefur spáð um 27°C hita á Austurlandi á laugardaginn.
 
Á öllum stöðunum verður unnið frá kl. 10:00-14:00 og er fólki velkomið að bætast í hópinn þegar því hentar. Klukkan 14:00 verður grillveisla þar sem árangrinum verður fagnað.
 
Vert er að taka fram að sum verkefnanna eru á vegum bæjarfélagsins, félagasamtaka eða fyrirtækja en önnur teljast svokölluð ACTION-verkefni á vegum Fjarðaáls. Bæjarbúar og starfsmenn Alcoa eru hvattir til að taka þátt í verkefnum óháð því hvorum flokknum þau tilheyra.
 
ACTION merkir einungis að ef nógu margir starfsmenn Fjarðaáls taka þátt renna 170.000 eða 340.000 kr. til viðkomandi félagasamtaka, eftir fjölda starfsmanna.
 
Athugið að Fljótsdalshérað er með fjölda verkefna sem ekki eru talin hér upp en lista yfir öll verkefnin er að finna á heimasíðu Fljótsdalshéraðs. Einnig er nánar fjallað um verkefnin í Fjarðabyggð á heimasíðu Fjarðabyggðar. Mæting kl. 10:00 á öllum neðangreindum stöðum.
 
FJARÐABYGGÐ: Útiblakvöllur á Neskaupstað
Á Neskaupstað er kominn útiblakvöllur en hugsjón blakdeildar Þróttar er að svæðið í kringum vellina verði skemmtilegt útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna. Að loknum vinnudegi verður blásið til blakmóts í sandinum. ACTION-verkefni.
 
FJARÐABYGGÐ: Sundlaugin á Eskifirði
Fegrun í kringum sundlaugina á Eskifirði, ásamt UMF Austra. 
 
FJARÐABYGGÐ: Skógræktarreitur á Fáskrúðsfirði
Skógargrisjun á Fáskrúðsfirði vegna ofanflóða. 
 
FJARÐABYGGÐ: Steinasafnið á Stöðvarfirði
Lagning stígs frá Steinasafni Petru niður að höfninni.  .
 
FJARÐABYGGÐ: Grunnskólinn á Reyðarfirði
Unnið í samvinnu við Foreldrafélag grunnskólans á Reyðarfirði. Ýmiss konar lagfæringar umhverfis skólalóðina, gróðursetning og fleira.  ACTION-verkefni.
 
FLJÓTSDALSHÉRAÐ: Hattardagurinn – Vilhjálms- og Fellavöllur
Í samvinnu við Hött og Alcoa, sem ACTION-verkefni, verður tekið til á vallarsvæðunum m.a. verða trjásvæði snyrt, girðingar lagfærðar, pylsuvagninn gerður upp og fluttur ofl. Mæting við Vilhjálms- og Fellavöll.
 
FLJÓTSDALSHÉRAÐ: Gálgaklettur
Í samvinnu við Rótarý verður sagan um Valtý á grænni treyju gerð sýnilegri með merkingu og lagfæringu á stíg.
 
FLJÓTSDALSHÉRAÐ: Miðvangsplan
Fjöldamörg fyrirtæki koma að verkefninu og leggja því lið með kaupum á mini-golfbrautum og vinnu við frágang og annað á svæðinu. Nánar um aðkomu þessara aðila má sjá á heimasíðu Fljótsdalshéraðs.
 
FLJÓTSDALSHÉRAÐ: Blómabeð
Fjöldamörg fyrirtæki útbúa blómabeð á þremur stöðum við aðalgötur í Fellabæ og á Egilsstöðum. Nánar um aðkomu þessara aðila má sjá á heimasíðu Fljótsdalshéraðs.
 
FLJÓTSDALSHÉRAÐ: Miðbæjarplan við Kaupvang/Fagradalsbraut
Fyrirtæki koma að verkefninu með þöku- og hellulögn og setja niður bekki. Nánar um aðkomu þessara aðila má sjá á heimasíðu Fljótsdalshéraðs.
 
FLJÓTSDALSHÉRAÐ: Lagfæringar í Hjaltalundi
Unnið í samvinnu við Kvenfélagið Björk og UMF Fram. Gróðursetning og grisjun við félagsheimilið. Mæting í Hjaltalundi.
 
SEYÐISFJÖRÐUR: Umhverfi knattspyrnuvallar fegrað
Unnið í samvinnu við knattspyrnudeild íþróttafélagsins Hugans. Skógrækt og grisjun við knattspyrnuvöllinn. ACTION-verkefni. Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Forstjórinn leggur sitt af mörkum


Janne Sigurðsson hefur reglulega tekið þátt í sjálfboðaverkefnum Alcoa en hér er hún í Action-verkefni fyrir Golfklúbb Byggðaholts á Eskifirði sumarið 2010.